Dóttir mín, ég sakna þín

Hún er farin.

Ég vill trúa því að nú svífi hún um meðal englanna og að nú sé hún frjáls og líði vel. Henni leið ekki vel í þessu jarðlífi.

Hún var dóttir mín, ljóshærð með bláu augu pabba síns. Sem barn var hún kát og fyrirferðamikil, já hún hélt manni við efnið.

Hún átti alltaf erfitt félagslega og eignaðist ekki vini í grunnskóla var eiginlega bara afskipt og ein alla skólagönguna.

Þegar hún er 12 ára kynnist hún stúlknahóp og ég fagnaði innilega í hjartanu yfir því að hún væri búin að eignast vinkonur. Það var svo gott að sjá hana blómstra í hóp, ég passaði mig að halda ekki of fast svo hún fengi minn stuðning við að tengjast hópnum.

Fyrst um sinn var þessi nýi hópur mesta himnasending sem hafði komið í langan tíma því hún var einmana og leið vinalaus. Svo breyttist allt nánast á einni nóttu.

Hún hætti að koma heim á nóttunni, var ókurteis, hætti að mæta í skólann. Allt í einu var ljóshærða stelpan mín með bláu augun orðin dökkhærð með kalt augnaráð. Hún vildi ekki eiga samskipti við okkur og hvarf lengra og lengra inn í vinahópinn.

Ég fékk símtal frá lögreglunni þar sem mér var tjáð að dóttir mín hefði verið þátttakandi í grófri líkamsárás og væri í mjög annarlegu ástandi.

Ég kom alveg af fjöllum. Ég hafði alveg séð breytinguna en skrifaði það allt á uppreisn unglingsáranna, datt ekki í hug að hún væri að nota eiturlyf eða að hún væri partur af undirheimunum.

Hvað hafði ég gert rangt?

Af hverju var barnið mitt komið á þennan stað?

Ég leitaði svara innra með mér en fann ekkert nema ótta og reiði jú og skömm. Hvað segir fólk þegar þetta fréttist út?

Árin liðu og hún sökk dýpra og dýpra fjarðlægðist okkur meira og meira.

Ég varð sorgmæddari og sorgmæddari, uppgefnari og uppgefnari.

Hvenær ætlaði þessu að ljúka?

Hún fór oft í meðferð en náði aldrei góðu tímabili. Hún var helsjúk af fíknisjúkdómnum og ég gat ekkert gert nema horfa á.

Tveimur dögum eftir 25 ára afmælið hennar komu lögreglan og prestur heim og tilkynntu andlát hennar.

Þetta var búið, ég skammaðist mín fyrir að finna fyrir létti um leið og hjarta mitt molnaði af sorg.

Hún var frjáls úr þessu ömurlega lífi fíkilsins og komin á betri stað meðal englana en ég myndi aldrei aftur fá að strjúka henni um hárið eða sjá fallegu bláu augun hennar.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here