„Dóttir mín mun upplifa kröfur hins útlitsdýrkandi samfélags“ – Helga skrifar bréf til Ásdísar Ránar

Helga er 32 ára gömul móðir sem á 1 árs stúlku og er í sambúð. Hún, ásamt flestum öðrum sá auglýsingu Ásdísar Rán á netinu, þar sem hún auglýsir eftir „húsmóður“ sem vill fara í 3 mánaða beauty/Fitness átak og annarri til að fara botox og fleiri lýtaaðgerðir. Screen Shot 2014-01-15 at 3.18.27 PM

Helga svaraði auglýsingu Ásdísar Ránar með bréfi á Facebook, sem kemur hér á eftir:

 

Sæl Ásdís Rán,
Ég heiti Helga og er 32 ára móðir eins árs stúlku og er í sambúð með föður hennar. Líkami minn ber þess merki að ég hafi gengið með og fætt barn. Maginn er mjúkur og enn sjást slit á maga og lærum. Frá unga aldri hefur sú tilfinning að ég sé „ekki nóg“ verið allt of ríkjandi. Að ég sé ekki nógu falleg, ekki nógu grönn, ekki með nógu stór brjóst, ekki með nógu stórar varir, ekki nógu hávaxin o.s.frv. Þetta er virkilega vond tilfinning sem elur á sjálfshatri og fullkomnunaráráttu. Í slíku ástandi er maður ginnkeyptur fyrir alls kyns lausnum á þessum meintu vandamálum eins og þau eru kölluð í menningunni okkar. Menningu sem elur á virkilega óraunhæfum fyrirmyndum í tímaritum, dagblöðum, kvikmyndum og sjónvarpsefni en býður svo upp á heilan iðnað af lausnum sem eiga færa okkur hamingjuna með breyttu og bættu útliti. Kröfurnar eru svo gríðarlegar að til þess að geta komist nálægt þeim brengluðu, óraunhæfu og fótósjoppuðu staðalmyndum sem þar er að finna virðist sem konur þurfi bæði að borða miklu minna en æskilegt getur talist og fara í fegrunaraðgerðir af ýmsum toga. Meira að segja það er ekki nóg. Það virðist stöðugt hægt að ganga lengra. Fegrunaraðgerðir á kynfærum kvenna eru gott dæmi, en þar virðist frumskylda lækna til að valda einstaklingum ekki skaða, víkja fyrir fáránlegustu kröfum taumlausrar útlitsdýrkunnar án þess að nokkur geri athugasemdir við. Þetta er jú „val“ kvennanna, en valið á sér stað í samfélagi sem er fyrirmunað að fagna fjölbreytileikanum eða taka konum eins og þær eru. Væri ekki nær að breyta samfélaginu?

Þegar ég uppgötvaði femínisma á unglingsárunum fannst mér sú hugmyndafræði vera frelsandi frá þessari útlitsþráhyggju sem gegnsýrir samfélagið. Fyrir mér kristallast kjarni femínisma í þessari einföldu setningu „Að vera kona er að ganga í of litlum skóm. Að vera femínisti er að skilja ástæðuna fyrir því og fræða aðra um að það eru ekki fæturnir sem eru of stórir heldur skórnir sem eru of litlir” (Píkutorfan, bls. 90).

Ég held að innst inni viljum við báðar það sama, að konur séu hamingjusamar og ánægðar með sig. Ég þarf virkilega á hjálp þinni að halda, ekki til að „laga“ mjúkan maga eða slitin læri. Það eru mín heiðursmerki sem ég vona að hverfi aldrei. En dóttir mín, sem enn er ung að aldri, mun eftir allt of stuttan tíma upplifa kröfur hins útlitsdýrkandi samfélags sem elur á hugmyndum um að hún sé ekki nóg. Mig langar því að biðja þig um að hjálpa mér að breyta þessari menningu svo dóttir mín alist ekki upp við það að finnast hún þurfa að svelta sig eða skera af sér tærnar til að komast í allt of litla skó, heldur upplifi sjálfsást og sjálfsvirðingu til að velja sér skó sem passa!

Kær kveðja,
Helga

SHARE