Dragðu úr líkum á frjókornaofnæmi

Þeir sem þekkja frjókornaofnæmi af eigin raun vita hvað það getur verið hvimleitt og óþægilegt. Í verstu tilfellunum getur fólk einfaldlega ekki verið úti í náttúrunni þegar frjókornatímabilið stendur sem hæst frá júní fram í lok ágúst. Magn frjókorna í andrúmsloftinu fer þó mikið eftir veðri. Þegar rignir er magn frjókorna í lofti lítið, laus frjókorn setjast á jörðina og blautar plöntur gefa ekki frá sér ný frjókorn. Á hlýjum og þurrum dögum eykst frjókornamagnið verulega, einkum ef vindur blæs.

Rannsóknir benda til þess að börn fædd á þessu tímabili séu líklegri en önnur börn til að fá frjókornaofnæmi þegar þau vaxa úr grasi, svo ef þú vilt forða barninu þínu frá frjókornaofnæmi þá er best að reyna að stíla barneignir inn á aðra mánuði ársins.
Þá er gott að hafa það bak við eyrað að láta barnavagna ekki standa utandyra og safna í sig frjókornum.

Sértu hins vegar með frjókornaofnæmi er best að takmarka gróður í nánasta umhverfi, sleppa því að þurrka þvott utandyra og ekki hafa plöntur innandyra. Sé frjókornaofnæmið slæmt getur verið nauðsynlegt að meðhöndla það með lyfjum.
Hægt er að fá væg ofnæmislyf án lyfseðils í apótekum, en þau skal þó alltaf taka í samráði við lækni.
Þá er gott að hafa í huga að fólk með frjókornaofnæmi getur einnig myndað ofnæmi fyrir vissum fæðutegundum.

 

Birtist fyrst í amk, nýju fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE