Eric Schmitt-Martain er alveg eins og jólasveinninn. Hann er hávaxinn, með bumbu og fullkomið hvítt skegg.
Eric starfar á daginn sem vélaverkfræðingur en dag einn fékk hann símtal frá spítala nokkrum í Tennesse. Það var hjúkrunarkona á spítalanum sem var að hringja. Hún sagði að það væri lítill 5 ára drengur á spítalanum sem ætti ekki mikið eftir ólifað og hefði beðið um að fá jólasveininn til sín.
Eric mætti á spítalann, klæddur jólasveinabúning og talaði við aðstandendur litla drengsins áður en hann fór inn til hans. Hann bað aðstandendur að fara út af sjúkrastofunni á meðan hann væri þar inni, ef þau gætu ekki haldið aftur af tárunum. Eric átti sjálfur erfitt með að gráta ekki svo hann vildi alls ekki að aðrir færu að gráta.
Sumir aðstandendur fóru fram og jólasveinninn kom inn.
„Hann lá þarna, svo veikburða að hann var eins og hann væri að sofna. Ég settist á rúmið hans og sagði: „Hvað er það sem ég er að heyra með að þú munir missa af jólunum? Það er alveg bannað að missa af jólunum. Þú ert minn helsti aðstoðarmaður,““ sagði Eric.
Eric gaf honum pakka og drengurinn gat varla opnað hann því hann var svo veikburða. Þegar hann sá hvað var í pakkanum, brosti hann breitt og lagðist svo aftur á koddann.
„Þau segja að ég sé að deyja. Hvernig veit ég hvert á að fara þegar ég er dáinn?“ spurði litli drengurinn.
Jólasveinninn svaraði: „Þegar þú kemur þangað segirðu bara að þú sért aðstoðarmaður jólasveinsins og þeir hleypa þér inn.“
Drengurinn litli settist upp og knúsaði jólasveininn að sér og spurði svo: „Getur þú hjálpað mér jólasveinn?“
Eric tók utan um drenginn og áður enn hann gat sagt nokkuð, lést litli drengurinn í örmum hans.
Eric sagði að þetta hefði verið það erfiðasta sem hann hefði gert, en hann hefur verið í hernum og séð ýmislegt þar. Hann sagðist hafa yfirgefið spítalann grátandi og algjörlega miður sín.