Dreymdu, láttu svo draumana rætast. Þetta er eitt af mottóunum mínum. Lífið er svo stutt, af hverju ekki láta sig dreyma? Og af hverju ekki sækjast eftir draumunum þínum? Það mun enginn gera það fyrir þig og ef þú lætur þig ekki dreyma þá munu draumar þínir aldrei rætast. Ok, heimspeki 101 lokið.
Í sumar mun einn af draumunum mínum rætast. Frá því að ég varð mamma þá hefur mig dreymt um að fara með börnin mín í Disneygarð, og það er akkurat það sem ég mun gera í sumar, ég er búin að kaupa flug til Parísar og Disneygarðurinn þar er nr. 1 á planinu. Og auðvitað þurfti ég að föndra fyrir þetta.
Börnin mín elska að hafa eitthvað sjónrænt til að telja niður. Ég keypti því þennan ramma en pappírinn (bakgrunninn) átti ég. Ég fann á netinu þessar útlínur af eyrunum hans Mikka Mús og klippti þær út og límdi á pappírinn. Svo dró ég upp textann (Það eru …. dagar í Disney) og þegar hann var tilbúinn þá setti ég allt í ramann. Svo er það bara töflutúss og byrjað að telja niður.
Ég sá þessa allt of krúttlegu hugmynd á netinu og vissi að ég yrði að gera eins. Krukkurnar fékk ég gefins og byrjaði á því að spayja rautt og svart þar sem það átti við. Ég bjó til eyru úr þykkum pappa sem ég málaði svört og límdi á lokin (hvar væri ég án límbyssunnar minnar???) Mína Mús elskar allt doppótt þannig að til að gefa henni doppur þá tók ég bara venjulegan gatara og gataði hvítt blað. Ég notaði svo “afskurðinn” sem doppurnar fyrir Mínu. Mikki fékk hinsvegar 2 tölur límdar á sig. Og núna hafa krakkarnir krukkur til að safna sér inn pening fyrir Disney :0)
Ég heiti Kristbjörg og ég er 2 barna móðir sem elskar föndur, að skapa með höndunum, að búa til eitthvað úr engu og að reyna að auðvelda mér lífið með því að skipuleggja, skipuleggja, skipuleggja.