Ráð til foreldra sem nýtast til að efla sjálfsmynd barna.
Foreldrar þekkja börnin sín best og leggja sig alla fram við að gefa þeim gott veganesti út í lífið. Mikilvægt er að foreldrar hafi gott sjálfstraust og hlusti á innsæi sitt við uppeldi barna sinna. Foreldrar eru mikilvægustu fyrirmyndir barna sinna því börn læra af því sem fyrir þeim er haft og því geta foreldrar byggt upp sterka sjálfsmynd hjá börnum sínum með eigin athöfnum.
Börnin heyra og sjá hvernig foreldrar bregðast við daglegum athöfnum í lífinu:
Gættu orða þinna, börn eru næm á orð foreldra sinna. Mikilvægt er að hrósa börnum fyrir vel gerða vinnu en jafn mikilvægt er að hrósa fyrir átakið sem þau lögðu á sig til að framkvæma. T.d ef eitthvað mistekst hjá barninu þá er gott að hrósa því fyrir að reyna, það byggir upp trú hjá barninu um að æfingin skapi meistarann.
Börn læra það sem fyrir þeim er haft. Ef foreldri er neikvætt og niðurbrjótandi í eigin garð er það lærdómurinn sem barnið nemur. Foreldrar eru speglar barna sinna. Vertu jákvæð fyrirmynd.
Vertu með skýr en sanngjörn mörk, börn upplifa öryggi í mörkunum. Börn vita til hvers er ætlast af þeim þegar mörk eru skýr en óljós mörk valda þeim óöryggi og jafnvel kvíða. Börn sem búa við skýr mörk eru líkleg til þess að tileinka sér góðan sjálfsaga og verða sterkir einstaklingar.
Gefðu barninu þínu tíma, talaðu við það og hlustaðu á það. Börn vilja fá að hafa skoðun og vilja að hlustað sé á þau. Það að hlusta á barn þitt þýðir ekki að þú segir endilega já en það eflir barnið í að nefna langanir sýnar og læra að taka við svarinu hvort sem svarið er nei eða já. Útskýrðu fyrir barninu þínu af hverju svarið er nei eða já. Börn læra líka að bera virðingu fyrir öðrum þegar borin er virðing fyrir þeim. Að hlusta á aðra manneskju er að sýna virðingu.
Sýndu barninu tilfinningar þínar og samþykktu tilfinningar þess. Tilfinningalegt uppeldi er mjög mikilvægt. Það styrkir sjálfsmynd að barn þekki tilfinningar sínar og fái viðurkenningu fyrir því að það sé eðlilegt að upplifa bæði jákvæðar og neikvæðar tilfinningar.
Verðu tíma með barninu þínu. Börnum finnst gott að vera með foreldrum sínum og það á sér stað mikilvæg tengslamyndun í samverustundunum sem börn og foreldrar búa að alla tíð. Hafðu barnið með í athöfnum heimilisins, t.d. taka þátt í að ákveða hvað er í matinn. Gerið matartíma að samverustund þar sem allir fá innsýn inn í dag hvers annars.
Kristín Snorradóttir
http://kristinsnorra.is og Facebook.
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!