Ég er úr sveitinni og þegar ég segi sveitinni þá meina ég sko SVEITINNI. Fyrstu árin sem við fjölskyldan bjuggum þar þá var ekkert sjónvarp, bara sveitasími, sem þú notaðir “stutt-löng-stutt” til að hringja út, það var ófært nánast frá október og fram í maí og ég fór á bát í skólann og seinna fékk fjölskyldan sér snjósleða sem var notaður til allra ferðalaga þegar þannig bar við á veturna. Þetta var heimavistarskóli svo við vorum frá mánudegi til föstudags í skólanum.
Núna hugsa örugglega einhverjir: “Bíddu, er hún fædd 1947?” en nei það er ég ekki. Svona var þetta bara í sveitinni minni.
Amma mín tók upp sjónvarpsefni fyrir okkur á VHS spólur og sendi okkur með póstinum sem kom með flugvél tvisvar í viku. Við fengum spólukassa einu sinni í viku, eina spólu með fréttatímum liðinnar viku, eina spólu með teiknimyndum handa mér og bræðrum mínum og svo var spóla með bíómyndum. Þetta var alltaf mikið tilhlökkunarefni og klárlega hápunktur vikunnar.
Á endanum var hægt að tengja sjónvarp í litlu víkina mína en það var bara hægt að ná Ríkissjónvarpinu og það er enn þann dag í dag eina sjónvarpsstöðin sem hægt er að ná þarna.
Þar sem að þorpið mitt hvílir milli hárra fjalla sem mynda einskonar skál í kringum það þá er það mjög einangrað. Það næst heldur engin FM útvarpsstöð, bara langbylgja, sem þýðir Rás 1 og Rás 2 eru til skiptis allan daginn. GSM samband kom bara fyrir ári síðan. Mér fannst það reyndar frekar glatað því ég hef alltaf bara slökkt á símanum mínum þegar ég fer í sveitina og verið í fríi frá mörgum tilgangslausum símtölum og sms sendingum. Ég hef reyndar samt vanið mig á að slökkva bara á símanum þegar ég fer þangað og nota hann ekki neitt. Mér finnst sveitasælan og gsm einfaldlega ekki vera að passa.
Mamma og pabbi hafa rekið ferðaþjónustu í sveitinni síðan við fluttum þangað og á sumrin var allt iðandi í lífi og fjöri í u.þ.b 3 mánuði, ferðamenn útum allt og öll húsin full af sumarábúendum. Loksins gátum við systkinin hætt að “þola” hvort annað og allt morandi í krökkum sem hægt var að leika við. Hver dagur var eins og nýtt ævintýri að hefjast og uppátækin ótæmandi í þessu ótrúlega spennandi umhverfi, en á svæðinu er 6000 fm síldarverksmiðja frá 1935 og lýsistankar og fleira tengt þeim árum. Við könnuðum alla króka og kima á svæðinu og ég held að það sé ekki mikið svæði ókannað þarna í kring.
Svo kom haustið og staðurinn varð á örskömmum tíma eins og draugabær. Búið að negla fyrir alla glugga í húsunum í kring, bílarnir farnir, bátarnir sigldir í burtu eða dregnir á land, leikfélagarnir farnir til síns heima, hundarnir hættir að koma út á morgnana og bjóða góðan dag með glaðlegu gelti og farið að kólna verulega í veðri. Hægt og rólega tókst manni að sætta sig við að þessum kafla var lokið í bili en nú tækju við aðrir skemmtilegir hlutir eins og að fara í leitir, smölun og réttir, svo myndi skólinn byrja fljótlega líka og þá myndum við hitta krakkana þar líka.
Ég flutti í sveitina það ung að ég man ekki eftir að hafa verið í bænum sem barn og heimurinn minn var bara þessi litla sveit. Svo þegar maður fór til Reykjavíkur var það eins og að fara til útlanda. Gerðist sjaldan og alltaf leið mér eins og mig hefði verið að dreyma þegar ég kom aftur til baka.
Með aldrinum hefur svo sjóndeildarhringurinn víkkað og hlutir sem áður voru svo stórir, eru bara litlir. Ég gerði mér grein fyrir að Reykjavík er ekki sú stórborg sem hún var í höfðinu á mér, það að komast í bíó hvenær sem er var ekki alveg jafn spennandi og ég hélt. Ég held að það hafi gert mér gott að alast upp í þessari ró og ég er mjög lánsöm að hafa, þó ekki hafi verið nema í ca 12 ár, átt mína litlu fallegu veröld sem var langt frá því að vera fullkomin og oft mjög strembin.
Hún er þrátt fyrir allt, hrein, náttúruleg, kyrrlát, sönn og falleg.