Í gær var Alþjóðadagur sjálfsvígsforvarna. Sagt var frá því í fréttum að bæði sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum hjá eldri borgurum hafi farið fjölgandi og að það tengdist erfiðleikum fólks við að ná endum saman síðan að hrunið margrædda varð.
Fjórir vinir mínir á Facebook hafa tekið sitt eigið líf. Ein af þeim var góð vinkona mín. Ég ætlaði mér aldrei að skrifa um þetta, fannst það ekki viðeigandi því sjálfsvíg eru að margra mati algjört „tabú“. En ég fann mig knúna til þess í gærkvöld að tjá mig um þetta og ákvað að skrifa nokkur orð um þetta.
Ég fékk þær fréttir að vinkona mín hefði, að morgni nýársdags, kvatt þennan heim að sínu eigin frumkvæði. Ég hef upplifað ástvinamissi áður en aldrei á þennan hátt. Hún var farin og ég gat ekkert gert í því meir. Ég fraus, varð stjörf, grét með ekka svo mér fannst ég vera að kafna og hugsanirnar voru á þeytivindu í höfðinu á mér. Sektarkenndin sat eins og tröll á bringunni á mér og mér fannst ég ekki ná að anda djúpt.
„Af hverju var ég ekki til staðar?“
„Hvernig gat ég klúðrað hlutverki mínu sem vinkonu svona hrikalega?“
„Af hverju hringdi hún ekki í mig? Ég hefði fengið hana til að skipta um skoðun.“
„Af hverju var ég ekki búin að bjóða henni að vera með mér og minni fjölskyldu yfir hátíðarnar?“
„Hvernig gat hún gert okkur þetta?“
„Hvað var hún að hugsa þegar hún tók þessa ákvörðun?“
„Hvernig gat þetta farið framhjá okkur?“
„Hvenær missti hún viljann til að halda áfram í náminu sem hún lagði stund á?“
„Hvenær ákvað hún að hún myndi ekki fara aftur í vinnuna sína sem hún hafði verið í í mörg ár?“
Allar þessar spurningar voru sársaukafullar og svörin við þeim enn sársaukafyllri. Elsku hjartans vinkona mín var ekki lengur full af lífi, tilfinningum, löngunum og þrám. Hún var bara ekki þarna lengur og ég var alltof sein til að gera nokkuð í því. Sumir sögðu að maður yrði að virða hennar ákvörðun. Ég gat það ekki. Mér var þetta gjörsamlega óskiljanlegt. Það má enginn gera þetta. Ég er nokkuð viss um að ef hún hefði vitað hversu miklum sársauka þetta myndi valda okkur, fólkinu í lífi hennar, þá hefði hún ekki látið verða af þessu. Hún hélt, af fullri alvöru og af öllu hjarta, að við værum betur sett án hennar.
Biðin fram að jarðarförinni tók við. Við vinkonur hennar hittumst, grétum og reyndum að raða öllum aðdraganda þessa niður í huganum. Óraunveruleiki og líkamlega sár sorg. Ég held að ég hafi aldrei upplifað annað eins. Ég lá á koddanum kvöld eftir kvöld. Dreymdi hana á nóttunni og vaknaði við sjálfa mig gráta af öllu hjarta. Draumarnir snérust um að ég væri að reyna, aftur og aftur, að aftra því að hún tæki sitt eigið líf.
Ég var á sjálfstýringu. Ég gat ekki talað um þetta án þess að fara að gráta og hugsanir mínar snérust allar um þetta. Ég man enn hvernig þyrmdi yfir mig annað slagið og þá kom þessi kæfandi sektarkennd og nístandi sorg sem risti mann inn að beini. Mér fannst fáránlegt að lífið héldi bara áfram eins og ekkert hefði í skorist. Vissi heimurinn ekki að við vorum í sárum? Að lífið yrði aldrei eins aftur? Var fólk í alvörunni að fara á árshátíð? Mér fannst eins og lífið yrði aldrei venjulegt aftur.
Það er alltaf sagt að tíminn lækni öll sár. Ég vildi að tíminn liði hraðar. Tvær vikur fram að jarðarförinni og mér fannst þessar vikur líða eins og margir mánuðir. Ég kveið þessum degi ofsalega og biðin eftir honum var, á sama tíma, svo erfið.
Ég hélt að jarðarförin myndi hjálpa mér að sætta mig við orðinn hlut en mér fannst ekkert lagast við það. Ekki neitt. Þetta varð bara raunverulegra og sárara. Ég skrifaði bréf til vinkonu minnar, þar sem ég sagði allt það sem ég hefði viljað að hún vissi, allt sem ég hefði viljað hafa sagt. Ég lagði það í kjöltuna hennar þar sem hún lá í kistunni, gullfalleg, friðsæl, með hárið sitt fallega, á öxlunum.
Við kvöddum hana og drukkum saman kaffi eftir á. Ég man ekki hvað ég drakk, hvað ég borðaði eða um hvað ég talaði við fólkið í erfidrykkjunni.
Vinkona mín hafði farið fram á að hún yrði brennd. Öskunni hennar var svo komið fyrir á milli foreldra hennar í kirkjugarðinum. Hún vildi vera hjá þeim. Daginn eftir bálförina þyrmdi yfir mig og sú hugsun kom í huga minn að hún var í alvörunni ekki til lengur. Hún var orðin að dufti og það var ekki hægt að breyta því. Ekkert eftir.
Núna eru nokkrir mánuðir liðnir og lífið hefur bara haldið áfram. Fólk heldur áfram að vinna, safna peningum til að gera það sem það dreymir um. Fólk sefur, vaknar, eignast börn, fagnar og gerir þessa venjulegu hluti. Einn daginn mun þetta verða löngu liðinn atburður en mig langar aldrei að gleyma þessari vinkonu minni. Mig langar að geta hugsað um hana og fá ekki sting í hjartað. Mig langar, einn daginn, að hugsa um vinkonu mína með gleði og þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast henni, að hafa hana í lífi mínu, þrátt fyrir að hafa misst hana of snemma. Ég held það muni gerast einhvern tímann.
Fylgstu með!
Kidda á Instagram
Hún.is á Instagram
Kidda á Snapchat: kiddasvarf
Hún.is á Snapchat: hun_snappar
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.