Ung stúlka, sem heitir Arna Ingimars, og er alveg að verða 18 ára skrifaði þessa flottu færslu á Facebook-síðuna Beauty Tips í gær. Frábært að sjá hvað hún er klár og heilsteypt svona ung að árum.
Fékk þau skemmtilegu orð í andlitið um daginn að ég væri feit. Er ekki viss hvort manneskjan sjái illa eða sé að kafna úr öfund. Ég tók þetta sem betur fer ekki inná mig en vinkona mín sem er í yfirþyngd horfði á mig, horfði svo á sjálfa sig og hugsaði ,,Ef Arna er feit, þá hlýt ég að vera við dauðans dyr”. Er ekki bara að tala fyrir hönd vinkonu minnar heldur líka fyrir mína hönd og hendur allra stelpna í heiminum.
Ég er 48 kg og mér líður alls ekki vel, þolið er núll, matarlystin engin og ég get ekki einu sinni hreyft mig á eðlilegan hátt. Það á sér reyndar allt útskýringu sem er persónuleg og ég er að taka á mínum vandamálum. Hvernig aðrir líta út kemur okkur ekkert við. Við vitum ekkert hvað er á bak við það.
Mamma mín er til dæmis með óvirkan skjaldkirtil og er í ofþyngd, hef margoft heyrt krakka segja „Afhverju fer mamma þín ekki í ræktina?“. Mamma mín fer í ræktina á hverjum morgni klukkan 8 með bestu vinkonu sinni, það vita greinilega bara ekki allir af því… En það gefur okkur samt ekki rétt til að rakka hana niður.
Maður sér svo marga pósta þar sem stelpur eru að kvarta undan útlitinu sínu.. Of mikil fita hérna, of mikil appelsínuhúð þarna, of beinaber þarna o.s.frv. Hvernig væri að við myndum allar bara sætta okkur við það hvernig við erum, og ef við sættum okkur ekki við það þá er um að gera bæta það sem við getum bætt. Það verður samt aldrei neinn fullkominn. Enda er ekki til nein manneskja sem er fullkomin.Mig dauðlangar til dæmis að bæta á mig nokkrum kílóum af fitu og vöðvum, bæði til þess að fólk hætti að stara á mig og segja: „Voðalega ertu kinnfiskasogin, hræðilegt að sjá þig“ og til þess að komast loksins á svið í fitness. Fólk kallar mig ýmist of granna (sem er satt) eða að ég sé feit (sem er alls ekki satt). Bæði er jafn særandi. Þetta er minn líkami og fólki kemur ekki við hvernig hann er.
Þannig til að vera samkvæm þessari síðu þá er „beauty tip-ið“ mitt til ykkar að vera ánægð með ykkar líkama, lífið og tilveruna. Það er enginn verri þó hann sé of grannur eða of feitur. Þið eruð allar partur af lífinu og hvernig þið lítið út á ekki að eyðileggja fyrir ykkur þetta eina tækifæri sem þið fáið á plánetunni jörð.
Gat ekki haldið þessu inní mér…
Peace out, farið vel með ykkur. Eruð allar gullfallegar eins og þið eruð ❤