ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is
————————
Kæru vinir, fjölskylda og aðrir.
Mig langar að koma svolitlu frá hjarta mínu sem er búið að hvíla á mér lengi en ég hef aldrei fundið að rétti tíminn væri kominn til að koma þessu frá mér fyrr en núna.
Þeir sem þekkja mig vel, vita að ég er afskaplega trúuð. Ég trúi á Jesú Krist, ég trúi á Guð, ég er kristin. Ég hef unnið í kirkju, verið í kirkjustarfi og í eitt og hálft ár hef ég verið blessuð með yndislegu fólki á Hjálpræðishernum sem ég lít á sem fjölskyldu.
En í nútímanum getur verið erfitt fyrir 16 ára ungling að vera trúaður, maður hefur áhyggjur af því hvað öðru fólki finnst, hvernig aðrir líta á mann, hvað er sagt um mann o.s.frv. Ég eins og flestir aðrir unglingar hef lent í mótlæti og haft áhyggjur af svona hlutum, en það sem mér finnst erfiðast er þegar fólk ber ekki virðingu fyrir minni trú.
Ég virði trú annara, ég á vini og fjölskyldu sem eru ásatrúi og trúlausir, en það skiptir mig ekki mestu máli hverrar trúar þetta fólk er, það sem skiptir mig mestu máli er að ég elska og virði þetta fólk alveg jafn mikið og ég elska og virði þá sem ég þekki sem eru kristnir. Ekki misskilja mig, afar margir sem ég þekki og þykir vænt um virða mig og mína trú og þá afstöðu sem ég tek í henni. En því miður gera það bara ekkert allir.
Því ekki eru allir kristnir eins og margir halda að þeir séu, einfaldlega vegna þess að sumir skilja ekki eða vita ekki hvað kristni er, eða þekkja einfaldlega ekki marga sem eru mjög kristnir.
Ég er ekki að skrifa þetta til að rífast um það hvernig heimurinn varð til, eða hvort Guð sé til eða ekki. Ég trúi því að Guð sé til, trú mín hefur hjálpað mér meira en nokkuð annað, og því særir það þegar fólk virðir ekki mína trú og skoðanir, rétt eins og ég virði þeirra, en það er í lagi mín vegna ef aðrir eru ósammála mér um þessi mál, því hve daufur væri heimurinn ef okkur sammæltist um allt.
Ef þú, kæri lesandi, ert kristinn, geðveikt! Ef þú ert múslimi, geðveikt! Ef þú ert ásatrúi, geðveikt! Ef þú ert trúlaus, geðveikt! Því við erum öll mennsk, og öll viljum við að við séum virt, við sem persónur, okkar skoðanir og trú.
Og það er ástæðan fyrir þessum pistli. Ég vil biðja alla sem lesa þetta um að virða alla í kringum sig, jafnvel þó þið séuð kannski ekki endilega sammála um allt. Virðið skoðanir annara, því ekki er allt eins og steríótýpan segir. Verum fordómalaus, sama hverrar trúar við erum, frá hvaða heimshorni við komum, hvers kyns sem maður laðast að eða hvaða stöðu við höfum í samfélaginu. Fegurð heimsins, og alls í honum er svo mikil, því drögum við þá svarta hettu fordóma yfir þessa fegurð svo að aðrir sjái hana ekki. Það er fegurð í okkur öllum, en við dæmum hvort annað á útliti oftast, án þess að leitast eftir hinni raunverulegu fegurð manneskju, þeirri sem kemur að innan. Ég hvet því alla sem lesa þetta að næst þegar þeir sjá einhvern og dæma hann strax, að stansa aðeins við og hugsa um það fallega sem gæti leynst inni í þeirri manneskju.
Friður og kærleikur sé með ykkur.
-Þórkatla Haraldsdóttir.