Ég sagði frá því fyrir skemmstu. Hversu yndislegt það er að daðra, að láta sig dreyma um að dansa og að flissa á miðjum vinnudegi yfir allri þeirri vitleysu sem fólk lætur út úr sér á netinu í skjóli nafnleyndar.
Hversu léttvæg sú hugsun er að „skreppa á deit” og að leyfa huganum að reika. Einkamálasíður eru alveg ferlega skemmtilegar og gott ef ekki meira spennandi meðan dansinn er stiginn í ljósi hálfgerðrar leyndar. Sumir segja mig vera með „fávitasegul” vegna þess að endrum og eins rekur undarlega menn á fjörur mínar – ég tek treglega undir þau orð – enda þekki ég kynstrin öll af ágætlega innrættum mönnum og hef verið einkar lánsöm í einkalífinu gegnum árin.
Ég hef notið þeirrar gæfu að ganga veginn með góðum mönnum; ég hef notið virðingar á heimili mínu og þyki sjálfstæð kona. Svo með eindæmum að til eru þeir sem telja að ég sé betur sett ein. Svo sjálfstæð er ég í ákvarðanatökum. Og mótuð að lífsstíl hinnar einhleypu móður.
Undir niðri er ég þó bara lítil stelpa sem trúir í einlægni á ástina. Ég er þeirrar skoðunar að allir eigi óskiptan rétt á að hefja leika með fullt hús stiga. Að virðingu eigi maður ekki að ávinna sér, heldur sé kurteisi svo sjálfsögð í samskiptum að henni beri að beita við öll möguleg og ómöguleg tækifæri.
Ég er fylgjandi síðustu opinberu ummælum Mayu Angelou sem tísti:
Listen to yourself and in that quietude you might hear the voice of God.
— Maya Angelou (@DrMayaAngelou) May 23, 2014
Maya hafði rétt fyrir sér. Hún hvatti okkur konur til að hlýða á innsæið, að fylgja okkar innri röddu og að leggja mark á svörin sem almættið veitir okkur þegar við vörpum fram persónulegum og einlægum spurningum sem varða einkalífið.
Þannig hitti ég dreng ágætan fyrir skömmu. Hann sendi mér skilaboð gegnum einkamálasíðu og bauð mér á stefnumót. Flissandi þáði ég boðið – ákvað að hafa vaðið fyrir neðan mig – og setti upp kaffibolla í miðbænum fyrir hádegi á laugardegi. Fannst það tilvalið svona við fyrstu kynni og gott ef ekki bara dálítið smart líka. Doldið svona heimsborgaralegt og pínu öðruvísi.
Ég veit ekki hvaða innri tilfinningu ég fylgdi þegar mér fannst ég knúin til að setja upp þennan tíma sólarhrings fyrir fyrsta kaffibollann okkar. Sennilega byggði ég á reynslu, varkár sem ég er og meðvituð um fjölbreytileika alþjóðasamfélagsins hér í ókunnu borginni.
Maðurinn, sem orkaði vel á mig í upphafi – sagðist vera frá Nýja Sjálandi og var ægilega upprifinn yfir þjóðerni mínu; fannst ég stórkostleg fyrir það eitt að vera frá Íslandi. Kaffibollinn hvarf og tíminn leið, áður en við bæði vissum var hádegi í nánd og ég ók honum til vinnu.
Dagarnir liðu og vonbiðillinn sendi mér skilaboð við sólarupprás hvern dag. Fram leið inn í nýja viku og loks komu orðin.
„Ég vill hitta þig aftur. Hvenær ertu laus?”
Upprifin og eilítið montin sendi ég honum svar um hæl og stakk upp á hádegisverði fjarri daglegu amstri í miðbænum, lengri tímaramma í þetta sinnið og sagðist laus næsta laugardaginn.
Viðbrögðin urðu á annan veg en ég ætlaði, því nú vatt Rómeó upp á sig, þagði um stund og sagði svo:
„Nei, ég var eiginlega að hugsa um að koma frekar heim til þín á fimmtudagskvöldið – þegar barnið þitt er farið í háttinn? Er það ekki hægt?”
Mig rak í rogastans. Nú voru góð ráð dýr. Auðvitað var hugmyndin freistandi, en nú er ég búsett í strjábýlu úthverfi með litlu barni og finnst alveg með ólíkindum að ókunnur maður skuli ætla að ég opni hurðina möglunarlaust – án nokkurra formála – þegar drengurinn er farinn í rúmið.
„Hvað varð um tilhugalíf?” hvíslaði ég ofan í dúnmjúkan sófann.
Sendi svar um hæl, sagðist ekki hrifin af þeirri tillögu en að stefnumót í miðbænum hljómaði vel. Ég væri laus á laugardag og til í alls konar vitleysu, en að heimsókn þætti mér of snemmtæk – að ég þakkaði fyrir en að fyrrgreint hentaði mér síður.
Maðurinn þagnaði …. sleit samtalinu og svo leið.
Næstu dagar einkenndust af slitróttum, samhengislausum en þó vongóðum skilaboðum. „Því svaraði ég honum ekki” – „Hversu hann saknaði þess þegar ég enn talaði við hann” – „Mikið yrði nú gaman að heyra í mér” – en undir þessu öllu saman ómaði síðasta tíst Mayu og áminnti mig að innri tilfinning mín er að öllum líkindum rétt. Að ég eigi og skuli fylgja innsæi mínu – möglunarlaust – að ég hafi óskiptan rétt á að draga mörk og að engum skuli ég hleypa inn fyrir þröskuldinn sem mér líður ekki vel með heima hjá mér.
„Að velja sjálf í stað þess að sættast á val annarra” – eru einkunnarorð mín.
Í mínum augum er það eitt ekki nóg að karlmaður skuli laðast að mér. Tilfinningin verður að vera gagnkvæm. Og fari um mig ónotahrollur á fyrstu skrefunum í tilhugalífinu, þá ber mér að hlusta eftir þeirri tilfinningu. Og fylgja þeirri tilfinningu.
Það var ekki fyrr en maðurinn frá Nýja – Sjálandi var farinn að senda mér hálf árásargjörn SMS skilaboð sem ég tók þá ákvörðun að svara; fjórum dögum eftir að hann afþakkaði þunglamalega stefnumót við mig í miðbænum á laugardegi sem hefði – undir eðlilegum kringumstæðum – verið upphafið að fallegu ævintýri.
Hann bað mig um skilvirkar útskýringar og ég settist því við lyklaborðið og skrifaði honum í einlægni línu. Sagðist hreint út ekki skilja áleitni hans og þrákelni, þar sem ég hefði sjálf stungið upp á stefnumóti sem hann hefði þvermóðskulega hafnað, en að heimili mitt væri helgasta vé barnsins sem þar býr líka og að inn fyrir þann þröskuld stígi aðeins þeir einstaklingar sem hafa unnið sér inn traust okkar mæðgina og bera hag okkar fyrir brjósti.
Virðingu kann ég að sýna ókunnu fólki, en traust er trúnaður sem ávinnst með tíma.
Í þeim töluðu orðum féll silkimjúk gríma mannsins og grimmdin sem áður var svo ógreinileg, en innsæi mitt augljóslega greindi kom í ljós. Ég er svo þakklát því að hafa fylgt innsæi mínu, að hafa haft í heiðri mínar eigin siðferðisreglur og að hafa ekki selt sjálfsvirðingu mína fyrir örfá augnablik í myrkri; að hafa ekki látið undan skyndilosta sem hefði haft skelfilegar afleiðingar í för með sér.
Á sömu stundu gerði ég mér grein fyrir því hversu dýrmætar kynsystur mínar eru. Að satt er það líka sem Maya sagði; að í hvert sinn sem kona dregur umhverfinu mörk er hún ekki einungis að draga línu umhverfis sjálfa sig – heldur er hún að standa upp fyrir allar konur, sú hin sama er að slá skjaldborg um réttindi allra kvenna. Kona sem stendur með sjálfri sér stendur með öllum konum.
„Each time a woman stands up for herself, without knowing it possibly, without claiming it, she stands up for all women.“
– Maya Angelou
Ég læt þetta gott heita og slæ botninn í lokaorð mannsins sem reyndi fyrir skömmu að komast óséður upp í rúm til mín, í þeim eina tilgangi að koma höndum yfir íslenska konu – en það hefur hann aldrei gert áður. Megi Guð vera þeirri stúlku náðugur sem á vegi hans verður.
Eina ástæðan fyrir því að ég ætlaði að ríða þér er að ég er í leik við vini mína – að ríða konum frá öllum löndum heims. Og ég er ekki búinn með Ísland ennþá. En ég á eftir að ná því. Af hverju ætti einhver maður að eyða tíma sínum í skrýtna, gamla, óaðlaðandi og leiðinlega konu. Nú ertu ónýt; það er ekki hægt að nota þig í neitt.
Af virðingu við almenna friðhelgi hef ég afmáð persónupplýsingar, en bið þær stúlkur sem búsettar eru víðsvegar um heimsbyggðina að ganga hægt um gleðinnar dyr.
Það munaði engu í mínu tilfelli.
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.