ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is
————————
Ég er þrítug kona með krabbamein. Ég greindist fyrir ári síðan með leghálskrabba og fór í aðgerð og lyfjameðferð. Samkvæmt læknum átti ég að vera heil heilsu síðasta haust en mér leið aldrei þannig að ég væri að koma til baka.
Ég fór í skoðun í lok september og átti að fá útúr þeim rannsóknum eftir 10-14 daga en það leið og beið og ég heyrði ekkert fyrr en í nóvemberlok – þá allt í einu kemur í ljós að ég er komin með eitlakrabbamein og hef ég verið að berjast við það síðan, búin að fara í eina aðgerð og strembna lyfjameðferð sem gerir dagana óþolanlega.
….allt í einu kemur í ljós að ég
er komin með eitlakrabbamein…..
En veikindunum verð ég að taka eins og hverju öðru hundsbiti, það sem fer í mig er að ofan í veikindin þá er ég sífellt með peningaáhyggjur og sú staðreynd að hjúkrunarfólk leggur lítið uppúr andlega hlutanum og vísar manni ekki á þær lausnir og hjálp sem í boði er, þessu hef ég þurft að sækjast eftir sjálf.
Peningaáhyggjur
Þar sem læknar voru búnir að úrskurða mig heila heilsu síðasta haust ætlaði ég að sjálfsögðu bara að finna mér vinnu, hef alla tíð verið í vinnu og skóla og gengið mjög vel.
Þar sem ég var „heil heilsu“ datt ég útaf endurhæfingarlífeyri og var því tekjulaus eftir að ég greinist aftur þar sem Tryggingarstofnun tekur sér vægast sagt tíma til að afgreiða umsóknir. Hártoganir þeirra eru líka ótrúlegar. Þegar ég fékk ekki greitt um áramót þrátt fyrir að hafa fengið þær upplýsingar að öll gögn væru komin og samþykki fyrir lífeyrinum þá fékk ég þau svör eftir hálfan dag að það vantaði vottorð frá krabbameinslækni – var til staðar vottorð frá lyflækni og allir krabbameinslæknar eru lyflæknar.
Hártoganir þeirra eru líka ótrúlegar
Sú greiðsla dróst því fram til 1. feb. Þarna er ég komin í vanskil í 2-3 mánuði á öllu, ekki alveg á bætandi. Ég er ekki ennþá búin að vinna niður þessi vanskil þar sem í dag fæ ég rétt rúmar 200 þúsund á mánuði og eftir leigu, læknis- og lyfjakostnað stendur mjög lítið eftir, ég geri þó mitt besta. Ég reyndi að selja bílinn en það langar víst engum í drusluna mína en ég lagði inn númerin á henni til að losna við gjöld og tryggingar. Einangrar mig aðeins meira að hafa ekki bíl en þannig er það nú bara. Strætó er það heillin.
….. ég fæ rétt rúmar 200 þúsund á mánuði og eftir leigu,
læknis- og lyfjakostnað stendur mjög lítið eftir,
ég geri þó mitt besta…
Ég er búin að selja flest allt sem ég hef haft fyrir að eignast í gegnum tíðina, falleg húsgögn, tæki sem mig hefur langað í lengi og safnað fyrir og svo framvegis. Allt til að geta dregið andann og reyna að minnka áhyggjur enda eru þetta bara hlutir, heilsan kemst vonandi í lag og þá kaupi ég mér bara fallega hluti aftur.
Að leyfa sér eitthvað er ekki lengur til í minni orðabók.
Þetta er ekki meint sem væl, ég kemst í gegnum þetta eins og annað, langar bara að benda á hversu erfitt það er að þurfa takast á við skriffinskuna hjá TR og peningaáhyggjur ofan í heilsuleysið. Mín saga er alls ekkert verri en mjög margra annarra.
Andlega hliðin
Þegar ég greindist fyrst var ég alveg steinhissa á að mér væri ekki bent á stuðningshópa eða sálfræðing, geðlækni eða eitthvað þess háttar. Ég spurði meira að segja lækninn um þetta og hann benti mér á að leita mér upplýsinga á netinu.
Mér finnst ótrúlegt að í öllu þessu góða starfi sem Ljósið og Kraftur vinna, að læknar kynni sér það ekki almennilega og vísi sjúklingum þangað.
Þegar maður greinist með krabbamein er fótunum kippt undan manni og þegar maður rís upp aftur hefur maður ekki hugmynd um í hvorn fótinn á að stíga. Þar koma hópar og félög eins og Ljósið mjög sterkt inn.
Þar hitti ég fólk sem hefur gengið í gegnum það sama, er að takast á við sömu hluti og þessir hlutir eru svo miklu meira en bara meðferðin, það er hvernig okkar nánustu bregðast við, hvaða vinir standa manni ennþá við hlið þrátt fyrir að veikindin séu allsráðandi og svo margt margt fleira sem kemur ekki beint við starfssvið læknanna.
Þar hitti ég fólk sem hefur gengið í gegnum það sama
Að mörgu leyti hefur mér þótt erfiðara að takast á við óvissuna um hvort eða hvenær ég get hafið störf á ný, fyrir skipulagsfríkina mig er þetta mjög erfitt. Ég get ekki ákveðið að fara í nám næsta haust því ég veit ekki hvort ég hafi heilsuna til þess, ég veit í raun og veru ekki neitt, er föst í farsa sem verður bara að líða sína stund og svo lít ég til framtíðar.
Mér finnst líka erfitt að takast á við mína nánustu, þegar vinir hringja snýst allt um veikindin, ég er svo miklu meira en veikindin, spyrjið um hvað ég er að hugsa ekki bara hvernig ég hafi það. Verst er samt fólkið sem vill bara setja mig í bómul, ég er ennþá persóna, ég er ekki handónýt og það þarf ekki að vernda mig. Ég get sjálf núna rétt eins og ég hef alltaf getað, mismunandi hratt og á mismunandi tímum en ég bjarga mér. Aðallega vegna þess að ég þarf þess en líka vegna þess að ég verð að halda í sjálfsvirðinguna mína.
Ég er ennþá klár, ég á ennþá möguleika í lífinu og ég get allt sem ég ætla mér þrátt fyrir krabbamein.