Ég flutti til Namibiu 8 ára gömul

Við fengum Jöru sól til þess að deila með okkur reynslu sinni frá Namibiu, en það er vægast sagt allt annað en við búum við hérna á Íslandi.

namibia myndir (1)
Þegar ég var 8 ára þá flutti ég til Suður Afríku-Namibíu. Fyrst fluttist ég til Lüderitz og síðan til Swakopmund sem er 280 km vestur af Windhoek, höfuðborg Namibiu. Ég fór frá Dalvík, litlum bæ þar sem allir þekkja alla, langt frá öllu og í heim þar sem allt var svo ólíkt því sem ég var vön. Nýtt tungumál, nýtt fólk, nýjir siðir, ný menning, furðuleg dýr, hættuleg dýr, gjörsamlega allt var öðruvísi. Ég man allt eins og það hafði gerst í fyrra þrátt fyrir ungan aldur. Ég flutti út með mömmu minni sem gekk með litlu systur mína Melkorku Ýri sem fæddist úti, tveim bræðrum mínum og fósturpabba.

Swakópmund var ekki stór bær, kannski svipaður og Akureyri. Íbúðahverfin þar voru skipt niður í þrennt, hverfi fyrir hvíta litaða og svarta. Við bjuggum í hvíta hverfinu. Fljótlega eftir að við vorum búin að koma okkur fyrir þurftum við að fá okkur varðhund. Þessir hundar voru mjög árasargjarnir og þurftum við því að setja skilti á garðvegginn svo við yrðum síður að rænd.

Ég hef heyrt ýmsar sögur um lífið í Afríku td. var nauðsynlegt að eiga varðdýr. Flestir voru með hunda en ég veit um einn sem var með Cobra slöngu í garðinum sínum. Hundur hvíta mannsins var sem hvolpur settur í poka, síðan var svertingi fengin til að sparka í pokann gegn greiðslu, en þannig fyndi hundurinn alltaf lykt af svertingja og tengdi hann við ógn.
Við fórum í hundaathvarf til að finna okkur hund. Mamma mín var ekki lengi að finna hundinn sem henni leist best á. Ég er ekki viss með tegundina, en hann var lítill, eldgamall, leit út eins og gamall og mikill notaður sópur. Þegar hann hljóp þá labbaði hann á eyrun á sér og datt um koll, hann var hálfaulalegur greyið, en við sannfærðum hana um að þessi varðhundur myndi ekki gagnast okkur mikið. Eftir smá rúnt í gegnum athvarfið þá fundum við hundinn. Hann var af tegundinni Staffordshire bull terrier og blandaður af Bulldog. Hann fékk nafnið Snati. Snati okkar var góður varðhundur, full ákáfur þó og ekki hefði ég viljað lenda í honum.

skólinnEinn góðann veðurdag átti ég að fara út að viðra hundinn. Við bjuggum við ströndina og ég fór með hann oft þangað því þar gátum við oftast verið í friði. Ég man að ég fór yfir vegginn okkar í bakgarðinum og ég settist fyrir undir hann til að fela mig, ég var í fýlu og nennti ekki að fara út að labba með hann. Eftir smá stund sé ég litla stelpu koma í áttina til okkar, hún var í sundbol og á aldur við mig. Hundurinn varð órólegur, og ég kippti í hann. Hún kom nær og hundurinn varð órólegri og órólegri og fór að urra og gelta. Þegar litla stelpan var komin til okkar og nánast komin fram hjá okkur þar sem ég sat með hann hjá mér, þá æddi Snati af stað.
Ég réð ekkert við hundinn og eina sem ég sá var sandur útum allt. Ég heyrði ljót hljóð í hundinum og öskur í stelpunni, í rauninni gat ég ekkert gert, ég kastaði steinum í áttina að þeim og reyndi að kalla á hann til mín en hann hlýddi ekki. Þegar hann loksins hætti lá stelpan alblóðug í sandinum á bakinu, Snati kom til mín alblóðugur í kjaftinum og settist uppá vegginn. Ég var hálf frosin, horfði á stelpuna standa upp og hlaupa grátandi í burtu. Snati gerir sig tilbúna fyrir aðra árás og hleypur á eftir henni en stoppar svo og kemur aftur til mín. Ég man lítið hvað ég gerði eða sagði því ég var í svo miklu uppnámi . Hundinum okkar var lógað eftir þetta, en faðir stúlkunnar kom til okkar og sagði okkur að það væri óþarfi því hann hefði verið að gera skyldu sína. Faðir hennar og móðir voru vinnufólk og bjuggu í kofa í garði hjá hvítri fjölskyldu. Foreldrar mínir borguðu auðvitað allan tilheyrandi lækniskostnað og það voru keypt föt á barnið og matur handa fjölskyldunni, en þegar stelpan kom til okkar með innkaupalista nr 4 þá sagði mamma mín stopp.

Í hvert skipti sem ég fór í búð að kaupa í matinn með mömmu þá komu litlir krakkar á mínum aldri, jafnvel yngri og eldri að betla pening fyrir mat. Þau voru nánast fatalaus, skólaus og með útblásinn maga. Þetta fannst mér allt saman mjög sorglegt og ég sá hversu sorgmæddir og svangir krakkarnir voru. Mig langaði til að gefa þeim pening og mat í hvert skipti, helst taka þau öll með mér heim, en fjöldinn var alltof mikill. En móðir mín hún Yrsa Hörn er svo góð að hún endaði á því að gefa „allan“ sparipeninginn sinn til barnanna. En þegar krakkarnir fengu peninginn í hendurnar fyrir utan búðirnar eða markaðina þá komu stóru krakkarnir og rændu peningunum af þeim, spurning hvort börnin hafi fengið vernd í staðinn?

Ég fór í Grunnskóla, fór í 2nd grade, en var í bekk með börnum sem voru einu ári yngri en ég, því ég kunni enga ensku og varð að byrja á byrjuninni. Við þurftum að vera í skólabúningum. Ég átti skyrtu, peysu, eitt pils, síðbuxur, sokka og skó. Ef ég kom ekki í réttu skólasokkunum eða fötunum þá fékk ég sekt og þurfti að borga. Þeir sem voru fátækir áttu slitna og þvælda búninga, þannig skein stéttarmunurinn í gegn. Ég man að ég hlakkaði til að fara í skólann en var líka kvíðin því allt fólkið var öðruvísi og mér fannst ég ekki eins örugg og heima í litla bænum mínum á Íslandi. Auðvitað erfitt að vera í skóla þar sem maður skildi ekkert og enginn skildi mig. Ég man að ég þurfti að rétta upp hendi og biðja um að fara á klósettið, ég sagði bara „toilet?“, því ég var hrædd við að spyrja „can i go to the toilet please?“ eins og ég átti að gera. Kennarinn gaf mér nokkra sénsa á meðan ég var að læra en svo mátti ég ekki fara á klósettið í eitt skipti nema segja can i….?

Aðferðirnar sem notaðar voru í skólastofunni fannst mér hræðilegar og ómannúðlegar. Í mínum augum var skólinn þrælabúðir og mér leið stundum ílla í tímunum því ég var hrædd. Þar voru notaðar aðferðir sem ég var ekki vön og hafði aldrei kynnst. Börnin voru lamin með reglustriku ef t.d. barnið gleymdi að rétta upp hönd þegar kennarinn var að tala og barnið vildi spyrja að einhverju , eða heimanámið var ekki fullklárað, eða nemandinn rétti ekki upp hönd þegar hann bað um að fá að fara á klósettið, og jafnvel sagði ekki „please“ við kennarann. Kennarinn bað þá um mjúka reglustriku því það væri verra að fá hana í hendina heldur en ef hún væri hörð, og hún fékk þá í láni hjá okkur nemendunum til að slá nemendur sína með. Síðan sló hún á hendina á barninu orð fyrir orð það sem hún sagði við hann. Stundum voru þetta allt í 30 högg á hendina. Hún hætti ekki þótt barnið gréti úr sér augun af sársauka og grátbæði kennarann sinn um að hætta. Nemendur voru einnig látnir standa upp við ískalda krítartöfluna allann kennslutímann og það var virkilega slæmt, og erfitt að halda einbeitingu, ég lenti aldrei í því en ég prufaði að gera það í nokkrar mínútur því þetta virtist svo auðvelt. Önnur refsingin var að nemandi var látinn sitja úti þar sem heitasti bletturinn var í logni í örugglega 40 stiga hita og látinn dúsa þar allan tímann og frímínúturnar en fékk þá ekki að borða nestið sitt sem mér fannst svo sorglegt. Ég sem betur fer lenti aldrei í neinu af þessu en hinsvegar lenti Ragnar bróðir minn í því að vera lamin með reglustriku því hann var að tala við Hallam bekkjabróðir sinn í tíma og hann ætlaði að sýna honum endur sem hann átti heima hjá sér eftir skóla.

Í skólanum mínum voru flest allir svartir, fyrir utan mig, bróður minn, örfáar krakka, kennarann og skólastjórann, En ég eignaðist vinkonu sem var svört og hét Muhala. Ég segi hét því ég veit ekki hvað varð um hana. Mér fannst rosa gaman að hafa eignast nýja vinkonu. Ég gat ekki beðið eftir því að bjóða henni með mér heim eftir skóla til að leika. Mig langaði svo að sýna henni dótið mitt. Ég spurði hana hvort hún vildi koma heim með mér að leika eftir einn skóladag og hún játaði því. Hún hefur væntanlega ekki þorað annað og viljað vera kurteis. Við fórum heim til mín og lékum okkur saman í dótinu mínu. Móðir mín spurði hana hvort foreldrar henni vissu af henni hérna hjá okkur en hún neitaði því Þá bauð mamma henni að hringja heim til að láta vita af sér því klukkan væri orðin margt og bráðum kæmi kvöldmatur. Hún sagði að þau ættu ekki síma og mér fannst það mjög skrítið. Ég hélt að allir ættu síma. Ég vorkenndi henni á sama tíma. Við skutluðum henni heim og þá sáum við að hún bjó í einhverskonar húsi sem var búið til úr pappa. Mér fannst þetta hræðilegt og skyldi ekki hvernig þau gátu búið þarna. Var henni ekki kalt að búa í svona húsi? Ég man að ég fann fyrir miklu samviskubiti því ég var búin að sýna henni allt fallega dótið mitt og búin að bjóða henni heim í fallega húsið mitt þar sem allt var til alls. Allt sjálfsagðir hlutir fyrir mér. Daginn eftir hittumst við í skólanum, hún vildi sýna mér dálítið. Við hittumst inná klósetti . Hún sagði mér að mamma sín hefði refsað sér fyrir að koma heim með mér eftir skóla daginn áður og sýndi mér stórt sár á maganum sínum og lærinu. Mamma hennar hafði lamið hana með beltissylgjunni í refsingarskyni.

Flestir í hvita hverfinu voru með húshjálp, okkar hét Evelyn. Hún átti heima í svarta hverfinu í litlum skúr með borði, stól og rúmi. Hún kom alla fimmtudaga eftir að móðir mín var búin að taka til, þá ryksugaði hún, þurrkaði af öllu og gekk frá þvotti. Hún átti strák, David sem var á sama aldri og Kolbeinn litli bróðir minn og kom hún stundum með hann og þeir léku sér saman. Ég man vel eftir henni. Hún var alltaf svo góð við okkur og það var gott að hafa hana á heimilinu. Mamma og hún voru jafnöldrur en hlutskipti þeirra í lífinu ólík, eins og svart og hvítt. En þær urðu góðar vinkonur. Ein skemmtileg saga er til af strák sem fékk vinnu heima hjá okkur við að þrífa bílinn okkar og gluggana á húsinu. Hann reyndar missti vinnuna eftir að hann rændi öllu úr bílnum okkar.

Þessi lífsreynsla mun alltaf sitja djúpt í mér. Þetta eru minningarnar sem ég gleymi aldrei, en það er margt sem ég nefni ekki hérna því það yrði langur lestur. Ég gæti örugglega skrifað heila bók.
En til Namibíu mun ég einhverntímann fara í framtíðinni og rifja upp gamlar minningar, það væri draumurinn að hitta gömlu skólafélagana og Evelyn.

Evelyn vinnukona, David og Kolbeinn
Evelyn, David sonur hennar og Kolbeinn bróðir minn.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here