Þegar konur verða óléttar fer allt kerfið okkar á fullt, hormónaflæði eykst til muna og við verðum varar við allskyns breytingar, skapgerð, líkaminn og ýmislegt annað getur breyst á meðgöngu og við getum aldrei verið almennilega undirbúnar vegna þess að hver meðganga er einstök. Við leggjum allar upp með það að gera okkar allra besta og gera allt rétt fyrir lífið sem vex inn í okkur. Svo tekur raunveruleikinn við og það er kannski ýmislegt sem við ætluðum okkur að gera á meðgöngunni sem er hreinlega ekki í boði.
Áður en ég varð ólétt hafði ég alltaf hugsað mér að þegar ég myndi ganga með barn myndi ég sko passa vel upp á mataræðið og hreyfa mig eins og venjulega og þessháttar. Ég er enn á því að ég mun reyna að passa mataræðið eins og ég get og ég reyni að borða eins hollt og ég get. Það er hinsvegar þannig að fyrstu vikurnar, þegar maður er alveg að drepast úr ógleði þá bara verður maður að borða það sem maður getur hugsað sér. Ég var svo slæm fyrstu vikurnar og leið ekki vel líkamlega og því leyfði ég líkamanum að fá það sem hann vildi ef hann bað um eitthvað sérstakt. Eitt skipti var ég búin að liggja í ógleði allan daginn. Svo allt í einu um 7 leitið minnkaði ógleðin og það eina sem ég gat hugsað mér voru franskar, með kokteilsósu! svo sannarlega ekki hollusta en ég leyfði mér það bara þar sem þetta var það eina sem mig langaði í á þessari stundu.
Það er ýmislegt sem breytist á meðgöngu og ég ætla að skrifa um mína upplifun af þessu öllu saman. Ég mun koma reglulega með pistla um það sem hefur á daga mína drifið og líðanina eftir því sem á líður meðgöngu. Konur upplifa meðgöngu allar á misjafnan hátt en það eru þó hin ýmsu atriði sem ég hef upplifað sem margar aðrar konur kannast við og öfugt. Ég mun einnig ræða við aðrar konur sem eru ófrískar og fá að heyra um þeirra líðan og hvernig þær takast á við ýmislegt sem upp kemur.
Það sem hefur breyst hjá mér hingað til.
Þreyta
Ég er ótrúlega þreytt og orkulaus. Ég þarf alltaf að virkilega hafa fyrir því að koma mér í það að gera eitthvað og þegar ég kem heim er ég alveg gjörsamlega búin á því. Þreyta og orkuleysi er mjög algengt í byrjun meðgöngu og eitthvað sem margar konur upplifa. Við getum þó huggað okkur við það að þetta á að minnka á öðrum hluta meðgöngu, en meðganga skiptist í þrjá hluta. Á fyrsta og seinasta hlutanum erum við oft þreyttar.
Ég fór að grenja!
Já, ég er nú ekki vön að fara að grenja og það þarf nú oft mikið til að láta mig missa jafnvægið. Það þurfti hinsvegar ekki mikið til um daginn þegar ég var út í Boston og var að pakka niður til að fara til New York. Ég fann ekki tannburstann minn og fór að grenja og fannst það alveg hræðilegt að finna ekki tannburstann minn, þegar kærastinn minn ætlaði að fara að hugga mig fór ég að skellihlæja þar sem mér fannst þessi aðstaða alveg gjörsamlega fáránleg, mér fannst það svo út í hött að ég hafi verið að grenja yfir þessu að við enduðum í hláturskasti. Þarna hafa hormónarnir spilað með mig..já og hann.
Breyting á bragðlaukum
Ég finn öðruvísi bragð af ákveðnum tegundum af mat. Mér finnst til dæmis tómatar einstaklega góðir núna og svo finn ég að mér finnst allt sem er örlítið súrt vera alveg ólýsanlega súrt. Til dæmis bláber, vínber og epli finnst mér mun súrari en vanalega.
Draumar
Mig dreymir mikið og rosalega skrítna drauma. Ég vakna ósjaldan upp með dúndrandi hjartslátt og draumarnir geta setið í manni allan daginn, þeir eru oft rosalega ljótir og hræðilegir, væri alveg til í að sleppa við þá svona í framhaldinu.
Brjóstin
Já blessuð brjóstin.. þau stækka á ógnarhraða, ég veit ekki hvar þetta á eftir að enda. Svo kláðinn, mig klæjar en get ekki klórað mér því að þau eru svo aum!
Ráðin
Allt í einu er fólk sem vill segja mér hvað ég á og á ekki að gera. Og þá er ég að tala um fólk sem er ekki fagfólk heldur bara fólk út í bæ, sem ég varla þekki sem finnst tilvalið að skipta sér af öllu sem ég geri, hvort sem það er að ég hafi framið hræðilegan glæp að lita á mér augabrúnirnar eða bara einfaldlega að ég hafi farið í göngutúr. Það er nú þannig að þegar maður er á leið að vera mamma sekkur maður sér oft út í bækur um barn og meðgöngu og maður les sér til um það sem má og má ekki gera. Það eru hinsvegar alltaf einhverjir sem vilja endilega leggja orð í belg, misgóð. Ekki misskilja mig, mér finnst oft gott að fá ráð og oftast bið ég um þau ef ég sækist eftir þeim, en maður hefur engan áhuga á að fá ráð frá fólki sem er gjörsamlega fanatískt þegar kemur að meðgöngu og er með óþarfa bannlista eins og sú þvæla að það eigi ekki að hreyfa sig reglulega á meðgöngu. Maður þarf að taka öllum þessum ráðum með fyrirvara því þau eru svo sannarlega misgóð og misrétt.
Tíminn!
Tíminn finnst mér standa í stað. Hann er ótrúlega lengi að líða þessa dagana en vanalega finnst mér hann líða of hratt.
Þetta ásamt togverkjum sem lýsa sér eins og túrverkir er aðalbreytingin sem ég hef fundið fyrir. Tilhlökkunin er mikil og tíminn mætti alveg líða aðeins hraðar. Ég er nefninlega farin að verða spennt fyrir partinum þar sem ég fer að finna hreyfingar. Ég held að það sé alveg yndislegt og eitthvað sem maður ætti þá helst að hlakka til þegar maður liggur enn í ógleðinni og bíður eftir því að hún gangi yfir.
Það eru eflaust margar konur sem gætu bætt við þennan lista og/eða tekið af honum. Hvernig upplifir þú byrjun meðgöngu?