„Ég hef meitt mig meira við að detta af hjóli“

Sunna Rannveig Davíðsdóttir varð á dögunum fyrsta íslenska konan til að tryggja sér atvinnusamning í MMA/ blönduðum bardagalistum. Hún er stolt af því að ryðja brautina fyrir aðrar stelpur og vera fyrirmynd. Slíkt hvarflaði ekki að henni fyrir nokkrum árum. En hún hefur komið bæði sjálfri sér og öðrum á óvart.
Hún virðist við fyrstu sýn frekar lítil og nett, þessi ljóshærða stelpa sem mætir til fundar við blaðamann í húsakynnum bardagaíþróttafélagsins Mjölnis. Örlítið feimnisleg, með sítt hárið bundið í tagl og íklædd hettupeysu. Um leið og peysan fær að fjúka birtist hins vegar vöðvastæltur og sterkbyggður líkaminn sem ber vott um þrotlausar æfingar síðustu ára. Sunna Rannveig Davíðsdóttir er ríkjandi Evrópumeistari áhugamanna í MMA í sínum flokki, eða Sunna „Tsunami“ eins og hún er gjarnan kölluð innan samfélags íþróttarinnar. Sunna varð í lok apríl fyrst íslenskra kvenna til að tryggja sér atvinnusamning í MMA/blönduðum bardagalistum hjá bardagasambandinu Invicta. Og nú taka nýir tímar við.
„Ég var búin að stefna að þessu í dálítinn tíma. En eftir Evrópumeistaramótið síðasta haust fór ég að setja meiri kraft í þetta. Mér fannst ég þá vera búin að ná þeim árangri sem hægt er að ná sem áhugamanneskja. Atvinnumennskan var því næsta skref. Nú er þetta bara vinnan mín, að berjast,“ segir hún stolt og má vera það. „Þetta er rosalega góð tilfinning. Það fyllir mig stolti og þakklæti að fá að vera sú sem ryður brautina fyrir allar hinar stelpurnar sem eiga eftir að gera þetta sama.“

Bjóst aldrei við að verða fyrirmynd

Hún skynjar ört vaxanda áhuga íslenskra kvenna og stelpna á MMA, en til að komast í hringinn, eins og hún, þurfa þær að ná tökum á hinum ýmsu gerðum bardagalista. Sem krefst mikillar vinnu.
Sjálf byrjaði Sunna í tælensku kickboxi / Muay Thai en áhugi hennar á öðrum baradagaíþróttum kviknaði fljótt og hún færði sig yfir í Mjölni, þar sem hún hefur æft í sex ár. „Ég kynntist til dæmis Brasilísku Jiu Jitsu glímunni í fyrsta skipti hér og féll alveg fyrir henni. Hún hefur róandi áhrif á hugann en tekur jafnframt mikið á líkamlega. Maður þarf að hugsa í lausnum og fram í tímann. En svo fæ ég mikla útrás í kickboxinu. Ég er mjög aktíf, kannski of aktíf stundum, en hérna beini ég orkunni allavega í rétta átt.“
Ástæðan fyrir því að Sunna ákvað upphaflega að prófa bardagaíþróttir var sú að hún vildi læra að verja sig, en þegar hún kom í Mjölni heillaðist hún líka af samfélaginu sem þar hafði myndast. „Það hefur haft mjög jákvæð áhrif á mig að koma hingað inn,“ segir Sunna sem hefur þurft að ganga í gegnum töluverða erfiðleika í lífinu. En hún vill ekki dvelja við fortíðina. Hún vill frekar ræða framtíðina sem hún lítur björtum augum. Henni finnst frábært að fá að vera fyrirmynd ungra stelpna í dag. Eitthvað sem hvarflaði aldrei að henni að ætti eftir að gerast. „Það er svo margt sem ég er búin að gera á síðustu árum sem hvarflaði aldrei að mér að ég ætti eftir að gera. Margt svo jákvætt. Ég er búin að koma sjálfri mér mjög mikið á óvart og öðrum líka held ég. Og ég er alls ekki hætt að koma á óvart, það er ég viss um.”

Dóttirin fetar í fótspor mömmu

Dóttir Sunnu, Anna Rakel sem er 11 ára, er líka að æfa hjá Mjölni og hefur gert frá því hún var 6 ára. „Hún hefur mikinn áhuga á þessu og þetta er okkar sameiginlega áhugamál. Eftir skóla þá kemur hún hingað og hittir mig. Svo erum við hér þangað til við förum heim að borða kvöldmat og sofa. Það er ekkert alltaf á hefðbundum kvöldmatartímum og stundum tökum við meira að segja með okkur nesti hingað,“ segir Sunna og hlær. „Þetta er annað heimili okkar og ætli við séum ekki meira hér er heima hjá okkur. Ég held að við kunnum báðar jafn vel að meta þetta fyrirkomulag. Við þekkjum ekkert annað og ég er búin að lifa og hrærast í þessu frá því hún var pínulítil.“
Sunna hefur þó aldrei þrýst á dóttur sína að æfa hjá Mjölni. Hún hefur prófað ýmsar aðrar íþróttir en bardagaíþróttirnar virðast heilla hana mest, líkt og mömmuna, sem segir hana mjög efnilega. „Ég get alveg trúað því að hún feti í fótspor mín. Jafnvel á meðan ég verð ennþá að. Þegar ég verð að ljúka ferlinum mínum þá verður hún kannski að hefja sinn,“ segir Sunna sem ætlar svo sannarlega að styðja dóttur sína, ákveði hún að feta þann veg. „Hún hefur stutt mig hundrað prósent fram að þessu og ég mun styðja hana hundrað prósent í öllu því sem hún ákveður að gera. Hún er bara alveg mögnuð og það er svo gaman að fylgjast með henni. Miðað við hvernig hún er orðin í dag þá veit ég ekki hvar þetta endar. “

Finnur ekki fyrir spörkunum

Foreldrar Sunnu voru ekkert sérstaklega jákvæðir gagnvart bardagaíþróttum þegar hún var að byrja að æfa. Og ekki amma hennar heldur. En það hefur breyst. „Í dag sjá þau að ég er að gera það sem ég elska að gera. Þetta verður bráðum lifibrauðið mitt og er alls ekki svo vitlaust þegar upp er staðið. Félagsskapurinn er góður og umhverfið heilbrigt. Mjölnir er ein stór fjölskylda.“
En eftir að hafa horft á nokkur myndbönd af Sunnu berjast í hringnum, þar sem vottar svo sannarlega ekki fyrir neinni feimni af hennar hálfu, getur blaðamaður ekki annað en spurt hvort þetta sé í alvöru ekki hættulegt sport? Hún vill ekki meina það. „Á æfingum lærum við að verja okkur. Við lærum tækni og að beita líkamanum rétt. Maður lærir að þekkja líkama sinn og veit við hverju er að búast. Þetta lítur mun verr út heldur en þetta er í raun og veru. Svo venst maður því að fá högg á sig,“ útskýrir Sunna, en aðspurð segist hún aldrei hafa meitt sig að ráði. Einhverjar smá skeinur og marblettir hér og þar, en ekkert sem hefur ekki gróið hratt og vel. „Maður finnur ekki fyrir því þegar maður er að berjast. Adrenalínflæðið er svo mikið.“ Hún man eftir einu atviki þar sem hún fékk skurð í vörina eftir hnéspark frá öflugum andstæðingi, en það eina sem hún fann fyrir var blóðbragð í munninum. „Ég hef meitt mig meira við að detta af hjóli.“

Búið að vera mikið hark

Sunna iðar í skinninu að fá að berjast fyrsta bardagann sinn sem atvinnumanneskja í MMA hjá Invicta, en það er enn ekki orðið ljóst hvenær hann fer fram. Bardagasambandið heldur yfirleitt þrjú til fjögur bardagakvöld á ári og Sunna vonast til að fá að komast í að minnsta kosti þrjá bardaga ár hvert.
En hvað þýðir það fyrir hana að vera orðin atvinnumanneskja í íþróttinni? „Það þýðir að mínir möguleikar til að geta lifað af þessu einhvern daginn aukast til muna. Það er samt talsvert langt þangað til. Eitt og annað breytist þó strax eins og til dæmis það að ég þarf ekki lengur að leggja sjálf út fyrir ferðakostnaði þegar ég fer út að berjast. Fram að þessu hef ég verið að borga með mér þegar ég hef farið út. Það er búið að vera ansi mikið hark. Annað sem breytist er að ég fæ greitt fyrir hvern bardaga, en til að byrja með er það frekar lítið. Hægt og rólega get ég svo unnið mig upp, en fæ á sama tíma erfiðari andstæðinga,“ útskýrir Sunna. Hún reiknar því með að þurfa áfram að hafa töluvert fyrir saltinu í grautinn. En til að framfleyta sér hefur hún gegnt ýmsum störfum; verslunarstörfum, leigubílaakstri, dyravörslu á næturklúbbum og nú að undanförnu hefur hún einbeitt sér að þjálfun einstaklinga og lítilla hópa.
„Þetta verður vonandi léttara með tímanum, en stundum hefur harkið verið svo mikið að ég hef spurt sjálfa mig hvað ég geti haldið þessu áfram lengi. En hjartað hefur borið mig áfram. Mér þykir svo vænt um sportið og hef mikla ástríðu fyrir því sem ég er að gera. Ég er búin að vera að elta drauminn minn og það er svo gaman að sjá hann rætast. Það var greinilega ekki vitleysa að halda áfram. Ég er á réttri leið og tel að ég eigi enn eftir að ná mínu besta formi,” segir Sunna og bendir á að konur séu að berjast alveg fram yfir fertugt. Sjálf sé hún bara þrítug. „Ég á nóg eftir,“ bætir hún við að lokum.
Viðtalið birtist fyrst í amk, nýju fylgiblaði Fréttatímans.
SHARE