Ég heiti Sunna og ég er þunglyndissjúklingur í bata! – Þjóðarsálin

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

————————

Hæ, ég heiti Sunna og er þunglyndissjúklingur, ég skammast min ekkert fyrir það!

Ég er bara afskaplega „venjuleg“ 17 ára stelpa, nema það að ég glími við þunglyndi og hef gert í mörg ár. Ég er Vestmannaeyingur, bjó þar í 16 ár en bý núna í Hveragerði.

Ég hef alla mína ævi verið þunglynd, en atburður árið 2009 triggeraði það svolítið mikið. Árið 2009 dó æðisleg manneskja, manneskja sem hefur alltaf staðið með mér. Þessi yndislega manneskja gerði svo mikið fyrir marga, hann var mér mjög mikið og hans er sárt saknað.

Eftir að hann dó fór ég að loka mig mjög mikið inni og gerði nákvæmlega ekki neitt. Ég hætti að tala við vinkonur mina og vini, ég var alltaf ein. Á tímabilinu 2009 til 2012 gerðist afar fátt, nema það að ég sökk alltaf meira og meira niður í þunglyndi.

Árið 2012 lenti ég í því að vera lögð í einelti, svokallað neteinelti, það var sagt allskonar viðbjóður við mig og um mig. Fólk sem ég vissi ekki einu sinni að væri til, hringdi í mig og sagði allskonar viðbjóð við mig, hvað ég væri, þessir hlutir sem þetta fólk sagði var bara alls ekki satt. Það var aðeins ein manneskja sem byrjaði þetta allt saman við skulum kalla hann x.

X var alltaf á því að ég hefði gert honum eitthvað, en ég gerði honum ekki neitt. Í enda 2012 byrjaði svo besta vinkona min með x, ég varð mjög sár og eiginlega bara lokaði á þessa stelpu og x. X hélt samt alltaf áfram. „Heimurinn yrði betri ef þú myndir fara og drepa þig“ er dæmi um það sem x sagði.

Ég fór að beita sjálfsmeiðingum, mjög slæmar sjálfsmeiðingar. Ég lenti uppá spítala þrisvar sinnum til að láta sauma, ég reyndi oft að enda mitt eigið líf. Svo endaði allt á því að læknirinn minn fékk nóg og lagði minn inn á deild, bráðainnlögn og ég dvaldi þar í eina nótt. Konurnar á spítalanum hjálpuðu mér mjög mikið þrátt fyrir að hafa bara verið þarna i eina nott, sérstaklega kona sem við skulum kalla Þ. Hún þekkir mig í dag sem mér þykir afar vænt um. Þ er verndarengillinn minn og er ég henni afar þakklát fyrir allt saman.

Næsta dag var haldið til Reykjavíkur á bráðaviðtal á BUGL. Þar hitti ég þær sem við skulum kalla S og R. S ræddi alltaf við mömmu og pabba en R við mig. R hjálpaði mér við ýmislegt t.d. að fara á minn eiginn stað ef ég finn að ég er að fara niður. Þær létu mig einnig fá lyf sem lætur mig sofna og sofa alla nóttina. Þau lyf þarf ég ekki að taka í dag.

Ég hélt áfram að fara í viðtöl á BUGL í 2-3 mánuði en útskrifaðist svo 2013, á afmælisdeginum mínum.

Besta vinkona mín heitir Oddný, hún er kletturinn minn, mamma er einnig búin að standa sig æðislega og hjálpa mér æðislega mikið. Oddný bjó ekki á sama stað og ég og við töluðumst mikið saman á Facebook og í síma, ég hringdi alltaf í hana þegar það var eitthvað að. En á þessu tímabili missti ég einnig góða vinkonu mina, hún var búin að vera vínkona mín í 11 ár. En svo þegar eitthvað svona gerist þá sér maður hverjir standa í raun og veru með manni.

Það var ekki mikið liðið af 2013 þegar ég fór til félagsfræðings, ég kalla hana samt alltaf sálfræðing. Hún hefur einnig hjálpað mér mjög mikið og ég fer stundum ennþá til hennar í dag bara svona til þess að ég sökkvi ekki niður aftur.

Ég, mamma og félagsfræðingurinn fórum í viðtal við Eyjafréttir og birtist sú grein í Eyjafréttum. Við fórum einnig og héldum kynningu fyrir alla 10. bekkina í skólanum, en þá var ég í 10. bekk. Ég mætti eiginlega ekki neitt í skólann fyrir áramót, og það var enginn að neyða mig til þess. Ég fór að mæta eitthvað eftir áramót og gerði mitt besta. 2013 byrjaði vel, en ég sökk aftur í Maí, ég veit ekkert afhverju. Ég neyddist til að hætta með þáverandi kærastanum mínum, ef ég gat ekki gert mig sjálfa ánægða, hvernig átti ég þá að gera aðra manneskju ánægða?

Ég var fljót að ná mér og nældi mér í núverandi kærastann minn. Við erum búin að vera saman í rúma 8 mánuði, alveg að koma 9 mánuðir. Fyrst til að byrja með var ég svona semi þunglynd en svo þegar leið á sambandið þá jafnaði ég mig. Mamma bauð honum með okkur til Tenerife í ágúst og það var bara mjög gaman, ég gleymdi öllu.

Eftir þennan tíma er ég bara búin að eiga góða daga en fæ auðvitað inni á milli mína slæmu daga, þá er bara tekið á því.

Í dag líður mér miklu betur, mamma segist vera ánægð að fá að heyra mig hlæja aftur. Finnst rosa gaman að heyra það. Ég bý með kærastanum mínum hjá foreldrum hans í Hveragerði og það er bara æðislegt. Ég er í Fjölbrautarskóla Suðurlands og er að gera mitt allra besta í honum.

Þunglyndi á ekki að vera neitt leyndarmál. Maður á ekkert að skammast sín fyrir það. Það er miklu betra að koma bara fram og tala og fá hjálp, það virkaði allavegana hjá mér.

Þunglyndi er sjúkdómur sem hægt er að fá meðhöndlun við.

Ég heiti Sunna og ég er þunglyndissjúklingur í bata!

Takk fyrir mig!

SHARE