Þegar ég er spurð við hvað ég starfa þá svara ég oftast að ég hlusti á lækna allan daginn, en bæti svo við að ég sé læknaritari og þó að starfið mitt snúist mikið um að hlusta á lækna þá geri ég svo miklu miklu meira.
Í stuttu máli þá mætti segja að við séum tengiliðir lækna við umheiminn. Ef læknirinn þarf gögn frá öðrum læknum, öðrum sjúkrastofnunum eða heilsugæslum, þá biður hann læknaritarann um að redda því. Ef læknirinn vill hitta sjúkling aftur eftir t.d 5 vikur og senda hann líka í röntgen og blóðprufu, þá sé ég um það. Ef læknirinn þarf að vísa sjúklingi til annars læknis þá sé ég um að koma tilvísuninni til skila. Ef sjúklingur þarf að koma skilaboðum til læknisins, þá hefur hann samband við mig og ég kem þeim til skila. Sjúklingurinn vill fá afrit af gögnunum sínum, hann hefur samband við mig. Sjúklingurinn man ekki hvenær tíminn hans var, hann hringir í mig.
Þetta starf er ótrúlega fjölbreytt og það er það sem mér finnst svo frábært. Ég byrjaði að vinna sem læknaritari eiginlega fyrir tilviljun strax eftir flotta hvíta kollinn (stúdentinn) og er ennþá hérna (og nei, þið fáið ekki að vita hvað það eru mörg ár síðan en þeir eru farnir að gera ráð fyrir mér á teikningum sjúkrahúsins). Læknaritari er lögverndað starfsheiti og er kennt frá Fjölbraut í Ármúla. Ég tók það í fjarnámi, dýrkaði að geta starfað við þetta á Akureyri á meðan ég lærði í skóla í Reykjavík. Það þarf sjálfsaga til að stunda fjárnám, en mér fannst þetta frábært. Verð samt að viðurkenna að það var sérstakt að hitta kennarana sína fyrst við útskriftina.
Auðvitað er mikið álag sem fylgir þessu starfi. Ég hef fengið mjög erfið símtöl, mjög erfið, en ég ef lært að skilja læknaritarann eftir í vinnunni. Maður verður að gera það, en jú, stundum þegar ég er að knúsa börnin mín þá hugsa ég um eitthvað barn sem ég var að skrifa um eða ég er að elda kvöldmat og hugsa þá til konunnar sem var svo glöð að fá tíma á þeim degi sem hentaði henni.
Þannig að já, ég er læknaritari, og ég geri miklu meira en flestir gera sér grein fyrir.
Ég heiti Kristbjörg og ég er 2 barna móðir sem elskar föndur, að skapa með höndunum, að búa til eitthvað úr engu og að reyna að auðvelda mér lífið með því að skipuleggja, skipuleggja, skipuleggja.