Ég þekki konur

Alveg er ég vonlaus rómantíker. Stundum les ég meira að segja ljóð í laumi. Gömul og íslensk, hallærisleg og heimspekileg ljóð. Ekki um náttúru lands og þjóðar, árstíðirnar fjórar eða sjálfstæðisbaráttuna. Nei, ég les um gamlar ástir og flogna sénsa, þyl upp orðin sem mér þykja alveg hreint ógurleg og velti vöngum yfir því hvernig fólk hafi borið sig að í gamla daga.

 

Í sérstöku uppáhaldi hjá mér (já, ég las líka Þjóðsögur Jóns Árnasonar sem barn og grét yfir útilegumönnum með snúð og Kókómjólk að vopni) er Böðvar gamli frá Hnífsdal. Sérstakur karakter, sem var uppi snemma á síðustu öld. Gaf út sína fyrstu (og reyndar einu) ljóðabók aðeins 24 ára að aldri en bókin bar heitið Ég þekki konur og kom út árið 1930.

 

Lifandis löngu áður en Ástandið alræmda skall á, meðan konur mjólkuðu beljur með berum höndum og karlmenn stöguðu enn í sokka. Þetta hefur verið á þeim tíma sem afleiðingar heimskreppunar sem skall á með fullum þunga árið 1930, vomaði yfir litla Íslandi með þeim afleiðingum að viðskiptahömlum var komið á og atvinnuleysi varð landlægur fjandi.

 

Í þá daga sömdu karlmenn gjarna ljóð og gáfu út í bundnu máli.

 

Heilum tíu árum áður en Bretinn steig glaðbeittur á íslenska grundu, settist ungur og rómantískur maður við skriftir og fór stórum um eðli íslenskra kvenna, ástir þeirra og þöglar sorgir. Þessi ungi maður gaf síðar meir út látlausa ljóðabók sem trónir uppi í hillu hjá mér og skipar þar sérstakan heiðursess.

 

Stundum velti ég því fyrir mér hvernig hann Böðvar frá Hnífsdal hafi litið út eða hvort hann hafi nokkru sinni eignast þann fjölda ástkvenna sem ljóðið virðist vísa til. Innsæi hans á þrám og innra eðli kvenna þykir mér rannsóknar virði, en nú er bara miður að ég þekki engan sem getur rakið sögu mannsins.

 

Þannig er því oft farið um orðin og ljóðin, leirburðinn og skáldin. Að það sem fer á blaðið lifir langtum lengur en manneskjan sjálf sem barði þau saman eitthvað síðkvöldið og gaf að lokum út í lítilli bók. Orð eru ekki bara til alls líkleg, þau geta hæglega orðið eilíf ef ekki er að gáð.

 

Orð Böðvars minna mig um margt á stefnumótagreinar nútímans, sársaukann sem fylgir ástarsorginni, fiðrildin í maganum og þau þjóna líka sem óþyrmileg áminning þess að þó tímarnir breytist og mannfólkið með, er ein sú tilfinning sem aldrei fer úr tísku; ástin í öllu sínu veldi.

 

Fallegt ljóð og þróttmikið, leirburður að vísu en laglegur er hann. Óður til formæðra Íslands, þeirra kvenna sem byggðu landið og komu því fólki sem fæddi foreldra okkar á legg. Ef marka má orð unga skáldsins frá Hnífsdal, þá hefur sjálfstæðisþráin fylgt íslenskum konum eftir allt frá árdögum eyjunnar, ólgað í undirvitundinni og þeytt systrum okkar áfram gegnum árin.

Með sanni má segja að Böðvar þekkti eðli íslenskra kvenna – betur en margur maðurinn mun nokkru sinni gera.

 

Ég þekki konur

Ég þekki konur með eld í æðum

frjálsar í skapi, fyndnar í ræðum

þær þekkja lífið og lífsins sorgir

en minnast aldrei á brunnar borgir

Æskan er svívirt og eiðar lognir

en brennumenn í burtu flognir

heimurinn dæmir þær hyggjuspilltar

um nætur bestar, í nautnum villtar

Dæmir þær úrhrök og einskis virði

og dræpi þær eflaust ef hann þyrði

heimur, skolaðu hendur þínar

ég þekki sjálfur systur mínar

Konur sem dansa með dauðann í hjarta

þær kunna að elska en ekki að kvarta

konur sem hlægja og hylja tárin

þær brosa hvað fegurst þá blæða sárin

SHARE