ATH. Þessi grein er aðsend. Lesendum er frjálst að senda inn greinar undir nafnleynd í Þjóðarsálina, en þær skoðanir sem birtast hér í Þjóðarsálinni endurspegla hvorki ritstjórnarstefnu né skoðanir HÚN.IS
Ég var orðin fertug áður en ég kynntist OA. Ég var orðin feit, hömlulaus og vildi bara einangra mig. Ég var búin að reyna óteljandi megrunarkúra, m.a. Scarsdale-kúrinn, sítrónukúrinn, fór í Línuna, reyndi jóga, alls konar líkamsræktarátök og ekkert gekk. Jú, þetta gekk ágætlega meðan á átakinu stóð, yfirleitt í svona 2-3 mánuði, ég léttist og lífið varð dásamlegt. Ég útskrifaðist í hvert sinn og það var svo gaman að vera til. En svo fór allt á sama veg og ég þyngdist aftur. Oftast varð þyngdin meiri en áður hafði sést. Í kjölfarið kom einangrunartilfinningin, mig langaði ekki að hitta fólk, var farin að vilja bara vera ein heima og borða, borða nammi og annað sætmeti og vera bara í friði.
Ég hafði lengi vitað af félagsskapnum OA, veit ekki hvar eða hvernig ég frétti af OA, en ég var búin að vita lengi af samtökunum. Svo var það einn dag í október að ég fór á nýliðafund og þar tók á móti mér yndislegur OA-félagi, sem fræddi mig heilmikið um samtökin. Þarna var kominn einstaklingur, sem skildi hvað ég hafði gengið í gegnum og þekkti algjörlega hvernig mér leið. Ég var komin heim! Mér gekk vel í baráttunni við matarfíknina og mér leið mjög vel. Síðan breyttust aðstæður mínar og ég tapaði þræðinum, týndi leiðinni. Ég var í ofátinu og einangruninni í mörg ár þangað til ég gafst aftur upp og hrópaði á hjálp. Og hjálpin barst mér innan mjög skamms tíma, ég fékk bænasvar, ég fékk dásamlega trúnaðarkonu og er í dag komin mjög langt áleiðis á bataleið minni.
Með því að vinna sporavinnuna og notfæra mér öll verkfærin sem ég hef kynnst í OA, leita til trúnaðarkonu og gerast trúnaðarkona fyrir aðra OA félaga þá hefur líf mitt breyst ótrúlega mikið. Ég hef frá upphafi OA göngu minnar reynt að tileinka mér ýmsa frasa sem ég hef heyrt og lesið s.s. Einn dag í einu, Let go, let God, Keep coming back, Fráhald í forgang, Framför en ekki fullkomnun o.fl. Allt þetta hefur hjálpað mér til að ná á þann góða stað sem ég er á í dag. Ég á það alveg til ennþá að hrasa en í dag þekki ég leiðina til baka og veit að það mun enginn dæma mig fyrir það vegna þess að flestallir innan OA hafa reynt það sama og ég. Það allra besta sem ég hef lært í OA og hef reynt að tileinka mér í öllu mínu lífi er æðruleysisbænin Guð gefðu mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.
Þegar ég kom inn í OA fékk ég að vita að ég væri með sjúkdóm, hömlaust ofát. Þessi sjúkdómur er bæði líkamlegur, tilfinningalegur og andlegur og hann ekki er hægt að lækna en ég get fengið verkfæri hjá OA til að halda honum í skefjum, einn dag í einu. Leiðin sem ég lærði í OA virkar fyrir mig og fullt af fólki sem eins og mig sem á í óeðlilegu sambandi við mat.