“Ég var í þessum kjól kvöldið sem mér var nauðgað”

Lára Sigurðardóttir birtir einlæga frásögn á Facebook síðu sinni sem við birtum hér með góðfúslegu leyfi höfundar. Greinina birti Lára í tilefni af druslugöngunni sem haldin verður á laugardaginn.

Stundum koma dagar þar sem kona finnur þörf til að umbreyta slæmum atvikum í lífi sínu í eitthvað gott, þó ekki sé nema það að vekja fólk til umhugsunar. Hjá mér er svoleiðis dagur í dag.

Sjáið þið bláa kjólinn sem ég er í á myndinni? Ég var í þessum kjól kvöldið sem mér var nauðgað. Kjóllinn sjálfur skiptir svo sem litlu máli enda lá hann í kuðli á gólfinu á meðan ég var nánast kæfð, sló frá mér, varð stjörf af ótta, bjargarlaus og skilningsvana yfir því sem var að eiga sér stað. Átti ekki að vera nóg að segja “nei”? Lenda góðar stelpur eins og ég í svona? Já. Jafnvel þó þær séu klæddar í sakleysislegan, bláan kjól.

Ég var svo gagntekin af þeirri fásinnu að ég hefði gert eitthvað rangt, hefði á einhvern hátt kallað ofbeldið yfir mig og ekki sýnt rétt viðbrögð, að í heilt ár sagði ég ekki orð um umrætt kvöld. Fann bara skömmina grafa um sig inni í mér eins og ígerð í sári og gera mig að manneskju sem ég þekkti ekki lengur. Það er vont að vera vofan af sjálfum sér. Þegar ég loksins sagði frá gat ég byrjað að púsla mér saman á ný – og er enn að. Ég er sem betur fer umkringd mannlegum klettum og góðum öxlum til að gráta á (þið vitið hver þið eruð ).

Ég gleymi aldrei deginum þegar ég hló aftur – ekki holum gervihlátri heldur hlátri sem náði inn að hjartarótum. Hér eftir ætla ég að gera mitt besta til að brosa og hlæja á hverjum degi því þannig vinn ég. Þannig fær ofbeldismaðurinn ekki að brjóta mig meira niður.

Á laugardaginn verður Druslugangan gengin í þriðja sinn. Ég ætla að mæta og ganga brosandi fyrir öll skiptin sem ég lá á gólfinu og grét, fyrir öll skiptin sem ég sagði sjálfri mér að ég hefði ekki verið nógu sterk og síðast en ekki síst til að minna sjálfa mig, og alla aðra, á að nauðgun er alltaf á ábyrgð gerandans. Alltaf.

Við þökkum Láru fyrir þessa einlægu frásögn.

SHARE