„Ég er að heyra af ungu fólki deyja af of stórum skammti af eiturlyfjum og eldra fólki og börnum í sjálfsvígshugleiðingum. Svo er auðvitað mikið um geðsjúkdóma heima á Íslandi og Íslendingar eiga heimsmet í notkun geðlyfja og kannabisnotkun. Ég tel Ísland mjög sjúkt af alkóhólisma og alanonisma sem hefur slæm áhrif á fjölskyldur. Ég hef áhyggjur af ástandinu á Íslandi og langar til að gera það sem ég get til að hjálpa,“ segir Rósa Guðmundsdóttir, sem margir muna eftir sem Rósu á Spotlight, en hún var skemmtanastjóri staðarins í kringum síðustu aldamót.
Rósa var rétt um tvítugt orðin allt í öllu í íslensku skemmtanalífi, en helgaði sig tónlistinni nokkrum árum síðar. Hún vakti einnig athygli sem öflugur talsmaður samkynhneigðra en sjálf var hún ófeimin við að ræða opinskátt um kynhneigð sína. Hún drakk og dópaði með þekktu fólki og viðskiptamönnum, bæði íslenskum og erlendum. Henni fannst hún vera að meika það en gerði sér ekki grein fyrir því að hún stefndi hraðbyri til glötunar með líferni sínu. Sem betur fer tókst henni að sjá ljósið í tæka tíð og grípa í taumana áður en það varð um seinan.
Vill gefa öðrum von
Eftir að hafa tekið til í sínu lífi með góðum árangri vill Rósa nú miðla reynslu sinni og vonandi hjálpa öðrum. Hún hefur skrifað rúmlega 60 blaðsíðna frásögn af sínu lífi sem hún ætlar að bjóða fólki að hlaða niður á netinu fyrir 10 Bandaríkjadali, eða um 1200 íslenskar krónur. Ágóðann ætlar hún að gefa til málefna sem tengjast sögu hennar. „Ég er sjálf óvirkur alkóhólisti og fíkill og þróaði með mér geðsjúkdóm með ofnotkun hugbreytandi efna. Ég þurfti að yfirstíga þessa sjúkdóma og tókst það fyrir mörgum árum. Nú langar mig að færa öðrum von og lausn,“ segir Rósa einlæg. „Mig langar að varpa ljósi á þá hluti sem urðu til þess að ég fór á þann stað sem ég fór og náði ákveðnum botni í mínu lífi. Og hvað varð til þess að ég komst út úr þessu.“
Mest í að meiða sjálfa sig
Rósa var aðeins þrettán ára þegar hún byrjaði að drekka og þróaði fljótt með sér fíkn í harðari efni. Hún fór úr því að vera saklaus unglingsstúlka í Vestmannaeyjum – afburðanemandi og efnilegur píanóleikari – í að vera djammdrottning Íslands.
„Ég var svo ung þegar ég tók við Spotlight. Ég mátti ekki einu sinni drekka löglega á þessum tíma en fólk var ekkert að spá í það. Ég fór svolítið fram úr mér,“ segir Rósa og hlær þegar hún hugsar til baka.
„Ég valdi mér feril þar sem ég gat verið að djamma og drekka. Það var vinnan mín. Ég var líka mjög leiðandi, alltaf að varpa ljósi á eitthvað eða berja niður fordóma. Ég var samt ekki vond manneskja. Ég var mest að meiða sjálfa mig,“ segir Rósa en hún var mjög leitandi á þessum árum. Hún var í raun að finna sjálfa sig fyrir opnum tjöldum, hún var á allra vörum og það sem hún gerði rataði ítrekað í fjölmiðla. Það kann engan að undra að ekkert af þessu hafði góð áhrif á Rósu.
[pullquote]Þegar ég kom út af geðdeild hélt ég áfram drekka og nota kannabis. Ég var í svo mikilli afneitun varðandi þennan fíknisjúkdóm.[/pullquote]
Tók ábyrgð á hegðun sinni
„Fíknin kom mér inn á geðdeild og ég var inn og út af geðdeild í nokkur ár. Það var talið að ég yrði andlega lasin alla ævi. Neyslan mín olli hrikalegum geðhæðum og svo hrundi ég niður í sjálfsmorðsþunglyndi. Ég reyndi sem betur fer ekki sjálfsvíg en ég var hrædd við hugsanir mínar. Ég var með sjálfsmorð og dauða á heilanum. Þunglyndið var orðið það slæmt að ég var í hættu.“ Það var á þeim tímapunkti sem Rósa gekk sjálf inn á geðdeild og óskaði eftir aðstoð, sem hún fékk. Hún var samt ekki tilbúin að hætta að neyslunni á þeim tíma.
„Þegar ég kom út af geðdeild hélt ég áfram drekka og nota kannabis. Ég var í svo mikilli afneitun varðandi þennan fíknisjúkdóm. Ég var svo vön því að gera það sem ég vildi og gat til að láta mér líða betur. Það var ekki fyrr en ég tók ábyrgð á fíknihegðuninni í mér og öllum þeim skapgerðarbrestum sem fylgja því að vera virkur fíkill – eigingirninni, sérplægninni og sjálfsmiðuninni – að ég gat tekist á við andlegu veikindin. Ég fór að stunda heilbrigt líferni og það fyllti í skemmdirnar sem fíknin hafði valdið. Þá gat ég sjálfkrafa farið að minnka geðlyfin og vinna úr áföllum.“
Fór aldrei í meðferð
Það skipti miklu máli fyrir Rósu að vinna úr þeim áföllum sem hún varð fyrir í æsku, enda telur hún að þau hafi stjórnað fíkn hennar að miklu leyti. Hún varð fyrir misnotkun og einelti, en treysti sér ekki til að segja frá leyndarmálunum og fjarlægðist fjölskyldu sína fyrir vikið. Æskan og unglingsárin voru Rósu því erfið og uppreisnin var hennar leið til að fá útrás og öðlast viðurkenningu. „Ég trúi því ekki að áföllin hafi gert mig að fíkli og alkóhólista. En áföllin hjálpuðu til og ýttu undir hvernig ég notaði efnin.“
Rósa fór aldrei í meðferð, en um leið og henni tókst að viðurkenna fyrir sjálfri sér að hún ætti við áfengis- og fíkniefnavanda að stríða, þá tókst henni að hætta að sjálfsdáðum. Þegar hún var tilbúin. Það var árið 2003 og hún hefur verið edrú síðan.
Þrátt fyrir að Rósa hefði viljann til að hætta var það ekki auðvelt. Langt því frá. „Þegar ég sá skyndilega allt skýrt þá hugsaði ég ekki hvernig mér ætti eftir að líða líkamlega ef ég hætti. Ég ákvað bara að hætta. Það var í raun lán að ég lifði þetta af. Ég fór í gegnum mikil fráhvörf. Þetta var algjör geðveiki ofan á meiri geðveiki.“
Hún telur að andleg vakning skipti miklu máli þegar kemur að því að ná bata. Það var allavega hennar lausn. Hún leitaði og fann sér æðri mátt, án þess þó að aðhyllast trúarbrögð.
[pullquote]Ég fór í gegnum mikil fráhvörf. Þetta var algjör geðveiki ofan á meiri geðveiki.[/pullquote]
Spennandi tímar í New York
Í dag er Rósa hamingjusöm og leggur rækt við sjálfa sig. Hún hefur verið búsett í New York í áraraðir þar sem hún hefur starfað í skemmtanabransanum og við sköpun. Hún á einnig fyrirtæki og framundan eru spennandi tímar í verkefnum sem snúa að því að hafa áhrif á fólk og bæta líf þess. „Ég er búin að sameina vinnulífið mitt þessum andlegu lífsreglum. Ég vil láta gott af mér leiða í gegnum vinnuna til annarra. Skapa efni og tækifæri sem hreyfa við fólki og sýnir því leið út úr myrkrinu. Svo vinn ég að því á hverjum degi að verða betri manneskja.“
Hér er hægt að nálgast frásögn Rósu.
Viðtalið birtist fyrst í amk, nýju fylgiblaði Fréttatímans.