Svava Dögg Guðmundsdóttir er fyrsta konan sem tekur þátt í einstaklingskeppni WOW cyclothon, en hætti keppni við Mývatn. Hún er strax búin að ákveða að fara aftur á næsta ári þrátt fyrir að hafa upplifað mikinn sársauka í keppninni.
„Mig hafði lengi langað að hjóla hringinn í kringum landið en hafði aldrei gefið mér tíma til þess. Ég hafði líka kannski ekki nógu mikla trú á sjálfri mér. En þegar ég sá auglýsingu um WOW cyclothon, þar sem var í boði að fara hringinn á þremur dögum, þá hugsaði ég með mér að þetta væri akkúrat fyrir mig,“ segir Svava Dögg Guðmundsdóttir sem á dögunum var fyrsta konan til að taka þátt í einstaklingskeppni í WOW cyclothon.
Kláraði 507 kílómetra
Hún kláraði reyndar ekki hringferðina og lauk keppni við Mývatn eftir 507 kílómetra. Svava má engu að síður vera stolt af afrekinu, enda ekki fyrir hvern sem er að hjóla slíka vegalengd á svo skömmum tíma. „Þegar ég skráði mig til leiks gerði ég mér ekki alveg grein fyrir því hvað það þýddi að fara hringinn á svona skömmum tíma, en ég vildi gera þetta. Ef ég hefði vitað hvað ég væri að fara út í þá hefði ég hætt við. Það var svo ógeðslega mikill sársauki sem fylgdi þessu, en ég er mjög þakklát fyrir að hafa gert þetta,“ segir Svava sem er hvergi banginn þrátt fyrir að vera enn að jafna sig eftir keppnina. Hún er strax búin að ákveða að fara aftur á næsta ári.
„Mér finnst ég ekki þurfa það, en mig langar og er strax farið að hlakka til. Ég veit alveg að ég get klárað þetta. Það var svo margt sem ég vissi ekki, en ef ég hefði vitað það sem ég veit núna þá hefði ég klárað.“
Viti sínu fjær af sársauka
Hún segir brekkurnar á leiðinni hafa verið erfiðustu áskorunina. Þá náði hún hvorki að sofa né borða sem gerði það að verkum að hún þreyttist miklu fyrr en ella. Hún er engu að síður mjög sátt við að hafa náð alla leið á Mývatn í fyrstu tilraun. „Fyrsta markmiðið sem ég setti mér var að byrja, næsta markmið var að komast á Blönduós, það eru nefnilega margir sem hætta þar, og svo vildi ég komast til Akureyrar því allir sem ég þekki þaðan eru svo skemmtilegir. Þegar ég var komin aðeins lengra en til Akureyrar var ég næstum orðin viti mínu fjær af sársauka en fylgdarliðið mitt hvatti mig áfram. Ég er mjög þakklát fyrir það og hjólaði síðustu kílómetrana á Mývatn í kvöl og pínu.“
Svava segir það hafa verið erfitt að þurfa að viðurkenna það fyrir sjálfri sér að hún kæmist ekki lengra. „Ég var brjáluð út í allt og alla, lífið, fylgdarliðið og allt. En mér var hjálpað í sturtu á hóteli á Mývatni og ætlaði að sjá til eftir að ég hafði hvílt mig, hvort sársaukinn stafaði bara af þreytunni eða einhverju öðru. En eftir hvíldina fann ég hvað ég var sárkvalin, meðal annars í ökklum og sitjanda. Að taka ákvörðun um að hætta var næstum jafn erfið og að hjóla þetta, en ég náði samt að hætta með bros á vör. Þegar ákvörðunin hafði verið tekin þá var ég sátt.“
Óvæntur stuðningur á Blönduósi
Það eru ekki mörg ár síðan Svava smitaðist af hjólabakteríunni en hún keypti fyrsta alvöru hjólið sitt hjá Kríu árið 2013.
Hún kom fjölskyldu og vinum mikið á óvart í cyclothoninu með því að fara miklu lengra en allir bjuggust við. Hún fékk þó ómetanlegan stuðning frá fólkinu í kringum sig og er mjög þakklát fyrir það. Þá barst Svövu óvæntur stuðningur frá hópi kvenna á Blönduósi sem komu sérstaklega saman til að hvetja hana áfram þegar hún hjólaði þar í gegn. „Ég veit ekki hvaða konur þetta eru en ég er þeim mjög þakklát. Ég var alveg við það að hætta á Blönduósi en fékk þarna aukinn kraft.“
Eftir að Svava lauk keppni hefur hún dvalið mikið hjá bestu vinkonu sinni í góðu yfirlæti þar sem hún hefur notið þess að glápa á þætti og borða góðan mat á meðan hún jafnar sig. „Mér finnst ég meira að segja enn finna fyrir miklum stuðningi jafnvel þó ég hafi ekki klárað. Fólk er svo ánægt með að ég hafi reynt,“ segir Svava sem fer væntanlega fljótlega að æfa sig fyrir næsta cyclothon.
Mikill stuðningur
Svava hefur fengið mikinn stuðning frá fjölskyldu og vinum og besta vinkona hennar, Kristín Hafsteinsdóttir, hefur verið henni innan handar síðustu daga. Með þeim á myndinni er dóttir Kristínar, Lovísa Sól.
Mynd/Hari
Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.