„Ég vil bara vera í eldhúsinu“

Solla Eiríks sendi nýlega frá sér bókina Raw, sem er skrifuð á ensku. Hún hafði ekki hugmynd um að bókaforlagið Phaidon, sem gefur bókina út, væri eitt það flottasta í heimi, en hún lét alveg ómeðvitað ganga á eftir sér í nokkur ár, með að skrifa bókina sem nú er til sölu út um allan heim.

 

„Það var bókaforlagið Phaidon sem bað mig um að gera þessa bók, en ég hafði ekki hugmynd um að það væri eitt flottasta bókaforlag í heimi,“ segir Sólveig Eiríksdóttir, eigandi veitingastaðarins Gló, sem sendi nýlega frá sér matreiðslubókina Raw, sem skrifuð er á ensku. Hildur Ársælsdóttir, dóttir Sólveigar, er meðhöfundur bókarinnar, en þær mæðgur skrifuðu einnig saman bókin Himneskt, og halda úti blogginu Mæðgurnar.is.

Stundum kærulaus

Solla, eins og hún er alltaf kölluð, var lítið að spá hvað það þýddi fyrir hana að landa samningi við áðurnefnt bókaforlag. Hún var bara með hugann við matinn. „Ég er pínu lúði og spái svo lítið í svona. Ég get verið svo kærulaus. Svo er ég auðvitað ofvirk, þannig það þýðir ekkert að setja mig í skrifstofuvinnu. Ég vil bara vera í eldhúsinu,“ útskýrir hún.

Keyptu bækur á íslensku

„Það var alltaf verið að biðja um bók á ensku, þá aðallega erlendu viðskiptavinirnir okkar á Gló. Fólk hefur meira að segja verið að kaupa íslensku bækurnar og nota Google translate. Mér finnst það hrikalega krúttlegt,“ segir Solla og hlær. Hún er mjög ánægð með bókina, og þykir sérlega skemmtilegt að hún sé myndskreytt með fallegum myndum af Íslandi.

„Bókin er svo guðdómlega falleg. Það er sami hönnuður á henni og á Noma-bókunum, en Noma er einn virtasti veitingstaður í heimi. Bækur frá þeim hafa mörg ár í röð hlotið titilinn matreiðslubók ársins. Ég var því allt í einu kominn á einhvern stað sem ég hafði ekki hugmynd um að ég væri að fara á. Ég var bara að hugsa um enska bók fyrir viðskiptavinina mína.“

Gengu á eftir henni

Það eru reyndar nokkur ár síðan Phaidon hafði fyrst samband við Sollu, en þá var svo brjálað að gera hjá henni að hún mátti ekkert vera að standa í bókaútgáfustússi í útlöndum. „Þegar ég fékk svo símtal aftur þá fékk ég að vita að þau hefðu aldrei áður þurft að ganga á eftir neinni manneskju. Þau væru vön að berja af sér fólk sem vildi fá efni útgefið.“

Solla hélt reyndar áfram að vera erfið og bera fyrir sig tímaskort en ákvað að slá til þegar gefið var grænt ljós á að dóttir hennar fengi að vera meðhöfundur. „Hún er næringarfræðingur, algjör snillingur í eldhúsinu og mjög flink að gera texta,“ segir Solla sem er að vonum stolt af dótturinni.

Verður að þróa nýjar uppskriftir

Útgáfusamningurinn hefur heldur betur undið upp á sig, en búið er að þýða bókina á frönsku og gefa hana út um allan heim. Vinir og kunningjar Sollu hafa einmitt verið duglegir við að senda henni snapchat-skilaboð þegar þeir rekast á bókina í hinum ýmsu verslunum víða um heim. En sjálf er hún enn með báða fætur á jörðinni. „Mín viðbrögð við þessu eru bara: „Já, æði!“ og svo fer ég aftur inn í eldhús að skera gulrætur. Fólk er að spyrja hvort ég sé ekki ánægð og finnist þetta ekki merkilegt, sem mér finnst auðvitað. Ég er mjög þakklát, en hausinn á mér getur ekki dvalið við þetta. Hann verður að halda áfram að þróa nýjar uppskriftir,“ segir Solla.

 

26773 - Solla Eiríks

 

SHARE