„Ég vildi að mamma og pabbi spyrðu mig hvað mig langar“

Bréf skrifað til Jólaveinsins í nóvember árið 2015,  frá 11 ára barni

 

Kæri Jólasveinn.

 

Ég vakna á hverjum morgni oftast svoldið þreyttur og illa sofinn eftir nóttina. Samt fer ég snemma að sofa.  Ég veit ekki af hverju. Ég er farinn að naga neglurnar og á erfitt með að einbeita mér. Ég er mjög duglegur í skólanum og fæ mjög góðar einkunnir enda vilja mamma og pabbi að ég verði læknir. Ég legg mikið á mig í skólanum til þess að það gerist.

Ég stunda líka íþróttir eins og þú veist.  Ég æfi fótbolta og handbolta. Ég keppi annað hvort í handbolta eða fótbolta um helgar og er í liðinu.  Stundum keppi ég í báðum íþróttagreinunum sama daginn.  Ég verð mjög oft þreyttur þá.

Mig langar til að verða betri í fótbolta af því að þeir sem eru frægir fótboltamenn eru með svo rosalega há laun og eiga flotta bíla. Ég veit að þú getur ekki gefið mér það. En stundum Jóli, og þú lofar að segja ekki neinum, þá langar mig bara að hætta að æfa og fara að gera eitthvað annað og skemmtilegra.  En mamma og pabbi vilja að ég haldi áfram af því að það er búið að borga æfingagjöldin og ég sé svo góður.  Þau segja líka að að ég geti orðið bestur í heimi. Finnst þér það ekki frábært?   Ég hlakka rosalega til þegar það gerist, að ég verði bestur en ég þarf að vera duglegur og mæta á allar æfingarnar.   En í leyni Jóli,  þá væri ég samt alveg til í að vera í hljómsveit frekar,  eða mála myndir og teikna. Mér finnst það gaman en hef of lítinn tíma. En listamenn fá víst ekki jafn há laun segir pabbi. Stundum vildi ég að mamma og pabbi spyrðu mig hvað mig langar.

En,  að vera atvinnumaður í fótbolta og læknir er örugglega fínt líka.

Núna ætla ég að segja þér hvað mig langar í, í jólagjöf.

 

Venjulegur dagur hjá mér er þannig að ég er í skólanum til að verða klukkan þrjú. Svo kem ég heim og læri heima alla daga, alveg þangað til æfingarnar byrja. Mamma og pabbi og systkinin mín eru ekki komin heim þegar ég fer klukkan hálffimm.  Æfingarnar eru klukkan fimm í fótboltanum fimm sinnum í viku, líka á laugardagsmorgnum því miður.   Handboltinn byrjar klukkan hálfsjö strax eftir fótboltann og er jafnoft í viku.   Ég er oftast kominn heim klukkan hálf níu á kvöldin.  Þá á ég eftir að læra meira og borða.  Litlu systkinin mín eru sofnuð þá en ég næ að kyssa þau á sofandi enni þeirra.   Mér finnst það svo seint…hálf níu.   Ég næ aldrei að borða kvöldmatinn heima með þeim og borða alltaf einn.  Mér finnst það leiðinlegt.

Oft er ég rosa þreyttur á laugardagsmorgnum þegar ég vakna á æfingar og langar að sofa út.  En ég verð að mæta af því að annars verð ég ekki bestur segja mamma og pabbi.  Ég er mjög þreyttur á laugardögum eftir æfingarnar en þá vilja mamma og pabbi gera eitthvað eftir hádegið.   En ég sef yfirleitt þar sem við erum og geispa rosalega mikið allan daginn.  Af hverju er ég svona þreyttur Jóli?  Ég nenni ekki í bæinn eða í heimsóknir eða að hitta vini mina en samt langar mig það.    Ég skil þetta ekki og sofna svo snemma á laugardagskvöldi af því að það er leikur daginn eftir.  Ég fæ aldrei að sofa út og gera ekki neitt. Mig langar að sofa út. Þess vegna hlakka ég alltaf til jólanna. Þá fæ ég að sofa út.

Þegar ég er svo búinn að læra á sunnudeginum um kvöldmatarleytið er eini sameiginlegi fjölskyldumatartíminn.  En ég sofna yfirleitt fram á borðið.  Næ ekki að halda mér vakandi og fer að sofa um hálf áttaleytið svo ég sé ferskur næstu viku sem er alveg eins.

En í næstu viku eru líka fjögur próf og tveir leikir í fótbolta og handbolta. Ég þarf að vera ýkt duglegur.

Mig langar svo að standa mig vel áfram og gera það sem mömmu og pabba langar.   Vill ekki svíkja þau.  Mig langar líka að eyða tíma með vinunum mínum og systkinum mínum, mömmu og pabba.  En ég hef bara enga orku.

Þess vegna ætla ég ekki að biðja um neitt þetta árið og þú getur sparað þér peninginn. Þú getur ekki gefið mér það sem ég vil.

Það sem mig langar í, í jólagjöf er að hitta meira litla bróðir minn og litlu systur mina og mömmu mína og pabba. Og gera eitthvað skemmtilegt með þeim án þess að vera þreyttur.

Af hverju finnst mér ég vera að missa áhugan á íþróttunum og skólanum og vinunum og fjölskyldunni?  Getur þú hjálpað mér í að finna svarið kæri Jólasveinn?

 

Gleðileg jól kæri jólasveinn og takk fyrir að lesa.

 

Jólakveðja.

Ásgeir, Strandgötu 35, Akureyri.

(Ps. Strompurinn er stíflaður)

 

 

 

 

 

 

SHARE