Ein helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi er ofbeldi!

Stækkun Barnahúss hefur ekki enn orðið að veruleika og enn hafa biðlistar lengst ■ Lykilatriði að fjármagna og skipuleggja forvarnir gegn ofbeldi til lengri tíma

 

Ungmenni sem beitt hafa verið kynferðislegu ofbeldi og skipa sérfræðihóp barna hjá UNICEF á Íslandi hittu fjóra ráðherra nýrrar ríkisstjórnar í gær. Markmiðið er að hvetja ráðherrana til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að berjast gegn hvers kyns ofbeldi á börnum hér á landi. Til grundvallar fundinum liggur viðamikil skýrsla UNICEF um ofbeldi gegn börnum á Íslandi.

 

Börnin sem unnu að skýrslunni með UNICEF á Íslandi sóttu öll meðferð í Barnahúsi eftir að upp komst um ofbeldið sem þau voru beitt. Barnahús er eini staðurinn sem sinnir slíkri þjónustu og annar ekki lengur fjöldanum sem þangað leitar. Yfir 60 börn bíða nú könnunarviðtals, skýrslutöku og/eða meðferðar. Það eru helmingi fleiri börn en voru á biðlista Barnahúss þegar skýrsla UNICEF kom út snemma í vor.

 

Barnahús hefur ekki enn fengið stærra húsnæði. Málið hefur tafist í marga mánuði og húsið ekki enn þá verið keypt. Sökum plássleysis er ekki aðstaða í núverandi húsakynnum fyrir fleiri sálfræðinga til að anna aukinni þjónustuþörf. Á meðan bíða börn eftir viðtali og meðferð. Sú bið er þeim skaðleg.

 

„Ekkert barn á að þurfa að líða svona kvalir“

 

Þótt málefni Barnahúss séu enn í ólestri hafa mikilvæg skref verið tekin innan viðeigandi ráðuneyta síðastliðna mánuði. Búið er að festa fjármagn til ýmissa aðgerða til áramóta, styrkja vitundarvakningu um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum, víkka út hlutverk hennar í samræmi við tillögur úr skýrslu UNICEF og ráða verkefnisstjóra.

 

UNICEF á Íslandi fagnar þessum aðgerðum en ítrekar um leið mikilvægi þess að forvarnir gegn ofbeldi séu hugsaðar til lengri tíma og teknar inn í framtíðarstefnumótun stjórnvalda. Ekki er ljóst hvað gerist á nýju ári og sú óvissa er ólíðandi. Brýnt er að framangreindri vitundarvakningu verði haldið áfram og hún fest í sessi, líkt og aðrar ofbeldisforvarnir. UNICEF á Íslandi undirstrikar að ráðherrum nýrrar ríkisstjórnar gefist einstakt tækifæri til að berjast af krafti gegn ofbeldi á börnum.

 

„Stjórnvöld geta virkilega látið til sín taka, komið forvörnum í framtíðarfarveg og dregið þannig úr ofbeldi gegn börnum í samfélaginu,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

 

„Eitt af ungmennunum í sérfræðihópi barna orðaði þetta sem svo að ekkert barn ætti að þurfa að ganga í gegnum þær kvalir sem það hefði gert. Þeir sem á þetta hlýddu táruðust, enda sagði þessi setning í raun meira en allar skýrslur og öll tölfræði. Auðvitað á ekkert barn að þurfa að upplifa ofbeldi og það er á ábyrgð okkar allra að koma í veg fyrir það. Það er líka á ábyrgð stjórnvalda að hafa viðbragðskerfið það sterkt að þegar börn eru beitt ofbeldi sé þeim tafarlaust sinnt. Samfélagið skuldar þessum börnum það,“ segir Stefán.

 

Stefán minnir á þá afstöðu UNICEF á Íslandi sem áður hefur komið skýrt fram að stjórnvöld verði að líta heildrænt á ofbeldi gegn börnum og láta rannsaka eðli þess og umfang reglulega til að þekkja vandann. Hann bendir á að í kjölfarið ættu stjórnvöld að setja sér mælanleg markmið um að draga úr ofbeldinu.

 

Ómetanlegt framlag

 

Hugmyndin um sérfræðihóp barna er byggð á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem lögfestur var hér á landi fyrr á árinu og kveður á um réttindi barna til að tjá sig um málefni er þau varða. Einnig að tekið skuli mark á skoðunum þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska.

 

Síðan skýrsla UNICEF kom út hefur sérfræðihópurinn hitt fjóra ráðherra seinustu ríkisstjórnar auk ýmissa embættismanna til að ræða um ofbeldi gegn börnum á Íslandi. Allir sem hafa hitt hópinn hafa talið framlag hans ómetanlegt í allri umræðu um ofbeldi og rætt um hugrekki barnanna og einstaka sýn þeirra.

 

„Við hjá UNICEF á Íslandi erum afar þakklát fyrir framlag krakkanna. Þau hafa opnað augu fólks og sett hlutina í það samhengi sem það verður að vera í,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Börn sem orðið hafa fyrir ofbeldi eru meira einmana en önnur börn, sýna frekar áhættuhegðun og finnst framtíðin dekkri

Í áðurnefndri skýrslu UNICEF sem fjármála- og efnahagsráðherra, velferðarráðherra, innanríkisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra var kynnt í gær birtist ógnvekjandi mynd af tengslum ofbeldis við andlega vanlíðan barna og áhættuhegðun. Börn sem orðið hafa fyrir heimilisofbeldi, einelti, kynferðislegu ofbeldi eða öðru ofbeldi eru meira einmana en önnur börn, sýna frekar áhættuhegðun, líður verr í skólanum og finnst framtíðin dekkri.

 

UNICEF á Íslandi ítrekar að hér er um grafalvarlegt mál að ræða sem kallar á skjót viðbrögð samfélagsins.

Um skýrslu UNICEF:

 

Í skýrslunni Staða barna á Íslandi 2011 lagðist UNICEF í gerð mælistiku á velferð barna hérlendis. Niðurstaðan var skýr: Ein helsta ógn sem steðjar að börnum á Íslandi er ofbeldi. UNICEF ákvað í framhaldinu að skoða sérstaklega forvarnir, umfang ofbeldis og áhrif þess á börn á Íslandi. Sú vinna birtist í skýrslunni Réttindi barna á Íslandi: Ofbeldi og forvarnir sem vísað er í hér að ofan og kom út í mars á þessu ári. Í henni er að finna tölfræði um ofbeldi gegn börnum hér á landi og ítarlega tillögur um leiðir til að minnka ofbeldi gegn börnum.

 

Við vinnslu verkefnisins kallaði UNICEF saman stóran hóp fagaðila sem vinna með eða í þágu barna, auk þess sem stofnaður var sérfræðihópur barna. Eftirfarandi fagaðilar tóku þátt:

 

Barnaheill, Barnahús, Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, barnaverndarnefnd Reykjavíkur, Barnaverndarstofa, Blátt áfram, félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, Fjölskyldumiðstöð Rauða krossins, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Heimili og skóli, kynferðisbrotadeild lögreglunnar, Landlæknisembættið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Neyðarmóttaka vegna þolenda kynferðisbrota, Olweusarverkefnið, ríkissaksóknari, Samtök um kvennaathvarf, Stígamót,  umboðsmaður barna, velferðarráðuneytið, verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti, Þróunarstofa heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

SHARE