Einelti & hræsni!

Alveg er ég komin með meira en nóg af sóðasendingum fólks á fésbók þegar það ræðst á meðborgana með óhróðri og ótugt. Í næstu færslu er svo oftar en ekki póstur frá sama fólkinum og fjallar sá um hvað einelti sé afskaplega ljótt og  hræðilegt. Í minni orðabók er aðeins eitt orð yfir  svona hegðun – HRÆSNI !

Á undanförnum árum  hefur verið mikil og góð umræða um einelti. Þegar fésbókin kom til sögunnar skapaðist alveg nýtt tækifæri til að vekja athygli á ýmsu,  þar á meðal einelti.

Ég hef lesið á fésbók margar sögur fólks af einelti sem jafnvel ung börn þess urðu fyrir í skólanum. Við ættum öll að finna  til með börnunum sem lenda í þessu og gerast virkir andstæðingar eineltis.

Það er ekki trúverðugt að lýsa yfir vanþóknun á einelti og taka svo sjálfur þátt í einelti og persónulegum árásum á fólk í  fréttamiðlum og samskiptaskúmaskotum.

Það er dapurlegt  þegar börn stunda  einelti. Einelti er eins og tvíhöfða þursi. Það særir og eyðileggur þann sem fyrir því verður og reynslan sýnir að sá sem stundar einelti á svo til undantekningarlaust líka í miklum vanda heima og heiman. Þannig er einelti eins og eyðandi eldur.

Sem betur fer vaxa flest börn sem stunda  einelti í æsku upp úr því og iðrast þess með auknum þroska á  fullorðinsárum að hafa hagað sér svona í æsku.

Við fullorðna fólkið  höfum ENGA afsökun fyrir því að stunda einelti. Við skiljum afleiðingar eineltis fullkomlega og vitum nákvæmlega hvað það gerir fólki. Við vitum líka mætavel að fullorðnu fólki líður illa- rétt eins og börnunum- ef það er lagt í einelti með einum eða öðrum hætti. Og ekki virðist gerendurna vanta hugmyndaflugið.  Fólk virðist réttlæta framferðið  fyrir sér með því að segja sem svo að það sé í lagi að leggja suma í einelti en ekki aðra.

Því miður eru dapurleg dæmi um það að fólk nær ekki nægilegum þroska til að láta af eineltishegðunni. Það eru jafnvel dæmi um harðvítugt einelti inni á dvalarheimilum aldraðra. Stundum er veruleikinn sár og erfiður.  Kannski rættust  draumarnir ekki, fólk varð aldrei sátt við hlutskipti sitt í lífinu og sér ofsjónum yfir velgengi annarra.

Kannski hafði fókið bara aldrei heyrt heilræðið: Count your blessings!  Ef fók gerir það í alvöru breytist útsýnið heldur betur. Ég lofa ykkur því!

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here