ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is
Ragna Salóme Þórisdóttir er flott, ung stúlka sem varð fyrir einelti í grunnskólanum sínum. Hún fékk ekki þann stuðning sem hún þurfti og segir hér frá reynslu sinni:
Næsta mánudag er fyrsti skóladagurinn minn eftir jólafríið. Skólinn byrjaði reyndar í síðustu viku en við fjölskyldan skelltum okkur suður. Ég kvíði alveg svakalega fyrir mánudeginum, ég vildi ekki fara heim fimmtudaginn og var ekki sátt þegar við fórum af stað.
Ég fór ekki í skólann á föstudaginn enda komum við ekki heim fyrr en um nóttina. En afhverju er ég svona stressuð fyrir mánudeginum? Jú ég er að fara í tíma með manneskju sem lagði mig í einelti allan 8. bekk. Ég veit ekkert hvort sú manneskja man eftir því hvernig hún kom fram við mig eða hvað hún sagði. En ég man það, allt.
Þegar ég fór grátandi úr íþróttatíma og sagði við mömmu að ég ætlaði aldrei að fara í þennan skóla aftur. Eftir 8. bekk hef ég alltaf verið að passa sjálfa mig, ekki tala við þessa eða hina og ég hélt áfram að skrópa í sundi og íþróttum.
Svo fór ég að verða kvíðin yfir öllu, ef það sagði einhver eitthvað varð ég þunglynd og ég var viðkvæm fyrir öllu og er ennþá í dag.
Þegar ég sagði frá þessu sagði skólastjórinn mér að ég ætti ekki að láta þetta pirra mig af því ég hafði sigrast á öðrum hlutum, ég átti að hunsa þetta, ekki svara fyrir mig og bara láta þessa manneskju vera. Ég hélt þá að þetta væri allt mér að kenna, að ég væri eitthvað skrýtin og ekki venjuleg. Þegar ég fór grátandi úr íþróttatíma og hrindi í mömmu og sagði að ég ætlaði aldrei í þennan skóla aftur, fékk mamma nóg og fór með mig til skólastjórans, en hann gerði mjög lítið í þessu, að var alltaf ég ssem þurfti að fara til skólastjórans og foreldrar mínir sem komu, ekki þeir sem lögðu mig í einelti eða foreldrar þeirra. Manneskjan kom einstaka sinnum á meðan mér fannst ég alltaf vera inni hjá skólastjóranum, eins og það væri ég sem væri að gera eitthvað rangt.
En líka í 8. bekk fór mín „besta vinkona“ að hætta tala við mig, hunsaði mig og kom með ljót komment af því ég var ekki nógu vinsæl. Núna er ég í 10.bekk og þetta var að koma allt upp aftur, enda ég komin með nóg og fór að segja frá þessu og við vorum alltaf inni hjá kennara.
Þetta var ekki flokkað sem einelti heldur unglingadrama, sem ég átti bara að fyrirgefa. Og ég, auðvitað sagðist fyrirgefa henni, en í dag sé ég eftir því. Ég var ekki tilbúin að fyrirgefa og er ekki enn í dag. Enn í dag á ég erfitt með að vakna á morgnana og fara í skólann og sjá alla, og láta sem ekkert sé. Ég á erfitt með að treysta, en þegar ég treysti einhverjum, þá treysti ég þeim fyrir öllu.
Ég á mér þann draum að geta vaknað í skólann og vilja fara, fyrirgefa og vera glöð með sjálfa mig. En ég vil líka að fólk hugsi áður en það segir hluti. Ég er þakklát fyrir bestu mömmu og pabba í heiminum sem hjálpa mér í gegnum daginn, bestu vinina og ekki síst alla englana sem vaka yfir mér.