…. þegar ég verð fyrir „árás“ frá kóngulóm. Ég er alin upp á Ströndum þar sem eru bara þessar venjulegu móakóngulær, með lítinn búk og langar mjóar lappir. Þær eru viðbjóður og ég hef aldrei höndlað kóngulær en þær eru lítið sjáanlegar í sveitinni. Þær eru úti í móa, á stórum steinum og svona en eru ekkert í því að gera stóra vefi og éta flugur. Ég hef engan áhuga á að koma nálægt þeim en ef ég yrði að koma einni svona út myndi ég alveg geta það, held ég.
Þegar ég flutti svo í bæinn fór ég að sjá þessar stóru sem eru hérna. Þær virðast geta stækkað endalaust, vefa stóra vefi sem flugurnar flækjast í, þær sprauta í þær lömunareitri og vefja þeim í kúlu og ÉTA þær síðan. Þetta er svo mikill viðbjóður að ég er komin með gæsahúð, niður á kálfa, bara við að skrifa þessi orð.
Ég er haldin óraunhæfum ótta. Ég veit að þær eru ekki að fara að ráðast á mig eða drepa mig í skjóli nætur. Ég VEIT ÞAÐ en það hjálpar mér ekkert að vita þetta þegar þær eru komnar inn til mín.
Ég vaknaði á þriðjudagsmorgun, stóð upp og dró upp gardínuna heima hjá mér. BEINT fyrir framan mig var risastór (á mínum mælikvarða) kónguló sem var búin að vefa í gluggann, þar sem hægt er að opna hann. Ég öskraði upp og sagði mjög ljóta hluti sem ég ætla ekki að hafa eftir hér. Ég var ein heima, með hundinn minn, sem hrökk í kút við lætin í mér og horfði á mig spurnaraugum. Ég horfði á ferlíkið og hugsaði með mér: „Ok Kidda, slakaðu á, hún er ekki hérna inni! Lokaðu glugganum og hagaðu þér eins og fullorðin manneskja.“ Ég fikraði mig aðeins nær og horfði á skrímslið og sá þá að hún var alls ekkert fyrir utan gluggann heldur inni. Hún var INNI í svefnherberginu mínu, búin að vefa þennan fína vef svo ég hefði ekki með góðu móti getað lokað glugganum án þess að fara með hendina í vefinn hennar og væntanlega fá hana ofan á handabakið mitt.
Almáttugur minn hvað ég fríkaði út. Ég verð bara að viðurkenna það. Ég missi alla sjálfsvirðingu í svona aðstæðum og henti mér því í sloppinn minn og fór út á stigaganginn. Án þess að hugsa það til enda fór ég að banka hjá nágrönnunum sem ég kannast svona mest við í blokkinni. Ótrúlega eðlilegt allt saman. Ég var enn á náttbuxunum, með ógreitt hárið og stírurnar í augunum, ALVEG AÐ FARA AÐ GRENJA!
Ég þakka guði fyrir að enginn svaraði þessu banki mínu.
Ég fór aftur upp og hugsaði næsta skref í þessu máli.
Ég tók upp símann og hringdi í vinkonu mína. Hún hefur nokkrum sinnum bjargað mér og reyndi að róa mig og segja mér að þetta væri allt í lagi. Ég sótti hársprey með hana í símanum og fór með inn í herbergi. Ég lét vaða með brúsanum á flykkið og viti menn, henni fannst það bara fínt! Hún sprikklaði og bað svo bara um meira (smá ýkjur en samt ekki). Hún kippti sér ekkert upp við þetta en geðshræringin hjá mér jókst bara, ef eitthvað var, við þessar æfingar hennar. Hún dó allavega ekki og beið bara eftir næsta útspili mínu. Ég fór inn á bað með símann á eyranu og náði í klósettpappír, vöðlaði honum saman, stóð 3 metra frá glugganum og kastaði í átt að þessari druslu sem var búin að gera sig heimakomna hjá mér. Ég hitti ekki.
Til þess að gera langa sögu stutta, þá ákvað ég að yfirgefa kóngulóna bara og koma mér í vinnuna. Hún var nú þegar búin að eyðileggja þennan, annars yndislega morgun, með nærveru sinni einni saman. Vinkona mín var búin að lofa mér að koma í hádeginu og fjarlægja þennan gest af heimili mínu, en ég gat ekki varist þeirri hugsun að kóngulóin gæti verið horfin þá. HVAÐ ÞÁ? Þá myndi ég þurfa að skipta um herbergi og kveikja í öllu sem inni í herberginu var. Ég ætlaði EKKI að sofa aðra nótt með þessu skrímsli.
Ég var komin út á stigaganginn þegar ég mætti einum frábærum nágranna mínum sem ég spurði hvort að myndi vilja bjarga mér. Hann kom með mér upp, kom með mér í svefnherbergið þar sem allt var í klessu eftir ævintýri morgunsins, brjóstahaldari á borðinu, sængurnar í vöðli á rúminu. Ég hefði nú viljað aðeins laga til ef ég hefði fattað þetta. En jæja, ég var með hálfgerðu óráði.
Maðurinn tók kóngulóna og vefinn með bréfi og var svo rólegur að ég gat ekki annað en dáðst að honum. Svona gerir venjulegt fólk þetta bara. Um leið og vágesturinn var farinn fann ég fyrir smá skömm. Mér fannst ég ekkert rosalega svöl núna. En ég var ofsalega þakklát manninum! Takk takk takk elsku nágranni!
Það er eitt að vera illa við eitthvað og annað að vera með króníska fælni. Það hafa margir hlegið og brosað að þessu atviki þegar ég hef sagt þeim frá þessu en fyrir mér er þetta ekkert gamanmál. Ég hef haldið á slöngum, maríubjöllum, sniglum, ánaðmöðkum og get drepið fiska þegar ég fer að veiða. Þetta er ekki eins og þetta sé pjatt eða neitt þannig. Ég bara höndla þetta ekki!
Ég ætla að setja hér að lokum myndband af þjáningarsystur minni. Það má sjá að hún er ekki að halda ró sinni þegar kóngulær eru annars vegar og ég verð að viðurkenna að þessi viðbrögð minna mig á sjálfa mig á þriðjudagsmorgun.
https://www.youtube.com/watch?v=9WXllPFT6mw&ps=docs
Hér eru svo nokkrir punktar um þessa fælni sem ég fann á wikipedia:
Köngulóafælni (lat. arachnophobia, komið af grísku orðunum αραχνη (arakhnē), „kónguló“ og φόβος (phóbos), „hræðsla“) er ofsahræðsla manns við kóngulær, og er ein af algengustu fælniviðbrögðum mannsins. Köngulóafælni er ein tegund dýrafælni, sem aftur heyrir undir afmarkaða fælni. Óvíst er hvernig köngulóafælni sest að í fólki, en talið er víst að hún þróist í sálarlífi þolanda snemma á barnsaldri eins og flestar tegundir fælni.
Til eru margar aðferðir til að losa fólk við köngulóafælni, en helsta og áhrifaríkasta aðferðin er atferlismeðferð. Einnig er stundum notast við hugræna meðferð og lyfjameðferð.
Svo virðist sem kóngulóafælni (og fælni yfir höfuð) auki hæfileika okkar til þess að greina hættuleg dýr í umhverfinu, eða það sem hugurinn nemur sem hættur. Sænsk rannsókn leiddi t.d. í ljós að fólk sem fælist kóngulær virðist vera fljótara að greina þær í umhverfinu en annað fólk. Sama gilti um fólk sem hræðist snáka. [1]
—————
Fylgstu með!
Kidda á Instagram
Hún.is á Instagram
Kidda á Snapchat: kiddasvarf
Hún.is á Snapchat: hun_snappar
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.