Neytendaráð Noregs lýsir yfir þungum áhyggjum vegna nýyfirstaðinnar rannsóknar, en gerðar voru stikkprufur á barnaklæðnaði sem keðjurnar H & M, Cubus og KappAhl selja og leiddu niðurstöður í ljós að hormónabreytandi efni fundust í efnisþráðum framleiðslunnar.
“Það veldur okkur talsverðum áhyggjum að þriðja hver barnaflík sem við tókum rannsóknar innihélt skaðleg innihaldsefni; eiturefni sem ættu aldrei að greinast í barnaklæðum” sagði Randi Flesland, formaður Neytendaráðs í samtali við norska miðilinn Dagens Næringsliv.
Eiturefnin DBP og DEHP í efnisþráðum barnaklæða
Rannsóknir leiddu meðal annars í ljós að efnin DBP og DEHP fundust í stuttermabol frá Cubus, en innihaldsefnin eru stranglega bönnuð í leikfangaframleiðslu og ungbarnavörum þar sem þau geta haft neikvæð áhrif á frjósemi kvenna og valdið fósturskaða á meðgöngu. Einnig geta sömu innihaldsefni valdið hormónatruflunum hjá börnum. Umrædd innihaldsefni eru á bannlista Evrópusambandsins vegna skaðlegra áhrifa á heilsu fólks og er því óskiljanlegt með öllu því efnin greinast í framleiðslu fatarisanna.
Niðurstöður gríðarleg vonbrigði fyrir neytendur
Randi segir niðurstöðurnar valda sárum vonbrigðum, þar sem börn og unglingar séu næmari fyrir hormónabreytum og skaðlegum innihaldsefnum, en hann hefur þegar krafist frekari rannsóknar á innihaldsefnum í barnaklæðum og óskar nú eftir stuðningi norskra yfirvalda og fyrrgreindra framleiðenda.
“Það er hreint út sagt óþolandi að neytendur skuli þurfa að bera þennan kross; að hætta á skaðleg áhrif á heilsu vegna slælegra öryggiskrafna framleiðanda” segir hann jafnframt.
Cubus fullvissar neytendur um að rannsókn verði hafin
Stjórnendur Cubus hafa þegar lofað frekari rannsóknum á innihaldsefnum, en Julie Brageli, markaðsstjóri keðjunnar sagðist í samtali við Dagens Næringsliv að hart yrði tekið á málum. “Þeir birgjar sem framleiða fyrir Cubus skuldbinda sig til að fylgja kröfum fyrirtækisins um notkun innihaldsefna til hins ítrasta og undirgangast gæðaprófanir sem eiga að ganga úr skugga um að framleiðslan innihaldi engin skaðleg efni.”
H & M kennir mengunarslysi um rannsóknarniðurstöður
Eiturefni fundust í nokkrum flíkum frá H & M; þannig innihéldu gallabuxur frá fatarisanum eiturefnið nonylfenoletoxilat (NPEO) en þau svör fengust frá keðjunni að hið skaðlega innihaldsefni hlyti að hafa borist í flíkina gegnum snertismit eða mengunarslys, en að slík innihaldsefni væru aldrei notuð af ásetningi í framleiðslu fatnaðar á vegum keðjunnar.
Skýrt kveður á um bann á notkun NPEO í reglugerð H & M um takmörkun innihaldsefna frá árinu 1999 en takmörkunin kveður á um 100 mg / kg samkvæmt því sem fjölmiðlafulltrúi keðjunnar, Kristin Fjeld gaf aðspurð upp í viðtali við norska miðilinn.
Þessar sláandi niðurstöður eru afrakstur vinnubúða sem bera nafnið “Hvernig á að tryggja neytendum eiturefnalausan hversdag” sem skipulagðar voru og settar upp af Neytendaráði Noregs og Danmerkur í samstarfi við Norðurlandaráð þann 3 júní sl.
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.