Ekkert óheilbrigt við það sem ég geri

Gerður Huld, eigandi Blush.is, verður stundum fyrir fordómum vegna þess að hún selur kynlífstæki, en meðbyrinn er þó meiri. Hún hafði aldrei átt kynlífstæki þegar hún stofnaði fyrirtækið fyrir fimm árum, þá aðeins 21 árs.

 

„Ég hef alltaf séð sjálfa mig fyrir mér í eigin rekstri, en ég gæti alveg verið að selja blómavasa eins og kynlífstæki. Fyrir mér er þetta bara rekstur,“ segir Gerður Huld Arinbjarnardóttir, eigandi verslunarinnar Blush.is sem selur hjálpartæki ástarlífsins og aðrar unaðsvörur.

Starfsfólkið í stofunni heima

Fyrirtækið stofnaði hún fyrir fimm árum, þá aðeins 21 árs gömul. Í fyrstu var aðeins um að ræða netverslun og heimakynningar, en í apríl á þessu ári ákvað Gerður að færa út kvíarnar og opna verslun í Hamraborginni í Kópavogi, þar sem við spjöllum saman innan um kynlífstæki, unaðsolíur, kerti og ýmislegt annað forvitnilegt.

„Reksturinn var orðinn svo umfangsmikill að ég gat ekki lengur haft þetta í stofunni heima. Starfsfólkið var þá alltaf að koma og vinna heima hjá mér og ég átti í raun ekkert heimili, bara vinnustað. Það var orðið mjög þreytandi.“

Hafði aldrei átt kynlífstæki

Gerður segir mikið hafa breyst á síðustu árum, bæði hvað varðar áhuga á kynlífstækjum og kynlífshegðun. Þá sé fólk alltaf að verða opnara í umræðunni um kynlíf. Sjálf hefur hún verið dugleg að tala opinskátt um kynlíf og kynlífstæki þrátt fyrir að hafa fundist það óþægilegt í fyrstu.

„Ég held að starfið sem ég hef unnið, í að opna umræðuna, hafi haft mikil áhrif. Og líka það sem Sigga Dögg kynfræðingur hefur verið að gera. Það hefur orðið mikil breyting á umræðunni en það þarf alltaf einhver að vera brautryðjandi og tala um það sem öðrum finnst óþægilegt. Þetta var alveg jafn óþægilegt fyrir mig þegar ég var að byrja. Ég hafði aldrei átt kynlífstæki sjálf fyrr en stofnaði fyrirtækið mitt, þó ég hafi kannski prófað eitthvað. Þetta var alls ekki áhugamálið mitt.“

Kynntust á kynlífstækjaráðstefnu

Hún hefur því sjálf lært mikið um kynlífstæki og kynlífshegðun frá því hún hóf reksturinn. „Ég veit núna til dæmis hvað það er mikilvægt að þekkja sjálfan sig áður en maður fer að stunda kynlíf með öðrum. Ég vildi svo mikið óska þess að einhver hefði sagt við mig þegar ég var unglingur: „Heyrðu vinan, viltu byrja á því að stunda sjálfsfróun áður en þú ferð að ríða þessum strák.“ Mér finnst ég hafa þroskast af því að tala um kynlíf og heyra sögur frá öðrum,“ segir Gerður sem veit það líka núna að karlar geta alveg eins haft litla kynhvöt eins og konur.

Gerður er búin að eiga hollenskan kærasta í þrjú ár, en hann á einmitt líka kynlífstækjaverslun svo þau lifa og hrærast í sama bransanum. „Upprunalega var hann heildsalinn minn en svo hittumst við á kynlífstækjaráðstefnu og fórum að vera saman. Ég er mjög ánægð með þá ákvörðun að hafa slegið til. Við búum bæði á Íslandi og í Hollandi og flökkum á milli. Sem gengur upp af því við bæði getum unnið mikið í gegnum netið,“ útskýrir hún.

Þarf ekki að vera í bdsm-samtökum

Fólk gerir oft ráð fyrir því að Gerður sé öllum hnútum kunnug í kynlífi og geri ekkert annað en að stunda kynlíf með hinum ýmsu hjálpartækjum, sérstaklega vegna þess að maki hennar er í sama bransa.

„Það er mjög algengt að fólk haldi að heimilið okkar sé undirlagt af hjálpartækjum, rólum og svona. En það er svo alls ekki þannig. Ég á alveg jafn leiðinleg móment í kynlífi og allar aðrar konur og það sama á við um hann. Við erum bara í venjulegu sambandi og ég er ekki alltaf að nota kynlífstæki. Að sjálfsögðu þekkjum við þessi tæki kannski betur en aðrir og höfum prófað flest allt. Maður þarf alls ekki að vera meðlimur í bdsm-samtökum til að geta selt kynlífstæki. Ég get alveg sett mig í spor þeirra sem vilja kaupa sér svipur, endaþarmstæki eða aðra hluti sem kannski eru grófari en hefðbundin tæki, með því að kynna mér hlutina. Ég held að kynlíf sé eitthvað sem geti sameinað okkur öll. Við þráum öll að vera snert, vera mikilvæg og finna að einhvern langi í okkur,“ segir hún sposk á svip.

27516_Gerdur_Huld_Arinbjarnardottir-1

Mamma selur allskonar vörur

Gerður var alin upp í Breiðholti til ellefu ára aldurs en þá flutti hún í Kópavoginn, þar sem hún býr enn. Nú í sama húsi og faðir hennar – á neðri hæðinni. „Ég er mjög mikil fjölskyldumanneskja og er mikið með mömmu og pabba,“ segir hún og brosir. Þá á Gerður sex ára son sem býr hjá henni aðra hverja viku. „Hann er einmitt í bekk með dóttur eiganda verslunarinnar Tantra. Það eru held ég þrjár kynlífstækjaverslanir á Íslandi og það er því ótrúlega skemmtileg tilviljun að börn eigenda tveggja þeirra séu saman í bekk. Sonur minn veit auðvitað ekki að mamma hans selur kynlífstæki, hann veit bara að ég á fyrirtæki sem heitir Blush.is sem selur allskonar vörur.“

Dóttir kærasta Gerðar, og jafnaldra sonar hennar, veit hins vegar að pabbi hennar selur kynlífstæki. „Hún var forvitnari en sonur minn og það var tekin ákvörðun um að segja henni það. En það þarf ekkert að útskýra þetta í smáatriðum. Þetta eru einfaldlega leikföng fyrir fullorðna. Það þarf ekki að segja meira. Annars held ég að hann sé bara heppinn að alast upp í svona opnu umhverfi, þar sem er jákvætt umtal um kynlíf. Það er ekkert óheilbrigt eða slæmt við það sem ég er að gera.“

Pabbi lánaði peninga

Gerður og vinkona hennar, Rakel Ósk Orradóttir, fengu hugmyndina að stofnun Blush.is þegar þær voru báðar í fæðingarorlofi, en þær kynntust í mömmuhópi á meðgöngunni. Rakel fór reyndar út úr fyrirtækinu eftir fyrsta árið, en þær eru ennþá bestu vinkonur. „Ég vissi ekkert hvað ég var að fara að gera og ég held að það sé ástæðan fyrir því að þetta gekk upp. Ég hafði ekkert að óttast og vissi ekkert hvað gæti gerst. Við áttum auðvitað enga peninga þannig ég fór til pabba og bað um lán til að stofna fyrirtæki. Þegar ég sagði honum hvernig fyrirtæki, þá sagði hann margt vera heimskulegra en það, enda stunduðu allir í heiminum kynlíf,“ segir Gerður sem er þakklát fyrir stuðning foreldra sinna og annarra í kringum sig.

„Þrátt fyrir að reksturinn hafi alltaf gengið þokkalega var þetta ekki auðvelt fyrstu þrjú árin. Ég var alltaf að vinna aukavinnu með og botnaði mig algjörlega í skuldum bara til að koma þessu af stað. Svo allt í einu kemst maður yfir ákveðinn hjalla. Þá fer allt að ganga betur og tilfinningin verður svo góð. Það er talað um að það taki fyrirtæki tvö til þrjú ár að fara að skila hagnaði og það var þannig í mínu tilfelli. Svo er það fyrst núna sem ég orðin nokkurn veginn áhyggjulaus eða veit minnsta kosti að þetta gengur.“

Verður stundum fyrir fordómum

Aðspurð segist Gerður stundum finna fyrir fordómum vegna þess að hún er í þessum ákveðna rekstri, en ekki einhverjum öðrum. „Ég er stundum spurð að því hvernig ég hafi endað í þessu, eins og þetta sé einhver endastöð. En það er alls ekki þannig. Þetta var upphafið og hefur gengið svona líka vel. Það er alls enginn heimsendir að selja kynlífstæki. En það er aðallega eldra fólk sem lætur svona. Ég hef annars fundið fyrir miklum meðbyr, sérstaklega eftir að ég fór að opna umræðuna meira og stofnaði snapchat aðgang fyrir Blush.is.“

Gerði dreymir um að fara með fyrirtækið á erlendan markað og er hún nú að opna nýjan snapchat aðgang á ensku sem er fyrsta skrefið að því markmiði. „Minn draumur er að fá að fræða fólk og opna umræðuna meira. Mig langar að vera frumkvöðull í því að opna umræðuna gagnvart kynlífi. Gera það smekklega og án þess að vera dónaleg. Ég vil vera pían sem er þekkt fyrir það. Að fólk bendi á mig og segi að ég hafi hjálpað því að tala um kynlíf. Mig langar að komast á þann stað að ég geti verið með fyrirlestra og frætt fólk.“

Mynd/Rut

 

Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE