Ekki tala við mig, ég er svöng!

Við vitum það öll að það er nauðsynlegt að borða, ekki bara líkamlega því fyrir mig er það sálarlega mjög nauðsynlegt. Ég rakst á þessa mynd á netinu og finnst þetta lýsa ástandinu á mér mjög vel þegar ég verð svöng.

 

Þegar ég verð svöng er voðinn vís. Ég missi fljótt og örugglega kímnigáfuna og í kjölfarið af því missi ég málið líka. Ég verð máttlaus og alveg einstaklega alvörugefin. Þegar svo er komið er eins gott að enginn standi í vegi fyrir mér þegar ég er að fara að fá mér að borða því þá getur þetta hungur auðveldlega breyst í reiði. Ég hef meira segja heyrt að það sjáist á andlitinu á mér ef ég verð svöng, það komi ákveðinn neisti í augun á mér, veit ekki alveg með það.

 

Ég veit ekki hvort þetta „vandamál“ sé kynbundið því að tvær bestu vinkonur mínar eru nákvæmlega eins og ég með þetta, en ég hef ekki enn kynnst strák sem er svona.

 

Það sem mér hefur fundist best til þess að sporna gegn þessu er að eiga alltaf eitthvað smá til að narta í heima og í bílnum til að seðja sárasta hungrið og komast ekki í „hungurreiðina“.

 

Pistill af blogginu sem ég var með.

SHARE