Björg Magnúsdóttir er fréttamaður á RÚV og var hún að gefa út skvísubókina „Ekki þessi týpa“ sem fjallar um djammið í Reykjavík, eins og það er. Bókin er í grófum dráttum um ungar konur í Reykjavík sem eru með fullt af skoðunum og allar dálítið klikkaðar, stefnumótamenninguna, brasilískt vax, brodda á karlmannsbringu, óþolandi tengdamömmu, kynjakvóta og skemmtistaðasleiki. Það sem er svo skemmtilegt við þessa bók er að flest allt sem gerist í bókinni hefur gerst á Íslandi síðustu misseri.
Björg er í Yfirheyrslunni í dag:
Fullt nafn: Björg Magnúsdóttir
Aldur: 28 ára
Hjúskaparstaða: einhleyp
Atvinna: Fréttamaður á RÚV
Hver var fyrsta atvinna þín? Á kassanum í bestu matvöruverslun landsins, Fjarðarkaupum. Þaðan lá leiðin í bragðarefsútbúning á Snælandi – var alveg fræg fyrir að gera geggjaða bragðarefi – og svo á Domino’s þar sem ég fékk stundum að smyrja brauðstangir upp úr löðrandi olíu.
Mannstu eftir einhverju ákveðnu tískuslysi frá unglingsárunum? Um tíma stefndi í að Buffaló-skórnir sem ég gekk mikið í, á árum áður stefndu í eitt allsherjar tískuslys. Sýnist þeir hins vegar vera með geggjað kombakk núna. En auðvitað átti ég mína spretti í arfaslökum klæðnaði sem ég hef sem betur fer grafið í fortíðinni, klæðnaðinn og minningarnar um hann sem sagt.
Áttu leyndarmál sem mun fylgja þér til grafar? Já. Í fleirtölu.
Hefurðu farið hundóánægð/ur úr klippingu og sagt ekki neitt við klipparann? Já, fyrir löngu síðan. Sem betur fer er ég núna komin með alveg helnettan klippara sem les hugsanir mínar.
Kíkirðu í baðskápana hjá fólki sem þú ert í heimsókn hjá? Alltaf. Og er ekki endilega stolt af því en get því miður ekki hamið mig. Innihald baðskápa segir nefnilega svo ógnarmargt um fólk sem ég verð að vita.
Vandræðalegasta atvik sem þú hefur lent í? Það var þegar ég spurði konu hvenær hún ætti eiginlega að eiga. Hún sagði á móti: ég er ekki ólétt. Ái.
Vefsíðan sem þú skoðar oftast? Facebook, Gmail og íslenskar fréttasíður.
Seinasta sms sem þú fékkst? Let me rephrase: Ertu laus á sunnudagskvöldið?
Hundur eða köttur? Hundur. Langar hryllilega í Siberian Husky.
Ertu ástfangin/n? Nei.
Hefurðu brotið lög? Já, og komist upp með það. Vil helst ekki greina frá því opinberlega hvaða lög þetta voru.
Hefurðu grátið í brúðkaupi? Nei. Enda eiga allir bestu vinir mínir eftir að gifta sig. Reikna með að þurfa stærri gerðina af Kleenex fyrir þá stórviðburði framtíðar.
Hefurðu stolið einhverju? Nei. Ég er heiðarleg og löghlýðin.
Ef þú gætir breytt einu úr fortíðinni hvað væri það? Úff, það er allt of margt í heimssögunni sem að mínu mati hefði verið betur gert öðruvísi. Treysti mér alls ekki til að draga eitt atriði út.
Hvernig sérðu þig fyrir þér þegar þú ert komin á eftirlaun? Í hvítmáluðu hengirúmi fyrir utan litla húsið mitt í einhverju af suðurríkjum Bandaríkjanna. Það er nauðsynlegt að húsið sé allt hvítt, að innan sem utan, og sé staðsett í miðjunni á risastórum sólblómaakri. Ég er að skjóta á að þetta sé að gerast eftir 60 ár.
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.