Ekki tilkynna dánarfregnir á Facebook!

Ingibjörg Rósa skrifar þennan pistil og birti á Facebook hjá sér. Þetta er eitthvað sem allir ættu að lesa.

Í dag eru fimm mánuðir síðan systir mín dó.

 

Löngu fyrir það, og síðan þá, hef ég oft íhugað hvernig notendur samfélagsmiðla flytja andlátsfregnir. Alltof oft hef ég heyrt dæmi um að fólk sem á betra skilið, frétti af andláti úr óvæntri átt, á samfélagsmiðlum. Facebook, Twitter og bloggsíður eru nú þeir helstu miðlar þar sem andlátsfregnir spyrjast út, löngu áður en formleg tilkynning birtist í blöðum eða heyrist í útvarpi. Þannig er einfaldlega sá veruleiki sem við lifum við í dag, og verður áfram, og einmitt þess vegna ættum við að temja okkur tillitssemi og nærgætni þegar við fréttum af andláti.

 

Þegar systir mín lá banaleguna notuðum við fjölskyldan Facebook til að leyfa vinum og ættingjum að fylgjast með framvindu mála. Það var þægilegt fyrirkomulag og hlífði okkur sennilega við fjölmörgum símtölum þar sem við hefðum sagt sömu, erfiðu fréttirnar aftur og aftur. Þannig gátum við líka undirbúið vini systur minnar, marga hverja sem við þekktum ekki neitt, fyrir það sem koma skyldi og af eins mikilli nærgætni og hægt var við þessar aðstæður. Okkur þótti líka vænt um að fá kveðjur frá fólki og lesa falleg skilaboð til hennar.

 

Þegar ljóst var að hún ætti innan við sólarhring ólifaðan ákváðum við að loka síðunni hennar tímabundið þar til við þyrftum að tilkynna andlátið. Okkur fannst að það myndi senda þau skilaboð að brátt drægi til tíðinda en aðallega vildum við koma í veg fyrir að þegar andlátsfregnin færi að spyrjast út, myndi einhver óvarkár skrifa eitthvað á síðuna hennar eða tengja nafnið hennar við stöðuuppfærslu þar sem fram kæmi að hún væri látin, áður en við værum búin að láta alla vita sem þyrfti.

 

Hún lést snemma að nóttu, á æskuheimili okkar. Við hringdum örfá símtöl þá en byrjuðum svo að hringja í aðra ættingja og vini um morguninn og um hádegisbil fór kistulagningin fram. Að henni lokinni fengum við ábendingar um að fólk væri byrjað að tjá sorg sína á Facebook, en gat þó ekki tengt síðuna hennar, sem betur fer. Við sáum því fram á kapphlaup við Facebook því við höfðum enn ekki náð sambandi við einn mann. Og okkur fannst að hann ætti fullan rétt á því að heyra það frá okkur, en ekki lesa það á Facebook, að fyrrverandi sambýliskona hans væri látin.

 

Bróðir minn náði sem betur fer sambandi við hann stuttu síðar og þá opnuðum við Facebook síðu systur minnar aftur, til að tilkynna andlát hennar á eins smekklegan máta og okkur þótti unnt – með fallegri mynd af henni þar sem fæðingardagur og andlátsdagur komu fram.

 

Okkur tókst sem sagt að snúa á Facebook samfélagið í nokkrar klukkustundir, næstum hálfan sólarhring, en það var samt tæpt.

 

Það eru kannski ekki allir jafnfyrirhyggjusamir og við, eða fá ekki ráðrúm til að undirbúa sig eða hafa jafnvel ekki kunnáttu eða aðgang að þessum miðlum til að reyna að stjórna því hvernig og hvenær andlátsfregnir af ástvinum þeirra berast út.

 

Ég ráðlegg þér því að hugsa þig tvisvar um áður en þú rýkur til og tilkynnir harmafregn á Facebook, Twitter eða bloggsíðum. Skiptir það virkilega sköpum fyrir þig að tjá sorg þína svo fljótt? Getur það ekki beðið hæfilegan tíma svo að ákveðnir aðilar fái fréttina eftir réttum leiðum, og af nærgætni?

Því að um leið og þú segir andlátsfregn óvænt í stöðuuppfærslu ertu beinlínis að hrópa fréttina yfir stóran hóp af fólki, í sífellu. Í hvert sinn sem einhver opnar fyrir samfélagsmiðil getur hann fengið fréttina framan í sig eins og kalda vatnsgusu, hvar sem hann er staddur. Hann gæti verið á fundi, í kennslustund, umkringdur börnunum sínum, á ferð í bíl, í biðröð í banka eða matvöruverslun, allsendis óviðbúinn.

 

Fólk er misjafnlega viðkvæmt og þegar maður flytur andlátsfregn símleiðis er það alltaf erfitt og tilfinningaþrungið fyrir báða aðila; maður spyr hvar viðkomandi sé staddur, biður hann að leggja bílnum, finna sér næði eða setjast niður og segir svo hvenær og hvernig andlátið bar að, svarar spurningum ef einhverjar eru og þiggur samúðarkveðjur. Það er persónuleg, sameiginleg reynsla þess sem flytur fregnina og þess sem fær hana – og hún er flutt á þann hátt einmitt vegna þess að hinn látni, sá sem ber fréttina og/eða sá sem þarf að heyra hana, eru tengdir á mun persónulegri hátt en einhver hundruð Facebook vina eða Twitter fylgjenda.

 

Spyrðu þig hvaðan þessi þörf til að vera fyrstur til að bera harm þinn á torg sé sprottin; ertu virkilega svo sorgmædd(ur) að þú ráðir ekki við þig? Telurðu að sorg þín sé ekki nógu mikil eða ekki raunveruleg fyrr en þú ert búin(n) að deila henni með öllum hópnum? Ertu hrædd(ur) um að öðrum þyki þú kaldlynd(ur) ef þú flýtir þér ekki að uppfæra síðuna þína með þessari harmafregn?

 

Myndirðu rjúka til og semja sjálf(ur) andlátstilkynningu fyrir blöð og útvarp og senda til birtingar, án samráðs við fjölskyldu hins látna? Nei, því það væri ruddaskapur. Svo hvers vegna viltu taka fram fyrir hendur þeirra á samfélagsmiðlum?

 

Í dag eru fimm mánuðir síðan að systir mín dó. Ég, móðir mín, systkini og e.t.v. örfáir aðrir ættingjar og vinir tökum sérstaklega eftir þessari dagsetningu og hugsum til þessarar erfiðu nætur, þegar veröld okkar gjörbreyttist.

 

Ef þú sérð ekki fram á að minnast sérstaklega fimm mánaða – eða þriggja mánaða eða sjö mánaða – dánardægur einhvers sem þú þekktir, þá stóðstu honum líklega ekki nógu nærri til að það sé þitt hlutverk að flytja umheiminum fréttir af andláti hans.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here