Ekki týna bílnum þínum! – Leggðu stæðið á minnið

Lögreglan gaf út þessa yfirlýsingu til fólksins í jólaösinni:

Tilkynningar til lögreglu um stolin ökutæki eiga ekki alltaf við rök að styðjast, því staðreyndin er sú að sumir ökumenn hreinlega týna bílunum sínum. Þetta kann að hljóma einkennilega, en hér er átt við þá sem fara í bæinn að sinna erindum og finna síðan ekki bílana sína að því loknu! Þeir eru sem sagt búnir að gleyma því hvar bílnum var lagt. Þá er stundum hringt í lögregluna og jafnvel fullyrt að bílnum hafi verið stolið.

Mörg dæmi eru um þetta, en gleymskan hrjáir bæði unga sem aldna ökumenn. Þetta er rifjað upp hér því nú er jólaösin hafin fyrir alvöru og því nauðsynlegt að reyna að leggja vel á minnið hvar maður skilur bíllinn sinn eftir. Við vonum að sem fæstir, og auðvitað helst enginn, lendi í þeim leiðindum að týna bílnum sínum fyrir jólin.

SHARE