Elskar þú sjálfa/n þig?

Eins og ég hef talað um áður er ekki síður mikilvægt að vinna í andlegu hliðinni og þeirri líkamlegu. Vissir þú að líkamlegir kvillar geta minnkað og jafnvel horfið alveg, einungis með því að taka til í höfðinu á sér og hugsa rétt?

c835af9d13f718101c1d391188b7db1e

Nú er ég búin að vera í 1 og ½ ár í þerapíunni ,,Lærðu að elska sjálfa/n þig’’ hjá þerapistanum Guðbjörgu Ósk Friðriksdóttur. Ósk mun sennilega aldrei losna við mig því það er svo upplífgandi að tala við hana reglulega. Hún er svo hress og skemmtileg að viðtölin eru aldrei þvinguð né alvarleg. Eftir viðtölin er maður fullur af sjálfstrausti, eldmóði og tilhlökkun yfir næsta viðtali. Hún er yndisleg í alla staði, útskýrir allt svo vel fyrir manni og hefur alltaf skýringar við öllu sem gerist í lífi manns. Allt verður svo miklu einfaldara þegar maður fer að skilja hlutina og af hverju þeir eru eins og þeir eru. Hún kennir manni að breyta hugarfarinu og hugsa hlutina alveg upp á nýtt.

Það sem er nefnilega svo skemmtilegt við Ósk er hvað hún vinnur óhefðbundið og gerir sjálfsvinnuna skemmtilega. Hún setti mér verkefni á 3.vikna fresti sem voru bæði krefjandi og skemmtileg. Ég tala nú ekki um hversu stórkostlega manni leið um leið og maður gerði verkefnin, maður sá strax árangur. Verkefnin voru t.d. að hrósa sjálfri mér, hrósa fólkinu í kringum mig, standa með sjálfri mér og mörg fleiri. Ég man hvað ég fór skælbrosandi út í bíl eftir fyrsta tímann, alsæl með fyrsta verkefnið. Allt virkaði svo einfalt og ég sveif um á bleiku skýi.
9010673a9ff2fdf9faab95f91c54a3a3

Ástæðan fyrir því að ég fór til hennar í upphafi var kvíði og vottur af þunglyndi. Ég var farin að sjá að kvíðinn minn fór alveg jafn illa í magann á mér og matur sem ég hafði fæðuóþol fyrir. Það var því næsta skref hjá mér að fara að vinna í kvíðanum og ég varla trúi því sjálf hvað mér hefur farið fram. Ósk útskýrði fyrir mér að allt sem gerist í mínu lífi á að gerast og ef það er erfið reynsla sem við verðum fyrir er hún til að kenna okkur eitthvað. Ég er orðin miklu lífsglaðari, jákvæðari og stóri plúsinn er að þunglyndið og kvíðinn er næstum horfið. Ég kann miklu frekar að tækla það núna en áður ef það bankar uppá.

Ég gæti skrifað margar blaðsíður um það hvað ég hef lært í þerapíunni um sjálfa mig og lífið sjálft en ætla að reyna koma því niður í nokkrar setningar.

  • Ég hef orðið miklu jákvæðari, glaðlegri og sjálfstraustið hefur aukist.
  • Ég hef fengið að sjá svo skýrt hvernig ÉG get hjálpað mér sjálf með andlega- og líkamlega líðan mína.
  • Ég sé svo skýrt hvernig andlega hliðin getur haft áhrif á líkamann. T.d. verkir og annað geta sprottið upp útfrá því sem er í gangi í höfðinu á manni.
  • Ég hætti að líta á fæðuóþol mitt sem böl og byrjaði að líta á það sem blessun. Ég átti að fá þetta fæðuóþol til þess að geta hjálpað fólki með matarræði og fl. Þ.a.l. hefur áhuginn á mataræðinu og andlegri hugsun aukist gríðarlega.
  • Þegar ég byrjaði hjá Ósk var ég í mikilli óvissu hvað ég ætti að læra eða verða í framtíðinni. Hún hefur hjálpað mér að sjá svo skýrt hver tilgangur minn er í lífinu og hvað ég eigi að vera að gera í framtíðinni.
  • Ég er byrjuð að standa miklu meira með sjálfri mér og hugsa alltaf hvað mig langi að gera en ekki hvað aðrir vilja að ég geri.
  • Ef ég leyfi fólki að ráðskast með mig fæ ég þannig fólk í líf mitt. Ef ég sýni fólki að ég stend með sjálfri mér þá fæ ég fólk í líf mitt sem ráðskast ekki með mig og þeir sem ráðskuðust með mig hverfa.
  • Lærði að senda alltaf kærleik út í tilveruna þá líður mér svo miklu betur, sama hvað ég fæ til baka.
  • Áður þurfti ég alltaf að hafa kveikt á einhverju í sjónvarpinu til að geta sofnað (myrkfælni) en nú get ég lagst á koddann og sofnað strax. (meira að segja þó ég sé ein heima)
  • Lærði að allir í lífi mínu eru að kenna mér eitthvað ákveðið, alveg eins og ég kenni þeim eitthvað.
  • Lærði svo margt um líf mitt og að allt sem gerist eigi að gerast, mörg svona ,,aaaha nú skil ég’’ móment sem komu þegar ég fattaði þetta.
  • Lærði að líkaminn er magnaður – sendir manni stöðugt skilaboð ef það er eitthvað sem hann fílar ekki.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa fundið Ósk og byrjað að vinna í sjálfri mér svona ung. Þetta er eitt það besta sem ég hef gert fyrir sjálfa mig og er þetta án nokkurs vafa sá dýrmætasti lærdómur sem ég hef farið í gegnum í lífinu. Þetta er dýrmætara en nokkuð skólabókarnám sem maður mun læra yfir lífsleiðina, þetta er eitthvað sem maður ætti að læra strax í grunnskóla- svo mikilvægt veganesti er þetta fyrir alla.

quotes-on-self-love-picture

Þessi færsla er alls ekki til þess gerð sem auglýsing fyrir þerapistann minn. Mig langar bara að deila því sem virkaði fyrir mig og hversu magnað hugarfarið okkar er. Við berum ábyrgð á líðan okkar og þ.a.l. þurfum við að vera með hugarfarið í lagi. Ég hvet ÞIG, þó þú sért ekki með einhver svakaleg vandamál, að rækta sjálfsástina og vinna í sjálfum þér. Ef þörf er á, skaltu leita þér hjálpar til þess sem þér finnst réttast og láttu hjólin byrja að snúast. Mundu, að þú ert við stýrið.

-Anna Guðný

Anna Guðný er með heimasíðuna Heilsa og Vellíðan

Tengdar greinar:

Hvernig verður heilsa barnanna okkar í framtíðinni?

Hvað er streita?

SHARE