Þetta eru orðin sem ég óttast alltaf að heyra þegar ég segi fólki frá átröskunarvandanum mínum. Óttinn við þessi orð varð til þess að ég leitaði mér ekki hjálpar í mörg ár, og vandinn varð erfiðari viðureignar. Óttinn varð líka til þess að ég faldi þetta „ljóta“ leyndarmál mitt fyrir vinum og fjölskyldu og burðaðist ein með áhyggjurnar.
Ég taldi mér trú um að vandi minn væri ekki það mikill að það tæki því að leita til fagfólks með hann. Þó svo að átröskunarvandinn skerti lífsgæði mín á margvíslegan hátt eins með því að einangra mig, gera mig kvíðna fyrir smæstu hlutum og með því að ræna mig orku, fjármunum og frjálsum vilja. Ég taldi mér líka trú um að ef ég myndi leita mér aðstoðar þá yrði ég ekki tekin alvarlega. Því ég var jú ekki mjó, og fólk sem raunverulega væri með átröskun, væri mjótt. Það skipti ekki máli hversu oft ég las annað, upplýsingarnar náðu ekki fótfestu. Hvers vegna ekki?
Þarna birtust auðvitað fordómarnir mínir. En hvaðan hafði ég þessa fordóma?
Samfélagið sagði mér annað en fræðibækurnar. Það var eiginlega aldrei talað um átröskunarvanda í fjölmiðlum, nema meðfylgjandi væru dramatískar myndir af viðkomandi í undirþyngd og almennt illa útlítandi. Myndir af fólki í og um kjörþyngd voru ekki nægilega dramatískar til að skilaboðin kæmust til skila. Þegar myndir birtust af fólki í yfirþyngd, voru það nær eingöngu „fyrir“-myndir til að sýna árangur af þyngdarmissi eftir að viðkomandi náði tökum á „vandanum“ sem í því samhengi var oftast kílóatalan en ekki undirliggjandi tilfinningavandi. Við sækjum upplýsingar úr umhverfinu og þar eru fjölmiðlar áhrifaríkir. Samfélagið segir okkur að átröskun sé vandi mjórra, ungra kvenna. Helst, „þægu stelpunnar sem fær tíu í öllu“. Ég féll ekki að steríótýpunni, og þar sem ég samsamaði mig ekki við hugmyndina um það hver er í „alvörunni“ með átröskun, þá leitaði ég ekki aðstoðar.
Staðreyndin er þó sú að, að flestir þeir sem stríða við átröskun eru í kjörþyngd eða yfir. Þyngd er eingöngu greiningarviðmið þegar kemur að lystarstoli og jafnvel þar er þyngd á útleið sem greiningarviðmið. Enda segir þyngd ekkert til um alvarleika átröskunar. Margir þeir sem hafa átt í vanda sínum um eitthvert skeið, hafa sveiflast í þyngd og sumir mjög mikið. Sjálf hef ég flakkað um nokkrar fatastærðir á þessum tíma. Það er einfaldlega ekki hægt að sjá það á fólki hvort það á í átröskunarvanda eða hversu alvarlegum. Átröskun gerir engan greinarmun á aldri, kyni, menntun, háralit eða skóstærð. Karlmenn fá líka átröskun. Margt bendir til þess að átröskun sé vangreindur vandi á meðal karlmanna þar sem hann lýsir sér oft öðruvísi en hjá konum. Fólk getur fengið átröskun á öllum aldri. Átröskun er ekki megrun eða matvendni; hégómi eða athyglissýki. Átröskun er alvarlegur, flókinn geðsjúkdómur sem veldur margvíslegum líkamlegum og andlegum vandamálum og getur dregið fólk til dauða.
Átröskun er ekki ólæknandi. Þvert á móti getur fólk náð fullum bata.
Þann 10. september verða stofnuð ný stuðnings- og baráttusamtök fólks með átröskun og aðstandenda þeirra. Félagið heitir Vonarstyrkur, og er því ætlað að vera vettvangur fólks sem hefur orðið fyrir áhrifum þessa sjúkdóms. Allir þeir sem hafa áhuga á því að vinna að þessu máli, eru hvattir til að mæta og taka þátt. Fundurinn verður haldinn í húsnæði Geðhjálpar, Borgartúni 30 og hefst klukkan 20:00.