Engifer- og melónudrykkur

Þessi drykkur er bara fullur af hollustu. Engifer er hreinsandi og gott fyrir meltinguna og melónan er full af vítamínum. Uppskriftin er frá Café Sigrún. Nota má bæði Galia melónu (ljósgræn að innan) eða hunangsmelónu. Límónur eru afar frískandi en það má sleppa þeim ef þið viljið sætari safa. Gott er að nota safapressu fyrir þessa uppskrift en fyrir þá sem ekki eiga svoleiðis má kaupa gulrótarsafa og blanda afganginum af hráefninu í blandara (rífa engiferið fyrst) og hræra svo saman. Safinn verður þá þykkari (en um leið trefjaríkari).

Engifer- og melónudrykkur

Innihald

  • 2 gulrætur, skrældar og þvegnar
  • 1 vel þroskuð Galia melóna eða hunangsmelóna, afhýdd og fræhreinsuð
  • 3 sm bútur engifer
  • Safi úr 2 límónum

Aðferð

  1. Skrælið gulrótina og þvoið. Setjið hana í safapressu ásamt engiferinu.
  2. Afhýðið melónuna og fræhreinsið, skerið í stóra bita. Setjið í safapressuna.
  3. Hellið safanum í könnu og kreistið límónusafann út í (gætið þess að steinarnir fari ekki með).
  4. Berið fram í háum glösum með ísmolum og jafnvel límónusneiðum.
  5. Ef ekki er notuð safapressa skal rífa aðeins helminginn af engiferinu út í drykkinn og því næst blanda saman gulrótarsafanum  og öllu hinu í blandara.

Gott að hafa í huga

  • Það má líka nota vatnsmelónu eða cantaloupe í staðinn fyrir Galia melónu.
  • Ef safinn er ekki nægilega sætur (hann ætti að vera það ef melónan er vel þroskuð), má bæta 1 msk af agavesírópi út í.

Endilega smellið einu like-i á Café Sigrún á Facebook. Hollar og frábærar uppskriftir þarna inni.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here