Heimasíðan Betri næring er glæsileg ný síða þar sem hægt er að lesa sannleikann um næringu og heilsu og eru það þau Kristján Már Gunnarsson og Ragna S. Óskarsdóttir sem halda síðunni úti.
Þau birtu á dögunum þessa flottu grein um sykur og hveiti og fengum við leyfi til að birta hana hér.
——————————
Við erum öll mismunandi.
Það sem hentar einum hentar ekkert endilega öðrum.
Ég hef skrifað ansi mikið um lágkolvetnamataræði að undanförnu.
Ástæðan er sú að ég hef mikla trú á að það sé möguleg lausn á sumum stærstu heilsufarsvandamálum heims.
Hins vegar er staðreyndin sú að lágkolvetnamataræði hentar alls ekki öllum.
Sumir vilja ekki borða lágkolvetnafæði, öðrum líður ekki vel þegar þeir borða það og enn aðrir þurfa þess ekki.
Ekki má heldur gleyma þeim sem hreyfa sig mikið, en þeir þurfa meiri kolvetni en við hin bara til að viðhalda nægilegri orku.
Kolvetni hvað?
Kolvetni eru mjög umdeilt næringarefni.
Sumir segja að þau séu ómissandi hluti fæðunnar, lífsnauðsynleg heilanum og að um helmingur þeirra hitaeininga sem við neytum eigi að koma frá þeim.
Aðrir vilja meina að kolvetni séu lítið annað en eitur.
Eins og oft vill verða þá liggur sannleikurinn einhvers staðar á milli þessara öfga og ræðst algjörlega af samhenginu.
Þeir sem glíma við offitu, eru sykursjúkir eða sýna önnur einkenni slæmra efnaskipta sem tengjast vestrænu mataræði, eru líklega best settir á lágkolvetna-, háfitumataræði.
Það er mjög skýrt og margsannað að þetta mataræði er miklu líklegra til árangurs en lágfitumataræðið sem heilbrigðisyfirvöld mæla enn með (1, 2, 3).
En fyrir hina sem eru ekki með slæm efnaskipti og eru frekar hraustir og duglegir að hreyfa sig… getur lágkolvetnamataræði verið algjör óþarfi.
Jafnvel þó það geti verið nauðsynlegt að fjarlægja öll kolvetni til að laga þau brengluðu efnaskipti sem tengjast efnaskiptavillu og offitu, þá getur verið nægjanlegt að fjarlægja bara slæmu kolvetnin til að koma í veg fyrir þau.
Forvörnin þarf ekki að vera sú sama og lækningin.
Góð kolvetni, slæm kolvetni
Mörg samfélög þrifust mjög vel á meðan þau borðuðu náttúrulegan, óunnin mat óháð því hvert kolvetnamagnið var í fæðu þeirra.
Dæmi um samfélög sem þrifust vel á hákolvetnafæði voru íbúar Okinawa og Kitava.
Það var ekki fyrr en nútímafæða eins og sykur og unnin kolvetni skutu upp kollinum þar sem þetta fólk byrjaði að veikjast.
Það er fjöldi samfélaga í Asíu sem borðar mjög mikið af kolvetnum, en fólkið er samt við frábæra heilsu… að minnsta kosti ef við berum þau saman við vestrænar þjóðir.
Af þessu má ráða að það eru ekki endilega kolvetni sem slík sem eru orsakavaldurinn… það eru “slæmu” kolvetnin (og allt hitt ruslið í vestrænu fæði).
Ef þú ert hraustur og hreyfir þig mikið, þá er líklega engin ástæða fyrir þig að forðast holla kolvetnagjafa eins og kartöflur, ávexti og glútenlaust korn.
Sykur- og hveitilaust mataræði
Mín skoðun er sú að verstu fæðutegundirnar séu sykur og hveiti.
Ég er nokkuð öruggur á því að 80% bættrar heilsu fólks sem fer á lágkolvetna- og steinaldarmataræði megi rekja til þess að sykur og hveiti eru algjörlega tekin út úr fæðinu (ásamt transfitum og grænmetisolíum).
Sykur- og hveitilausa mataræðið er meira og minna eins og paleo + mjólkurvörur + holl kolvetni.
Fókusinn er á hágæða mat… með því að velja góða fitugjafa, góða prótíngjafa og góða kolvetnisgjafa.
- 1. Regla – Forðastu viðbættan sykur.
- 2. Regla – Forðastu hveiti.
- 3. Regla – Forðastu líka transfitur og grænmetisolíur.
- 4. Regla – Ekki drekka hitaeiningar (hvorki gos né ávaxtasafa).
- 5. Regla – Borðaðu náttúrulegan, óunnin mat.
Hvað áttu að borða?
Það er mikilvægt að velja náttúrulegan, óunnin mat líkastan því sem þú gætir fundið í náttúrunni.
Eins og áður getur þú borðað kjöt, fisk, egg, ávexti, fituríkar mjólkurvörur, grænmeti, hnetur og fræ.
En núna getur þú bætt hollum kolvetnum við listann:
- Rótargrænmeti: Kartöflum, sætum kartöflum, gulrófum o.s.frv.
- Glútenlausu korni: Hrísgrjónum, haframjöli, quinoa o.s.frv.
- Ávöxtum: Banönum, eplum, appelsínum, perum, berjum o.s.frv.
- Grænmeti: Spergilkáli, blómkáli, gulrótum o.s.frv.
Ég vil leggja áherslu á þá staðreynd að kartöflur eru frábær fæða.
Kartöflur koma ekki til greina ef þú ert á lágkolvetnamataræði og líklega eru þær slæmur kostur fyrir þá sem eru mjög næmir fyrir kolvetnum, en fyrir aðra eru þær fullkomin fæða. Mjög næringarríkar og mettandi.
Að lokum
Þeir sem eru hraustir og vilja viðhalda hreysti sinni… haldið áfram að æfa ykkur og að borða náttúrulegan mat. Þetta þarf ekkert að vera flóknara en það.
Þessi grein birtist upphaflega á authoritynutrition.com.
P.S. Ekki gleyma að læka okkur á Facebook.