Í lok febrúar á síðasta ári greindist þráðormurinn Strongyloides stercoralis í fyrsta sinn í hundi á Íslandi, utan einangrunarstöðvar.
Þessu er greint frá á heimasíðunni dyralæknir.is. Helga Finnsdóttir dýralæknir skrifaði ítarlega færslu um þráðorminn.
Nú í lok janúar 2013 greindist svo ungur hundur með alvarlegt smit. Hundarnir sem voru smitaðir komu báðir frá Dalsmynni á Kjalanesi. Eftir rannsóknir sem voru gerðar kom í ljós að um helmingur hundanna á búinu voru smitaðir. Það kemur fram í tilkynningu á síðu dýralækna að allir þeir sem keypt hafa hunda frá Dalmynni ættu að gæta fyllsta hreinlætis og láti taka saursýni úr hundinum.
Smit í fólk
Smit berst í fólk þegar lirfur í umhverfinu bora sig í gegn um húðina, aðallega gegnum húð á fótum, berast með blóðstraumnum til lungna, upp í gegn um barka, niður vélinda í maga og meltingarveg þar sem þær verða kynþroska og verpa eggjum, sem umbreytast í smitandi lirfur á örskömmum tíma.
Lirfurnar berast svo með saur út í umhverfið, eða þá að þær bora sig strax inn í líkamann í gegn um húðina umhverfis endaþarm og hefja þaðan ferðalagið með blóðrásinni.
Aðalsmitleiðin milli hunda er talin vera með móðurmjólkinni í hvolpa
Smitleiðin hjá hundum er svipuð og hjá mönnum þar sem smit berst í gegnum húð, smit getur þó líka borist gegnum munn. Aðalsmitleiðin er þó talin vera með móðurmjólkinni í hvolpa. Hundur getur verið smitberi í allt að ár, lirfur geta þá skilist út með saur. Algengast er þó að útskilnaður hætti eftir 2-3 mánuði.
Sjúkdómseinkenni
hjá hundum eru oftast engin eða væg, en vissulega þekkjast alvarleg tilfelli og þá aðallega í nýfæddum hvolpum, hvolpum á spena sem og hundum með ónæmisbælandi sjúkdóma. Einkennin eru lungnabólga, alvarlegur niðurgangur, slen og jafnvel dauði. Tími frá smiti þangað til klínisk einkenni koma í ljós er um ein vika. Fullorðnir hundar smitast sjaldnast alvarlega.
Meðferð
felst í að gefa viðeigandi ormalyf og taka síðan reglulega saursýni. Gefa má Ivermectin þeim hundum sem það þola, en talið er að ormalyfið Panacur vet sé einn bezti valkosturinn. Það þarf þá að gefa mun lengur en við hefðbundna meðferð gegn spóluormum, eða í 2 – 3 vikur.
Þú getur lesi greinina í heild sinni hér:
dyralæknir.is