Förðunarfræðingurinn og söngkonan Elísabet Ormslev deilir uppáhalds snyrtivörunum sínum
Elísabet Ormslev, söngkona og förðunarfræðingur, farðar sig yfirleitt eitthvað alla daga, en undanfarnar vikur hefur hún verið að vinna meira með náttúrulega „lúkkið“ en hún er vön. „Hér áður fyrr var ég vön að rokka kannski grænt „smokey eye“ á þriðjudegi. Nú er ég bara með léttan, nærri gegnsæjan farða, hyljara undir augum, maskara og sólarpúður.“
Hún telur ýkt instagram makeup vera hægt og bítandi að fara úr tísku á sama tíma og náttúrulegar farðanir verði æ vinsælli. „Ég er allavega hætt þessu brjálaða „highlight“ og „contour“ í þessum rosalega mæli sem hefur verið, nema að ég sé að fara að syngja á sviði, þá set ég oftast mun meira en ég myndi annars gera.“
Elísabet hefur starfað sem förðunarfræðingur frá því hún útskrifaðist úr Mood Makeup School árið 2012. Hún hefur unnið bæði hjá MAC Cosmetics og Make Up Store en starfar núna sjálfstætt. Aðspurð segist hún líka dugleg að prófa sig áfram með nýja tækni og „look“ á eigin andliti. „Ég er alltaf að prófa mig áfram með nýja tækni og nýjar vörur og finnst fátt skemmtilegra en að leika mér í „special effects“. Þar bý ég til sár, skurði, marbletti o.fl. Svo eru „editorial fashion„ og „avant garde“ farðanir líka í miklu uppáhaldi.“
1. Loréal False Lash Sculpt maskarinn
Ég hef prófað alla flóruna af möskurum, hræódýra eða allt of dýra en þessi er búinn að fanga hjarta mitt undanfarna mánuði. Hann greiðir, þykkir og haggast ekki!
2. Make Up Forever Face and Body foundation
Þessi farði er svo þunnur að hann er nánast eins og vatn, enda er meirihluti innihaldsefnanna vatn. Oftast er húðin mín í fínu standi og þá þarf ég ekki þykkan farða sem hylur allt. Frekar nota ég hyljara til þess að fela einhver vandræðasvæði.
3. Anastasia Beverly Hills Gleam Glow Palette
Ég er ekki enn komin með nóg af fallegu „highlighti“ á kinnbeinunum en mér finnst það gera svo mikið fyrir hvaða förðun sem er, hvort sem ég er lítið eða mikið máluð.
4. NYC Liquid Liner
Þessi eyeliner kostar 3 dollara úti í Bandaríkjunum og er snilld. Ég vissi ekki að það væri hægt að finna svona góðan og kolsvartan liner sem kostaði svona lítið. Ég næ örfínni línu og væng með núll fyrirhöfn.
5. SUVA Beauty Neutral Necessity Palette
Frá því að ég fékk þessa palettu í hendurnar hef ég ekki getað lagt hana frá mér. Hún hentar svo vel bæði til daglegra nota og í kvöldfarðanir þar sem það eru allir „neutral“ litir til staðar.
Viðtalið birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.