Ég er búin að hugsa um að skrifa um þetta mál lengi. En eins og svo margt sem við kemur þessu málefni, er þetta ekki við allra hæfi og ég fæ alltaf gríðarlega þörf fyrir það að afsaka mig, því þetta er ekki alveg í takt við þennan ,,raunveruleika” sem flest okkar viljum halda okkur við.
Er raunveruleikinn okkar bara þessi sem við sjáum með berum augum, eða er eitthvað annað sem liggur á bak við tilvist okkar allra? Eru sumir með víðari sjóndeildarhring en aðrir? Hvað með þá sem eru staðfastir á því að þegar við deyjum sé saga okkar á enda? Er það kannski bara huggun og eitthvað sem við gerum til að sefa sorg okkar, þegar við gefum okkur leyfi til að trúa að ástvinur okkar sé ekki horfinn að eilífu?
Mér finnst ótrúlega erfitt að setja sjálfa mig svona út sem ,,andlega” manneskju. Sjóndeildarhringur minn er 360 gráður og ég leyfi mestu í lífinu að njóta vafans. Ég elska vísindin jafnt og þessa hlið mína, því fyrir mér vinna þessar tvær hliðar á tilverunni saman. Allt í veröldinni er orka, hvort sem það er dauður hlutur, persónuleiki okkar, tilfinningar, aðrar víddir eða undirmeðvitund okkar að tala við okkur. Heilinn er á fullu við að meðtaka upplýsingar og vinna úr þeim, sem getur verið samanblandað af innra og ytra áreiti, gamalli reynslu, ótta og lærðri hegðun, svo örfá dæmi séu tekin.
Hægt er að telja upp óteljandi ástæður fyrir af hverju maður á ekki að trúa á aðrar tilvistir og ég sjálf leyfi mér að efast. En satt best að segja er efinn minn eins og efi minn á sjálfa mig. Ég er mér ekki trú, þegar ég er að reyna að segja við sjálfa mig að ég trúi því ekki sem ég finn, sé eða heyri innra með mér.
Ég var bara svo lítil þegar ég hljóp inn í forstofu heima hjá mér til þess að hleypa kisunni minni út þegar ég sá mann koma inn í gegnum dyrnar og ganga í áttina að mér. Við tóku ítrekaðir draumar sem urðu að veruleika í nákvæmri mynd. Horfandi á manneskjulaga reyklititaðar útlínur af fólki ganga um hér og þar, vera skelfingu lostin og kúra með andlitið klesst við vegginn í herberginu mínu af því að ég var viss um að ef ég horfði fram í herbergið, myndi ég sjá einhverju bregða fyrir. En samt sagði ég alltaf við sjálfa mig að ég sæi bara ekki drauga og að þeir væru ekki til, talaði ekki um það. Reyndi að hugsa allar mögulegar aðrar ,,vísindalegar” ástæður í veröldinni til að afsanna mig. Ég hef oft efast um raunverulega geðheilsu mína með því að halda að það væri eitthvað að mér líkamlega og þar með efast um mig og mitt eigið ágæti. En þessi hluti af mér, fer ekki og ég er margoft búin að reyna að sjá ekkert.
Nú í dag er ég næst því sem ég hef nokkurn tíma verið með að kunna að meta sjálfa mig sem ,,furðufuglinn” sem ég er, en getur það verið vegna þess að ég sé búin að taka það í sátt að það er raunverulega eitthvað þröngsýnt við að halda því fram að við og næsti maður við hliðina á okkur höfum ekki meiri sögu á bak við okkur en það sem við sjáum með okkar tveimur augum. Við erum ótrúlega gjörn á það að setja annað fólk upp eins og myndirnar sem við sjáum. Við sjáum eitthvað fallegt og við viljum lifa það sem við sjáum, en margir hverjir eru að reka sig á að hyllingin og glansmyndin náði ekki dýpra en grunnt yfirborðið. Hvað gerist þá? Eru draumar og óskir okkar brostnar, vonbrigði og vonleysi taka við?
Afhverju elskum við einhvern og líkar illa við aðra án þess að finna enga góða röksemdarfærslu fyrir því? Afhverju segja svo mörg okkar að þetta er kjaftæði og að þeir sem trúa eru rugludallar upp til hópa? Það er líka hægt að hafa trúna án þess að vera búin/n upplifa reynsluna.
Ef við myndum aðeins setjast niður og hugsa hvað veldur okkur vanlíðan og hver upptökin eru, gæti mögulega verið að þú komist að því að allt annað sem stjórnar rökhugsun þinni hafi tekið yfir og þín innri manneskja fengið að þjást fyrir það. Við töpum okkur í tilverunni og erum ekki tengd við sálina okkar, sem er í stanslausri baráttu við utanaðkomandi áhrif.
Sjá einnig: Orkustöðvar: Hvaða hlutverki gegna þær í lífi okkar?
Sjá einnig: Langar þig til þess að ýta á ,,endurræsa“?
Málefnið er ótæmandi, en fyrir mér er það svo einfalt. Ég trúi á sjálfa mig og trúi þar með á tilfinningar mínar og ég veit að á bak við allar sálir eru sögur. Ég er með í öllu því sem er í gangi í samfélaginu, enda eru genin okkar þannig hönnuð að við sækjumst í það að falla í hópinn, því að ef þú gerir það ekki átt þú á hættu á því að vera útskúfaður úr hjörðinni, verða einmana.
Ég trúi að inni í okkur eru sálir sem þurfa að skína. Ég trúi að við eigum öll jafnan rétt á okkar tilvist, hvort sem hún kennir okkur á slæman máta eða góðan. Þröngsýni hefur komið mörgum í koll og við höfum öll tækifæri á því að verða þær útgáfur af sjálfum okkur sem gerir okkur sátt og sönn.
Sjá einnig: Andleg vanlíðan og líkamlegir verkir
Núvitund, hugleiðsla og jafnvel það sem litli feiti kallinn, sem bar nafnið Buddah átti að hafa sagt, getur friðað hinar ýmsu vanlíðan. Það er þó ekki fyrr en þú skilur að þú þurftir að setja þig í það verkefni að ná tengslum við þína innri manneskju, sem þú ferð að sjá tilveruna í öðru ljósi. Þú getur jafnvel farið að sjá að sálfræðin, hugleiðslur, vísindin og andleg trú haldast í hendur.
Ég vel að trúa sjálfri mér, því sem ég finn, hvernig mér líður og trúa því að allt hefur sinn tilgang. Ég stend með sjáfri mér og þar með minni trú að við erum ekki bara gangandi kroppar og að hinu megin eru sálir sem eru okkar vinir, sem leiða okkur á rétta braut, hvort sem við finnum það eða ekki.
Það er enginn sem segir okkur að við getum ekki byrjað upp á nýtt og byggt okkar líf í takt við okkur sjálf. En það eina sem við þurfum er að sleppa dauðahaldinu og hafa trúna.
Dagbjört Ósk Heimisdóttir er af Ströndum en býr í borginni ásamt sonum sínum tveimur. Dagbjört er hárgreiðslumeistari en ákvað að breyta aðeins til að gerast penni hjá Hún.is. Nú starfar hún í frábæru teymi sem skrifar á vefinn.