„Er ekki hissa á að konur selji sig á Íslandi“

Ég skrifaði þennan pistil aðallega fyrir sjálfa mig, en ákvað að senda hann hingað inn ef þið hefðuð áhuga á að birta hann.

Ég skrifaði hann eftir að hafa lesið frétt um hóp á Facebook sem fjallaði um vændi og vændiskonur.

Ég er nefnilega ekkert hissa á því að í dag séu konur úti í þjóðfélaginu sem fara þessa leið, að selja líkama sinn fyrir peninga. Ég veit dæmi um einstæðar mæður sem leggja þetta á sig, ég hef meira að segja íhugað það sjálf. Því miður held ég að ég geti aldrei tekið skrefið, en ég velti því þó oft fyrir mér hvor tilfinningin og skömmin sé meiri, að selja mig eða endalausa vanlíðanin og áhyggjurnar yfir peningum.

Ég er öryrki vegna bæði líkamlegra og andlegra veikinda, ég á fjögur börn og skildi í byrjun árs. Peningaáhyggjur hafa plagað mig lengi en undanfarnir mánuðir hafa verið hreint helvíti!

Ég fæ allar þær greiðslur sem ég hef rétt á og leita til félagsþjónustunnar og kirkjunnar til að fá hjálp við leikskólagjöld og þh. Ég hef selt gjörsamlega allt úr innbúinu mínu sem mögulega peningar voru í frá því ég skildi og reynt að upphugsa öll möguleg ráð til þess að verða mér úti um peninga.

Ég þarf að leigja íbúð og borga þau gjöld sem því fylgir að halda heimili, eftir að hafa greitt þetta allra nauðsynlegasta um hver mánaðarmót er nánast ekkert eftir.

Ég á ekki bíl og fer allra minna ferða með strætó, ég á einar heilar buxur sjálf og fataskápar barnanna minna samanstanda af notuðum fötum af öðrum. Ég fer ekki í klippingu, hvað þá til tannlæknis, við förum ekki í bíó eða kaupum pizzu og við ferðumst ekki innanlands.

Við fórum ekki á ættarmót í sumar og ég hef afboðað okkur í fleiri veislur en ég get talið af því að ég hef ekki efni á gjöfum. Ég þurfti að fresta afmælisveislum barnanna sem áttu afmæli í sumar af því ég hafði ekki efni á að halda afmæli fyrir þau. Ég hef meira að segja ekki sagt þeim af afmælisboðum því ég hef ekki haft efni á að leyfa þeim að gefa vinum sínum afmælisgjafir.

Ég skulda ekki ættingjum né öðrum peninga, það segist enginn í fjölskyldunni geta hjálpað mér. Ég hef leitað á náðir vina með þúsundkalla reddingar og síðasti mánuður einkenndist af skömm við að biðja um 5þús kall hér og þar.

Ég þarf að velja á milli reikninga til að greiða, geymi þá sem ég mögulega kemst upp með að geyma. Síðustu mánaðarmót greiddi ég ekki leigu til að endurgreiða fimmþúsundkalla reddingarnar.

Kvíðinn, vonleysið og áhyggjurnar yfir framhaldinu bera mig stöðugt yfirliði, ég hef enga ástæðu til að vonast eftir því að þetta lagist eða breytist. Í tvígang hafa fjárhagsáhyggjurnar, kvíðinn og vonleysið borið mig ofurliði, þá reyndi ég að enda líf mitt. Ég hélt að það væri enginn möguleiki fyrir mig að lifa eða búa með börnin mín og þá gat ég alveg eins verið dauð.

Velti ég þess vegna því fyrir mér hvort sé verra, að leggjast svo lágt að selja líkama minn og losa þá um þessar endalausu fjárhagsáhyggjur. Ég veit það myndi valda mér vanlíðunar og kvíða, samviskubiti og svo mætti lengi telja ef ég færi út í það, en kannski væri það þess virði? Í staðinn gæti ég minnkað og losað um svartnættið sem vakir yfir mér alla daga, óvissuna um hvort ég geti sett mat á borðið, borgað leigu eða haldið hita og rafmagni á íbúðinni. Ég veit ekki hvort er verra, ég á kannski aldrei eftir að komast að því, en ég útiloka það samt ekki.

Ég hef ákveðið að lifa fyrir börnin mín en þetta er ekkert líf. Ef ég færi út í það að selja líkama minn væri ég ekki að gera neinum mein nema sjálfri mér, miðað við þær upphæðir sem fást fyrir vændi tæki það mig ekki marga daga, ekki einu sinni marga klukkutíma að tvöfalda þá upphæð sem ég hef á milli haldanna um hver mánaðarmót. Ég væri ekki einu sinni að gera neitt ólöglegt, því eitt veit ég og get fullyrt að ég myndi aldrei taka þátt í neinu ólöglegu, ekki stela, né svíkja.

Ég reyni að öfundast ekki, ég reyni að samgleðjast og sætta mig við það sem ég get ekki breytt. Öfundsýkin kraumar samt sem áður undir niðri, öfundin út í þá sem þurfa ekki að hafa áhyggjur af peningum.

Auðvitað er ég þakklát fyrir ótrúlega margt og átta mig á að þeir sem ekki þurfa að hafa áhyggjur af peningum hafa vafalaust áhyggjur yfir einhverju öðru í staðinn en ég get samt ekki annað en velt því fyrir mér hvernig lífið væri ef ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur á hverju einasta kvöldi þegar ég leggst á koddann yfir því hvernig ég á að hafa efni á að komast í gegn um næsta dag.

 

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is. Ef þú hefur áhuga á að deila þinni reynslu, skoðun eða upplifun máttu senda hana á kidda@hun.is.

SHARE