Nú hef ég lengi ætlað að skrifa smá pistil um stöðuna sem lífeyrisþegi á Íslandi. Ég hef reynt að halda í vonina um breytingar á stöðu þeirra sem eru með lægstu launin, ég held ég sé komin á endastöð.
Ég veiktist ung að árum og hef þar að leiðandi alltaf verið með lág laun.Ég hef í gegnum tíðina rétt komist af. Nú er staðan þannig vegna mikillar hækkun húsaleigu og matar að hver dagur er þjáning. Ég rek ekki bíl og eina sem ég leyfi mér er að fara stundum á bókasafn. Vegna veikinda hafa lífsgæðin verið afar bágborin.
Maður heyrir því stundum fleygt fram hvað það sé nú örugglega notarlegt að geta verið heima á launum. Þið sem getið verið þáttakendur í lífinu en hvað ég öfunda ykkur. Ég horfi á fólk út um gluggann sem er að fara til vinnu, fara að hitta vini, geta sinnt börnunum sínum, eiga líf ég öfunda ykkur. Vegna veikinda og fátæktar sem tvinnast saman er lífið svo alls ekki til að hrópa húrra yfir. Ég hugsa oft um hvað ég sé heppin með margt þrátt fyrir allt, er með húsnæði og gat gefið börnunum mínum að borða.
Róðurinn þyngist um hver mánaðarmót og nú líður ekki sá dagur að ég er ekki með tárin í augunum. Að hafa þessar stöðugu áhyggjur er svo slítandi. Nú er svo komið að ég sé varla tilgang í að fara úr rúminu eða hvað þá klæða mig og þrífa. Það að veikjast hefur tekið svo mikið frá mér, ég bað ekki um þetta.Ég hafði alveg mína drauma um lífið. Mér langaði ekki að þurfa að þiggja örorkubætur eða aumingjabætur eins að sumir segja. Ég á ekki rétt á neinum lífeyrissjóði vegna þess hvað ég veiktist ung. Ekki það að það skipti máli því að hitt skerðist bara í staðinn og fátæktargildran er sú sama.
Er ekki að verða mannlegri að lóga okkur bara? Mannleg reisn og stolt fer hverfandi og hvað er þá eftir? Til að geta leyst út lyfin mín þarf ég að leita á náðir kirkjunnar, upplífgandi er það ekki? Ef þetta á að halda áfram að vera raunveruleikinn fyrir þá veiku, gömlu og fólk í láglaunastörfum þá hef ég ekki áhuga á að vera þátttakandi í þessu mikið lengur. Ég veit vel að ég er ekki sú eina sem er komin á þann stað í lífinu að geta bara ekki meira. Ég sé gamalt fólk standa með tárin í augunum í apótekinu til að reyna að leysa út lyfin sín, vitandi það að þá verður eitthvað annað að láta undan. Matur í ískápinn, rafmagnið eða greiðsla fyrir húsnæði.
Ég hef nú í gegnum tíðina þurft að leita til hjálparstofnanna eins og mæðrastyrksnefnd og fjölskylduhjálp, ég hef þó bara gert það fyrir jól og páska. Mér sýnist þó á öllu að einhvern veginn verð ég að reyna að koma mér út úr húsi og standa í röð flesta miðvikudaga til að fá smá mat á heimilið. Vitið þið að raunveruleiki margra barna er að eyða nokkrum klukkutímum, jafnvel í hverri viku í biðröð eftir mað með foreldrum sínum?
Nú hugsar eflaust einhver að fólkið eigi náttúrulega ekki að taka börnin með í svona. Ég veit svo sem ekki ástæðuna fyrir því að fólk tekur börnin með, kannski hefur það bara engan til að gæta barnsins/barnanna. Ég er sjálf ekki með ung börn og þarf því ekki að hafa áhyggjur af þessu. Á þetta samt að vera sá veruleiki sem börn búa við vegna bágra stöðu fjölskyldunnar. Það kemur stundum upp sú umræða að sumt fólk sem sækir sér aðstoðar á þessu stöðum þurfi þess í raun ekki. Ég er svo hjartanlega sammála þarna. Þarna er tvímælalaust fólk sem fer hreint út sagt bara illa með peningana sína og treystir á matargjafir. Ég tel þó að það séu ekki mjög margir svona sauðir og að meirihlutinn þurfi þetta til að draga fram lífið.
Ég hef í gegnum tíðina lagt áherslu á að nýta mér kosningarétt minn og alltaf kosið. Ég er það raunsæ að ég veit að allir þessir flokkar lofa og lofa en standa við sem minnst oft á tíðum. Ég batt miklar vonir við þessa ríkisstjórn. Ekki að staðið yrði við allt frekar en hjá hinum flokkunum en samt jákvæðar breytingar. Ég veit að ekki er komin langur tími á þessa stjórn en bjartsýni mín hefur sko minnkað. Þessar ákvarðanir sem haf nú þegar verið teknar gefa sko langt frá því tilefni til bjartsýni. Ég held að stór hluti af því fólki sem er með 150 til 200 þúsund á mánuði geti ekki mikið meir. Í nýliðinni viku bárust fregnir af manni sem skaðaði sig í velferðarráðuneytinu, og er ég bara ekkert hissa á að fólk sé farið að grípa til örþrifaráða. Það er ömurlegast í heimi að sjá börnin sín svöng og geta nákvæmlega ekkert gert í því.
Þetta er Ísland í dag!