Mér var sett fyrir verkefni í mínu námi að koma þeirri umræðu á dagskrá að færa kjörgengið niður í 16 ár. Núna hef ég síðustu mánuði reynt að finna aðferð til að gera það og reyndist það ekki mjög auðvelt verk. Það eru mjög skiptar skoðanir á því hvort þetta sé málið, að færa kjörgengið og auka unglingalýðræði eða hvort hreinlega eigi að hækka aldurinn.
Núna las ég nýlega grein á þessari síðu þar sem talað er um „aumingjakynslóðina“ þar sem komið er vel að orðum hvernig æskan nú til dags er áhyggjulaus, tæknivædd og aum af sér. Er þetta fólkið sem maður vill að sé að hafa áhrif á stjórnina í landinu?
Þessi þróun sem hefur verið að æska landsins „sé að fara í hundana“ hefur verið mikið í umræðunni og hvernig þessum börnum sé ekki treystandi fyrir einu né neinu, en maður spyr sig þá : hver er ástæða þess að æskan er orðin svona?
Það hlýtur að vera fullorðna fólkið, við sem stjórnina höfum, sem elur ungdóminn upp og gera þau að aumingjum.
Satt best að segja er ég ósammála því að það eigi að lækka kjörgengið niður í 16 ár, að mínu mati hafa krakkar á þessum aldri ekki þroska til að nýta sér kosningarétt sinn. Stjórnmálafræðsla er ekki næg í skólum á Íslandi til að 18 ára krakkar kunni að nýta kosningarétt sinn, hvað þá þegar þau eru einungis 16 ára.
En eftir að ég fór að velta þessu fyrir mér í tengslum við þetta verkefni og skoða rök með og á móti, fannst mér koma óþægilega í ljós að rökin sem eru notuð gegn því að færa aldurinn eru ekki ósvipuð mótrökum sem voru notuð á sínum tíma þegar barist var fyrir kosningarétti kvenna.
Því eru alveg tvær hliðar á þessu máli og ómögulegt að vera alveg með eða alveg á móti.
En eins og ástandið er í dag, þegar senn líður að kosningum held ég að aldurinn skipti ekki öllu máli þegar kemur að því að setja sitt X á réttan stað, er sá rétti staður til yfir höfuð?
Ég er tuttugu og fimm og treysti enn á skoðanir fólksins í kringum mig, gerði það þegar ég var 18, hefði alveg örugglega gert það 16 ára og mun eflaust enn gera það þegar ég verð 29 ára.