Er í lagi að feitabolla stundi jóga!?

Ég stundaði Hatha jóga fyrir mörgum árum og enn fleiri kílóum. Mér fannst það frábært og fann hvernig Stína stirða var smám saman liðugri.

En eins og svo oft gerist hætti ég í jóga og lífið tók allskonar þroskandi sveiflur, kella varð stressaðri og stressaðri, hvert áfallið rak annað, ég dró úr hreyfingu og var að endingu varla í neinni hreyfingu nema það sem kallast daglegt líf, þrífa, vinna og svoleiðis.

Allt í einu varð ég vör við að fötin mín skruppu saman í þvotti og fataskápurinn bjó yfir þeim eiginleika að minnka fötin enn frekar!

Ég fór í heilsubætandi aðgerðir gekk á fjöll og æfði grimmt en allt kom fyrir ekkert, fötin minnkuðu og minnkuðu, þrátt fyrir stærri stærðir á þeim. Ég tók eina bestu ákvörðun lífs míns og hætti að reykja á 5 ára afmælisdegi barnabarnsins. Haleluja breytingaskeiðið lagðist á mig á fullu svingi á svipuðum tíma og þá fór mín nú aldeilis að blómstra, um endalaust mörg kíló.

Sjá einnig: Of feitur fyrir sjónvarpið

Sama hvaða kúr ég reyndi og hvað ég hreyfði mig þá bara gerðist ekki neitt, EKKERT!

Ég var rannsökuð í drep og í ljós kom að ég er eins heilbrigð og hægt er og heyri eins og 25 ára stelpa.

Jæja…. þá er komið að þessu með jógað og feitabolluna, ég kynntist jóga nidra niðrí Krabbameinsfélagi og lagði stund á það einu sinni í viku og vá magnað. Það var ótrúlegt að upplifa hvernig það hjálpaði mér með streituna og að takast á við erfiða hluti með öðru hugarfari. Ég varð ástfangin og leið eins og ég væri komin heim, sá svo auglýst jóga nidra kennaranám og ákvað að skella mér. Var með smá/mikinn kvíðahnút þegar loks kom að þessu.

Halló feitabolla að fara í jóga nidra kennaranám með öllum tálguðu jógunum!

Ég mætti með allt mitt spik og viti menn það var eins og ég hefði borðað allt frá hinum, allir ofur mjóir!

En ég bara innra með mér þuldi möndruna:

Þú ert 1,96 og þvengmjó inn í þér og þú getur þetta jafnvel og hinir.

Þetta var dásamlegt nám og hellingur sem ég lærði um jóga nidra fræðin og um mig sjálfa, að vísu byrjaði ég á að taka þátt í svokallaðri sólarhyllingu en settist svo bara á dýnuna enda hélt ég að ég myndi ekki hafa það.

Í dag er ég jóga nidra kennari í ofþyngd en ótrúlega góð í því að leiða jóga nidra, fólk segir það, varla eru allir að ljúga.

Sjá einnig: Hvort er meira fitandi, sykur eða fita?

Ofan á það að stunda jóga nidra sem og verða kennari í því, þá fór ég og byrjaði að hreyfa mig undir leiðsögn sjúkraþjálfa og hef verið í hóptímum hjá henni síðan í september og viti menn er ekki kella bara farinn að finna mun á sjálfri sér á margan hátt.

Kílóunum fækkar eitt og eitt hægt og bítandi og það þakka ég og er sammála sjúkraþjálfanum, þeirri djúpslökun sem iðkun jóga nidra gefur er svo öflug að streituhormón líkamans CORTISÓL lækkar og lækkar og þegar það gerist getur líkaminn sleppt tökunum á spikinu og brætt það!

Það er ekki allt fengið með hamagangi og öfgum gott fólk.

Nú langar feitabollunni sem á doldið langt í land með að verða grönn að fara í jóga en þá kemur upp þessi litla leiðinlega rödd…..

Geta feitabollur stundað jóga?

Ég meina er ekki bara bumban fyrir og það er varla svo tignalegt að taka einhverjar svaka stöður svona kringlótt, ég veit þarna er sjálfið mitt feimið og doldið hrætt.

Hvernig jóga ætli sé best fyrir svona bollu og allskonar vitleysis hugmyndir koma í kollinn minn.

Það gerði það líka þegar ég lærði jóga nidra kennarann, þá velti ég því fyrir mér hver kæmi eiginlega í jóga nidra hjá feitabollu…. Kjánalegt…. það eru allir liggjandi með lokuð augun í nidranu og sennilegast eru allir uppteknir af sjálfum sér í jóga tíma.

Ég efast ekki um að  fleiri eiga svona haus sem hefur sjálfstæða fordóma gagnvart sjálfum sér og öllu mögulegu ef út í það er farið.

Þessi bolla ætlar að finna jóga fyrir bollur og vera stolt með sig!

 

 

 

SHARE