Er í lagi að starfsmenn sundlauga tali um það sem gerist inn í klefunum opinberlega?

Ég sá frétt í dag þar sem sundlaugarvörður kom fram í fjölmiðlum og sagðist hafa þurft að skamma fræga manneskju fyrir það að ganga rennandi blautur að skápnum sínum. Fréttina er hægt að sjá hér.

Það er auðvitað ekki vinsælt að labba blautur að skápnum sínum og það vita allir sem fara í sund. Maður þurrkar sér áður en maður fer að skápnum sínum, leikarinn er líklega ekki vanur að fara í almenningssundlaugar og hefur gert einhver mistök og alveg eðlilegt að leiðrétta hann. Hinsvegar er ég að velta því fyrir mér hvort það sé eðlilegt að starfsmaður sundlaugar komi opinberlega fram og greini frá því sem gerðist inn í búningsklefa? Í búningsklefunum er maður berskjaldaður og maður á nú að geta treyst því að starfsfólk sem vinnur þar sé ekki að blaðra um það sem á sér stað þar, eða hvað? Er það ekki bara svona almenn regla?

Ég veit ekki með þig en mér myndi finnast leiðinlegt ef að starfsmaður inn í búningsklefa færi að ræða um eitthvað tengt mér opinberlega og því sem hann hefði séð inn í búningsklefa. Maður er alveg berskjaldaður inn í sundlaugarklefum, nakinn og sýnir allt sitt heilagasta. Ímyndið ykkur ef starfsmenn færu að tala um líkama fólks opinberlega, hvernig maður liti út nakinn og annað. Mér fannst þetta í besta falli ófagmannlegt. Mér finnst starfsmaður sundlaugarinnar hafa gert mistök en við erum nú öll mannleg.

SHARE