Er maki þinn alltaf í símanum? Hvað er til ráða?

Líður þér stundum eins og þriðja hjólinu með maka þínum og símanum hans/hennar? Ertu stundum að springa því þig langar að rífa af honum/henni símann og brjóta hann? Hvað er til ráða?

Það getur verið erfitt að ætla sér að stoppa svona hegðun en það er samt alveg mögulegt. The nest talaði við tvo sérfræðinga sem gáfu ráð um hvernig er best að takast á við þetta.

Ekki taka þessu persónulega

Fyrsta ráðið þeirra er: Ekki taka þessu persónulega. Ef þú ert að velta því fyrir þér hvort maki þinn sé alltaf í símanum af því þú sért svo leiðinleg/ur eða að þú sért ekki nóg, hættu því. „Eins og á við um allar fíknir, þá er símafíkn annarra ekki þér að kenna og þú ættir ekki að taka á þig sökina,“ segir Jason Wheeler, sem er geðlæknir í New York.

Hinsvegar segir Jason að hafa þurfi í huga hvort þessi mikla símanotkun sé hans/hennar leið til að forðast vandamálin sem eru í sambandinu. Hann segir að fíknihegðun sé oft flótti eða leið til að mynda fjarlægð við stærri vandamál. Ef þig grunar að þetta sé málið, er kannski ráð að impra á þessu við maka þinn og sjá hver viðbrögðin verða. Ef símanotkunin er hinsvegar bara slæmur ávani er hægt að taka til annarra ráða.

Sjá einnig: Frábær ráð úr þvottahúsinu

Segðu frá áhyggjum þínum

Segðu frá áhyggjum þínum. Fyrsta skrefið í að laga það sem er að í sambandinu er að horfast í augu við vandamálið. Það eru líka til leiðir til að segja maka þínum frá áhyggjunum án þess að móðga hann. „Ein góð leið til að tala um allskonar hluti er að segja „mér líður xxx þegar þú gerir xxx“,“ segir Jason. „Til dæmis: „Það særir mig og mér finnst ég ekki fá neina athygli þegar ég kem heim úr vinnunni og þú lítur ekki einu sinni upp frá símanum til að heilsa mér“,“.

Jason segir að þessi leið sé góð af því þú ert ekki að „ráðast á“ maka þinn heldur að segja hvernig þér líður og þá eru minni líkur á að maki þinn fari í vörn og upp komi rifrildi. „Með því að orða hlutina svona ertu ekki að þykjast vita hvað maki þinn er að hugsa eða upplifa, sem getur gert það að verkum að hann sé opnari til að hlusta á þig,“ segir Jason. Hann bætir við að ef maki þinn hefur engan áhuga á að hlusta á þig, þó þú orðir hlutina svona, er það merki um að honum sé sama hvernig þér líður, sem er miklu stærra vandamál en „bara“ símafíkn.

Símalausar samverustundir

Við lifum á tímum þar sem allir eru með síma og síminn er einhverskonar framlenging af okkur sjálfum. „Það er hinsvegar þannig að maður þarf að leggja ákveðnar línur þegar kemur að sambandinu,“ segir Dana Holmes sem er lífsstílsráðgjafi og siðfræðingur. Það getur því verið góð hugmynd að skipuleggja samverustundir og ævintýri sem eiga að vera símalaus. „Sumt fólk þarf bara nokkra daga eða nokkra klukkutíma án internets til að átta sig á hversu háð þau eru símanum og sjá hvað lífið er æðislegt ef síminn er ekki alltaf að trufla,“ segir Dana og leggur til að fara í göngutúra án símanna. „Lýstu því sem þú sérð og heyrir í kringum ykkur. Það mun auka núvitund ykkar beggja en það er einmitt það sem þeir sem eru háðir símum missa.“

Jason kemur með svipaða hugmynd: „Biddu maka þinn um að skilja símann eftir í vinnunni eina nótt. Flest allt sem er aðgengilegt í síma, er líka aðgengilegt í tölvu og ætti jafnvel bara að geta beðið til morguns.“ Hann segir líka að ef maki þinn sé ekki tilbúinn að skilja símann eftir í vinnunni þá gætuð þið byrjað á smærri skrefum eins og að hafa engan síma eftir klukkan X á kvöldin. Ákveðið tíma þar sem þið þurfið bæði að hætta að nota símann og þá gerið þið þetta saman.

Sjá einnig: Gjafaleikur – Ryksuga drauma þinna

Vertu raunsæ/r

„Við ættum ekki að búast við að allt breytist strax og að fullu, en þessi „vinna“ er algjörlega þess virði þegar upp er staðið,“ segir Jason og endurtekur að ef maki inn hefur ekki áhuga á að hlusta á það sem þú hefur áhyggjur af, eða dettur alltaf aftur í sama gamla hegðunarmynstrið, er kannski kominn tími á pararáðgjöf. Dana segir jafnframt: „Ef þetta verður að rifrildi í hvert einasta skipti ættir þú að velta fyrir þér hver forgangsröðun maka þíns er í lífinu. Snerting, augnsamband, samtöl og málamiðlanir eru allt mikilvægur hluti af farsælu sambandi. Ef makinn er ekki til í að leggja neitt á sig ætti það að hringja viðvörunarbjöllum.“

Á sama tíma segir Dana að það sé mikilvægt að gera sér grein fyrir hvort símanotkunin sé vandamál eða ekki. „Ef þú lætur það fara í taugarnar á þér í hvert skipti sem maki þinn tekur upp símann, þá ertu örugglega að gera úlfalda úr mýflugu. Við lifum á 21. öldinni og fólk notar símann til að skoða veðrið, rata, skoða fréttir og margt fleira. Aðal málið er auðvitað að eiga heilbrigð samskipti.“

Heimildir: Thenest.com

SHARE