Kókosolíuæðið hefur líklega ekki farið framhjá neinum, það eru allir að nota hana! Allt frá því að elda uppúr henni til þess að klína í hárið til þess að smyrja framan í sig. En það leynist líklega fleira í eldhússkápnum sem má nota í fegrunarskyni – matarsódinn gamli góði!
Hér eru nokkur ágætis ráð:
- Hann fjarlægir þyngslin sem koma í kjölfar of mikillar notkunar hárvara. Settu magn á stærð við tíkall út í sjampóið þitt og þvoðu svo hárið. Hársvörðurinn verður glansandi hreinn!
- Svo má nota hann í stað sjampó. Ein teskeið af matarsóda út í einn bolla af volgu vatni, hrært þar til uppleyst og nuddað í hársvörðinn og niður að enda. Þessi blanda hreinsar mjög vel. Passaðu að skola vel og nota svo hárnæringu (eða eplaediksblöndu ef þú ert að taka náttúrulegu leiðina).
- Hann er ágætis skrúbbur. Blandaðu 3 á móti 1 af vatni í hvaða magni sem er og þú ert komin með prýðilegan skrúbb. Ef þú hendir smá höfrum út í blönduna að auki ferðu virkilega að sjá mun. Forðastu viðkvæm svæði og í kringum augu.
- Tvær matskeiðar af matarsóda og nokkrir dropar af ilmolíu að eigin vali út í volgt vatn verða að dýrindis fótabaði. Hvað er meira slakandi en að vita að þú ert að spara þér peninga?
- Á raksár – þessi 3 á móti 1 blanda sem hefur verið nefnd áður. Berið hana á möguleg sár sem hafa hlotist af rakstri.
- Hálfur bolli af matarsóda út í baðið – hin upprunalega baðbomba. Hreinsar olíur af húðinni og mildar ýmis húðvandamál á borð við skordýrabit, veðurbarna húð og sólbrennda. Baðblandan mýkir líka húðina og skolar af þér svitalykt.
- Til tannhvíttunar. Búðu til tannkrem úr matarsóda og örlitlu vatni og burstaðu tennurnar upp úr blöndunni. Svo má einnig skola munninn með blöndu úr teskeið af matarsóda út í vatnsglas. Fínt á munnangur líka!
Það þarf ekki alltaf að eyða formúgu í dýr krem, smyrsli og þvíumlíkt. Stundum er svarið að finna í eldhússkápnum!