Er of mikið fyrir fullorðna að sofa 8-9 klukkustundir á sólarhring?

Það skiptir miklu máli að hugsa vel um svefninn, því ef svefninn er ekki í lagi er það fljótt að vinda upp á sig með öðrum vandamálum. Það er bara svolítið þannig. Þessi frábæra grein birtist á Betri Svefn og fannst okkur kjörið að deila henni með ykkur.

Það er mjög algengt að við hjá Betri svefni séum spurð að því hversu mikið við þurfum að sofa á sólarhring. Svarið okkar er að á bilinu 7-9 klukkustundir sé ákjósanlegast. Þetta er töluvert breitt bil en öll erum mið misjöfn og svefnþörfin því nokkuð einstaklingsbundin. Það er vitað að það getur haft jafn neikvæð áhrif á heilsu og líðan að sofa of mikið eins og að sofa of lítið. Í raun eru nokkrar stórar rannsóknir sem benda til þess að best sé að nætursvefninn sé sem næst 7 klukkustundum, að það sé í raun “töfratalan” þegar kemur að svefni.

Sem dæmi um rannsóknir sem benda á þetta eru:

  • Rannsókn sem birtist árið 2002 og var gerð í Háskólanum í San Diego þar sem rúmlega milljón einstaklingum var fylgt eftir í sex ár. Þessir einstaklingar voru að taka þátt í rannsókn á krabbameini en svefn var einn af mörgum þáttum sem skoðaðir voru. Þeir sem sögðust sofa á bilinu 6.5-7.4 klukkustundir á sólarhring höfðu betri lífslíkur en þeir sem sváfu styttra eða lengur að jafnaði. Þessar niðurstöður voru enn marktækar þegar leiðrétt hafði verið fyrir aðra þætti sem hafa áhrif á lífslíkur, s.s. heilsufar og lífsstíl.
  • Árið 2011, fundu sömu vísindamenn frekari sannanir á því að ákjósanlegast væri að sofa í kringum 7 klukkustundir á sólarhring. Notast var við hreyfimæli til að fylgjast var með svefni 450 kvenna. Við 10 ára eftirfylgd kom í ljós að þær konur sem sváfu skemur en 5 klukkustundir eða meira en 7.5 klukkustundir höfðu minni lífslíkur.
  • Rannsókn sem birtist á síðasta ári og notaðist við gögn notenda Lumosity heimasíðunnar. Þarna var svefntími um 160.000 notenda skoðaður og þeir látnir fara í flókin minnis – og reiknispróf. Í ljós kom að hugræn geta jókst eftir því sem fólk fékk meiri svefn upp að 7 tímum, en þá fór getan að minnka á ný.

Miðað við þessar niðurstöður virðist 8 tíma svefn jafnvel vera of mikið fyrir marga. Það eru þó alls ekki allir á sama máli hvað þetta varðar og ljóst að töluverður breytileiki á svefnþörf er á milli einstaklinga. Það er mikilvægt að hafa í huga að gæði nætursvefnsins skipta ekki minna máli en lengd hans.

Ef þú átt við langvarandi svefnvandamál að stríða og vilt sofna hraðar, auka orku og bæta minni er gott að athuga hjá þínum lækni hvort að svefnmeðferð sé viðeigandi. Þetta á sérstaklega við ef þú  finnur einnig fyrir syfju og þreytu yfir daginn. Þú getur smellt á appelsínugula takkann hér að neðan til að svara stuttu prófi og séð hvort að meðferð Betri svefns henti þér

SHARE