Er slæm hugmynd að sleppa ruslfæði alveg?

Heimasíðan Betri næring er glæsileg ný síða þar sem hægt er að lesa sannleikann um næringu og heilsu og eru það þau Kristján Már Gunnarsson og Ragna S. Óskarsdóttir sem halda síðunni úti.

Þau birtu á dögunum þessa flottu grein um ruslfæði og fengum við leyfi til að birta hana hér.

———————–

Ruslmatur er ávanabindandi.

Þetta er staðreynd … neysla þess kveikir á sömu svæðum í heilanum og neysla fíkniefna (1).

Hjá mörgum er matarfíkn raunverulegt og grafalvarlegt vandamál (2).

Efnaferlar í heilanum verða fyrir áhrifum og fólk missir stjórn á hugsunum sínum og hegðun.

Fólk endar á því að borða allt of mikið og getur einfaldlega ekki hætt, sama hversu mikið það reynir að beyta viljastyrknum.

Fíkn í ruslfæði og vímuefni er í grundvallaratriðum sú sama

Ég er fyrrverandi fíkill og hef farið í margar meðferðir, fangaklefa oftar en ég get talið, hef verið lagður inn á geðdeild og farið margar ferðir á slysó vegna of stórra skammta.

Ég er líka fyrrverandi reykingamaður og hef því mikla reynslu af fíkn (edrú síðan 4. janúar 2007).

Nokkrum árum eftir að ég varð edrú fór ég að þróa með mér matarfíkn.

Ég var orðinn mjög áhugasamur um næringu og heilsu, en ég átti mjög erfitt með að halda mig við það sem ég vissi að væri hollt.

Einn daginn áttaði ég mig á því að þráhyggjan og hugsanirnar voru nákvæmlega þær sömu og þegar ég var að misnota eiturlyf.

Munurinn var enginn, efnin bara önnur og félagslegu afleiðingarnar ekki jafn slæmar.

Löngunin í ruslfæði er nákvæmlega sú sama og löngunin í fíkniefni. Nákvæmlega sú sama.

Síðan þetta gerðist hef ég rætt við nokkra af vinum mínum sem eru líka fyrrverandi fíklar. Þeir eru sammála því að löngunin í ruslfæði er nákvæmlega eins og löngunin í fíkniefni.

Jafnvel þó margir viti ekki einu sinni að matarfíkn sé til, þá er ég sannfærður um að hún er risastórt samfélagslegt vandamál í dag og ein af helstu ástæðum þess að það er nánast ómögulegt fyrir suma að halda sig við hollt mataræði.

Á meðan ég man… þú þarft EKKI að eiga í vanda með reykingar, lyf eða áfengi til að ánetjast ruslfæði.

Ef þú heldur að þetta geti átt við þig, þá skaltu spyrja sjálfan þig þessara 5 spurninga:

    1. Langar þig oft í sætindi eða þvíumlíkt, þó þú sért saddur?

 

    1. Færðu samviskubit eftir að hafa borðað suman mat, en færð þér samt fljótlega meira af honum?

 

    1. Býrðu til afsakanir í huganum til að réttlæta fyrir þér af hverju þú ættir að fá þér suman mat?

 

    1. Hefur þú árangurslaust reynt að setja þér reglur (eins og svindlmáltíðir / daga) sem ekki hafa gengið upp?

 

  1. Hefur þér mistekist að stjórna hversu mikið þú borðar af sumum matartegundum, þótt þú vitir að þær séu að valda þér líkamlegum skaða (þ.m.t. þyngdaraukningu)?

Þetta eru allt dæmigerð einkenni matarfíknar.

Ef spurningarnar eiga við þig, þá átt þú við alvarlegt vandamál að stríða og ættir að byrja að gera eitthvað í málinu, annars mun það bara versna og á endanum eyðileggja heilsu þína.

Lögmál fíknar

Á þeim árum sem ég barðist við fíknina, lærði ég ýmislegt.

kona að kremja franskar

Mikilvægasta lexían er kölluð lögmál fíknar:

“Að gefa óvirkum fíkli skammt af efninu sem hann var háður mun kveikja aftur á fíkninni af fullum krafti.”

Fyrrverandi reykingamaður sem fær sér smók af sígarettu mun þegar í stað verða háður aftur og gæti daginn eftir verið farinn að reykja aftur pakka á dag.

Alkóhólisti sem fær sér sopa af bjór verður fyrir bakslagi … með öllum þeim hræðilegu afleiðingum sem því fylgja. Einn sopi getur eyðilagt líf alkóhólista.

Ég er persónulega sannfærður um að fíkn í ruslfæði er ekkert öðruvísi. Einn biti, eitt “svindl” – það þarf ekki meira.

Matarfíkill sem hefur staðið sig vel í langan tíma og ákveður að láta undan lönguninni “bara einu sinni” mun falla og byrja að borða ruslfæði oftar.

Þeir sem eiga sér sögu um að sveiflast til í þyngd munu þekkja þetta vel.

Hvað með hófsemi?

Margir sérfræðingar í næringu eru andvígir “öfgafullri” nálgun eins og að útiloka alveg ruslmat úr fæðunni.

Þeir ráðleggja fólki að sleppa ekki þessu fæði, heldur borða það sjaldan og í litlu magni (“allt í hófi” mantran).

Þó þessi aðferð geti verið raunhæf fyrir suma, þá er hún algjörlega vonlaus fyrir matarfíkla.

Þegar um er að ræða fíkn, þá er hófsemi dæmd til að mistakast. Í hvert einasta skipti. Það er ekkert sem styður það að matarfíkn sé öðruvísi en önnur fíkn.

Að segja matarfíkli að borða ruslmat í hófi er eins fáránlegt og að segja alkóhólista að drekka bjór í hófi.

Það einfaldlega virkar ekki, punktur.

Við “þurfum” ekki að borða ruslmat

Við þurfum öll að borða eitthvað … annars deyjum við úr hungri. Það segir sig sjálft.

Það er mjög mikilvægt að gera sér grein fyrir að það hafa ekki öll matvæli þessi áhrif.

Flestir matarfíklar gúffa ekki í sig káli og eggjum, þeir eru að troða sig út á unnu ruslfæði sem inniheldur mikinn sykur, hveiti og önnur mikið unnin efni.

Það er engin lífeðlisfræðileg þörf fyrir ruslmat í mataræðinu. Þetta rusl varð ekki til fyrr en mjög nýlega í þróunarsögunni og gen okkar hafa ekki breyst frá því fyrir þann tíma.

Matarfíklar geta borðað flest náttúruleg, óunnin matvæli án vandkvæða. En þeir þurfa að forðast matvæli sem valda fíkn og ofáti.

Fólki sem tekst þetta missir oft töluverða þyngd án þess að reyna á sig. Það gerðist hjá mér og öllum öðrum matarfíklum ég þekki.

Algjört bindindi er það eina sem virkar gegn fíkn

Hvert er þá svarið fyrir matarfíkla?

Lausnin er sú sama og þegar um er að ræða aðra fíkn … að forðast ávanabindandi efnin. Alltaf.

Ekkert ruslfæði á afmælum, ekkert ruslfæði á jólunum. Ekkert. Aldrei. Ekki einn biti.

Fyrir fíkla, þá er það ALLT eða EKKERT.

Annaðhvort forðastu ruslmat alveg, eða þú borðar hann stöðugt. Það er ekkert þarna á milli. Einn biti mun valda falli og eyðileggja allt.

Bindindi er það eina sem virkar gegn fíkn. Punktur.

Þetta er ekki eins erfitt og þú heldur

Þú gætir haldið að algjört bindindi sé ákaflega erfitt, en það er það reyndar ekki.

Það sem ER erfitt er að reyna að hafa stjórn á sterkri lífefnafræðilegri þörf (fíkn) með viljastyrkinn einan að vopni. Fyrir þann sem er með alvöru fíkn, þá er það einfaldlega ómögulegt.

Á hinn bóginn, þegar þú hefur tekið þá ákvörðun að borða aldrei þetta rusl framar, þá verður raunverulega miklu auðveldara að halda sig við hollt mataræði. Í alvöru.

Þegar þú býður sjálfum þér ekki einu sinni upp á möguleikann á “svindli”, þá er engin þörf fyrir þig að byrja að réttlæta neitt í höfðinu á þér … svo fíknin gerir jafnvel aldrei vart við sig.

Ef þú hefur gengið í gegnum margar misheppnaðar tilraunir til að borða í “hófi” þá ættir þú kannski að velta fyrir þér að sleppa þessum mat … alveg.

Það gæti bjargað lífi þínu.

Þessi grein birtist upphaflega á AuthorityNutrition.com.

P.S. Ekki gleyma að læka okkur á Facebook!

SHARE